Fara í efni

ÞINGMENN SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS Í HUGSJÓNAHAM

Yfirleitt hrífst ég af hugsjónafólki. Að sjálfsögðu er hrifningin þó háð því hver hugsjónin er. Það verður að játast að hugsjón þeirra Bjarna Benediktssonar, Birgis Ármannssonar, Drífu Hjartardóttur, Guðjóns Hjörleifssonar, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, Gunnars Örlygssonar, Péturs H. Blöndals og  Sigurðar Kára Kristjánssonar eins og hún birtist í þingskjali nr. 1056, er ekki sérlega hrífandi. Þetta hugsjónaplagg þeirra félaga gengur út á að svipta opinbera starfsmenn þeim rétti að þeim skuli veitt áminning áður en þeim er sagt upp störfum. Áminningarskyldan, sem svo hefur verið nefnd, var sett í lög og samninga til þess að koma í veg fyrir duttlungastjórnun.

Stjórnunarréttur á kostnað réttlætis

Áminningarskyldan sem forstöðumaður skal hlíta gerir það nefnilega að verkum að starfsmanni gefst kostur á því að bæta ráð sitt eða eyða misskilningi ef um slíkt er að ræða.
Þetta gefa ofangreindir þingmenn Sjálfstæðisflokksins greinilega lítið fyrir.
Í greinargerð með frumvarpi þeirra er gefin skýring á því hvers vegna lagt er til að felld verði brott sú skylda að gera áminningu að skilyrði þess að hægt sé að segja starfsmanni upp störfum: Með kröfu um formlega áminningu, segja þingmennirnir "sé stjórnunarrétti vinnuveitanda settar verulegar skorður á kostnað skilvirkni og hagkvæmni. Með frumvarpinu er þannig stefnt að auknum sveigjanleika í rekstrarumhverfi stofnana ríkisins og stuðlað að því að ríkið eigi ávallt á að skipa hæfustu starfsmönnum sem kostur er á hverju sinni og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt…"
Þessi rök kaupi ég ekki. Völd stjórnanda eru vissulega tryggð en á kostnað annarra starfsmanna.

Hvern er verið að styrkja?

En hverjir skyldu helst þurfa á auknum lögbundnum völdum að halda? Kraftmikill og sjálfsöruggur stjórnandi talar augliti til auglitis við starfsmann sem sinnir ekki starfi sínu sem skyldi og segir honum að til standi að víkja honum úr starfi og hvers vegna. Hinn óöruggi forstöðumaður – að ekki sé minnst á hinn sem er ranglátur duttlungastjórnandi  – vill gjarnan komast hjá því að eiga nokkur samskipti við þann einstakling sem á að reka. Þessum aðila vilja þingmennirnir koma til aðstoðar og tryggja með lögum heimildir hans til valdboðs, stjórnunarréttinn einsog þetta er kallað.
Þingmennirnir aðhyllast greinilega forstjórahyggju, en hún byggir á því að ráða eigi forstjóra sem síðan hafi "sveigjanleika"  til að skáka hinu starfsfólkinu til að vild. Það er mín sannfæring að þetta tryggi ekki hinu opinbera hæfustu starfsmennina eins og þingmenninrnir staðhæfa. Þvert á móti er þetta til þess fallið að skapa hræðslu og undirgefni, jafnframt því sem hlaðið er undir óhæfa stjórnendur.

Sjónarmið starfsfólks

Frumvarpshöfundar minna á það í greinargerð að sams konar frumvarp hafi komið fram frá fjármálaráðherra fyrir fáeinum árum. Þeir hefðu jafnframt mátt láta þess getið að þáverandi fjármálaráðherra vildi virða sjónarmið heildarsamtaka opinberra starfsmanna, sem andmæltu frumvarpi hans og færðu fyrir því ítarleg rök. Þess vegna varð úr að ráðherra dró frumvarp sitt til baka.
Sennilega gefa sjálfstæðisþingmennirnir átta lítið fyrir röksemdir frá samtökum launafólks. Í sjálfu sér er ekki hægt að gagnrýna þá fyrir að beita sér í málum sem þeim finnst vera brennandi réttlætismál. Þó verð ég að segja að glæsilegri hugsjónum hef ég kynnst um dagana en þeirri að vilja auðvelda forstjóra að reka starfsmann skýringarlaust.

Nýleg umfjöllun um svipað efni HÉR