Þingvíti vakin upp
Birtist í Mbl
Undanfarna daga hefur talsvert verið til umræðu, m.a. á síðum þessa blaðs, sú ákvörðun forseta Alþingis að beita undirritaðan svokölluðu þingvíti samkvæmt þingskaparlögum. Frá þessu hefur verið greint undir talsvert fyrirferðarmiklum fyrirsögnum enda í fyrsta skipti um áratugi sem þessu lagaákvæði er beitt. Forseti Alþingis hefur heimild til þess að beita þingvíti samkvæmt 89. grein þingskaparlaga. Greinin er svohljóðandi: „Ef þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu skal forseti kalla til hans: „Þetta er vítavert,“ og nefna þau ummæli sem hann vítir. Nú er þingmaður víttur tvisvar á sama fundi og má þá forseti, með samþykki fundarins, svipta þingmanninn málfresli á þeim fundi.“ Þetta er lagagreinin sem Halldór Blöndal, forseti Alþingis, studdist við síðastliðinn fimmtudag þegar hann ákvað að beita henni gagnvart undirrituðum. Um er að ræða fornt ákvæði og áður stóð kóngur þar sem nú stendur forseti Íslands. Síðast þegar gert var uppkast að endurskoðun þingskaparlaga var reiknað með að þetta ákvæði félli brott.
Tildrögin voru þessi: Steingrímur J. Sigfússon hafði kvatt sér hljóðs og spurst fyrir um hverju það sætti að umræðu um byggðamál, sem hafin var á Alþingi í desember, hefði ekki verið lokið. Þessi umræða er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og lögbundið að hún fari fram. Upphafsorð Steingríms voru þessi að loknu ávarpi til þingforseta: „Hinn 11. des. sl. hófst hér á Alþingi umræða um byggðamál, um Byggðastofnun og framgang byggðaáætlunar, og flutt var munnleg skýrsla hæstvirts iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ráðherra byggðamála. Þessi umræða fór fram samkvæmt ákvæðum 13. greinar laga um Byggðastofnun. Þegar umræðunni var frestað fyrir jól á síðasta ári voru að minnsta kosti 10 manns á mælendaskrá og þar á meðal sá sem hér talar. Ég leyfi mér því, herra forseti, að inna hæstvirtan forseta eða hæstvirtan ráðherra byggðamála eftir því hvenær menn hafi hugsað sér að halda þessari umræðu um byggðamál áfram og ljúka henni. Ég leyfi mér að segja herra forseti, að oft var þörf en nú er nauðsyn eins og ástandið er í byggðamálum.“
Nú fór í hönd umræða um þetta efni. Iðnaðarráðherra kvað eðlilegt að þessi fyrirspurn kæmi fram enda hafi sú byggðaáætlun sem unnið væri eftir ekki lengur lagagildi. Forseti Alþingis vísaði hins vegar ábyrgðinni yfir á þingflokksformenn, og gaf í skyn að þeir kæmu sér jafnan saman um dagskrá þingsins. Þetta er einföldun og gefur ekki rétta mynd. Nú er það vissulega svo að oft er ágætt samkomulag um hvaða mál eru tekin fyrir og þannig ætti það alltaf að vera. Staðreyndin er engu að síður sú að stjórnarfrumvörp og mál sem eru á forræði ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans hafa forgang og eru jafnan sett á dagskrá þegar ríkisstjórninni hentar. Um forgang stjórnarmála hefur minnihlutinn fengið litlu sem engu ráðið. Það er því vægast sagt misvísandi að kenna þingflokksformönnum um að umrætt stjórnarmál hefði ekki komið á dagskrá. Það gerði forseti þingsins þó og hafði að engu skýringar mínar sem ég gaf úr ræðustól. Þegar ég reyndi síðan að leiðrétta þetta úr sæti var ég sakaður um að sýna ekki háttvísi. Orðaskipti mín og forseta Alþingis og framíköll annarra þingmanna og ráðherra voru þessi:
Forseti (Halldór Blöndal): „Þar sem fyrispurn var beint til mín um það hvenær framhaldsumræða yrði um byggðamál vil ég að það komi fram sem er nauðsynlegt að á fundi sem ég átti með formönnum allra þingflokka um það hvaða mál yrðu tekin fyrir í þessari viku var ákveðið að taka stjórnarfrumvörp eftir því sem ynnist en reyna jafnframt að koma á dagskrá málum sem þingmenn höfðu flutt. Var um þetta algert samkomulag á fundinum en ekki kom til álita þar sem enginn nefndi það að ræða þær skýrslur sem ekki hefur tekist að ljúka umræðum um, það er skýrslu um byggðamál og skýrslu um Ríkisendurskoðun. Sjálfsagt er að taka þetta mál upp við formenn þingflokka þegar ég ræði við þá um þau mál sem tekin skulu fyrir í næstu viku.“
Ögmundur Jónasson: „Herra forseti. Það er rétt hjá hæstvirtum forseta að þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa lagt á það ríka áherslu að þingmannamál og ekki síst úr stjórnarandstöðu verði tekin hér til umfjöllunar á þingi. Hinu hafa þeir ekki ráðið að ríkisstjórnin og stjórn þingsins hefur jafnan sett í forgang þau mál sem koma frá ríkisstjórninni og að sjálfsögðu ber ríkisstjórninni að svara fyrir stefnu sína í byggðamálum og það er samkvæmt lögum að fjallað er um Byggðastofnun og framvindu byggðaáætlunar. Og það er ófært að þessari umræðu sem fram fór í fyrri hluta desembermánaðar skuli hafa verið frestað fram á þennan dag og ekki fyrirséð hvenær hún verður tekin aftur á dagskrá...“
Forseti (Halldór Blöndal): „Ég sé ástæðu til þess vegna ummæla hv. alþingismanns að ítreka það sem ég áður sagði að ég hef haft samráð við formenn þingflokka um dagskrána og um leið og beiðni kemur fram um það að... (ÖJ: Ekki um stjórnarmálin). Ég hélt í sakleysi mínu og vegna þess að ég er ekki þingreyndur maður að hv. þingmenn væru svo háttvísir að þeir gripu ekki fram í fyrir forseta þingsins þegar hann er að tala við þá. (ÖJ: Það þekkir hann alla vega, háttvísina, hæstvirtur forseti). (Magnús Stefánsson kallar úr sæti sínu: ...víta manninn) (Valgerður Sverrisdóttir kallar úr sæti sínu: Þó fyrr hefði verið). Hv. Þm. Ögmundur Jónasson, 13. þm. Reykjavíkur, sagði við forseta: „Það þekkir...“ (ÖJ: Hann þekkir háttvísina, hæstvirtur forseti.) „Hann þekkir háttvísina, hæstvirtur forseti.“ - Þetta er vítavert.
Ég hef svarað því sem ég sagði. Ég hef haft samráð við formenn þingflokka um það hvaða mál skuli tekin á dagskrá og ég hef þegar sagt hv. 3. þingmanni Norðurlands.e. að sjálfsagt er að taka þetta mál fyrir, skýrslu byggðaráðherra, halda áfram umræðunni um hana, sjálfsagt alveg.“
Svona voru þessi orðaskipti sem orðið hafa tilefni talsverðrar fréttaumfjöllunar þar sem þingvíti var nú beitt í fyrsta skipti í hálfa öld. Ég hef orðið var við það að forseti Alþingis, Halldór Blöndal vilji nú skýra þingvítið á þeirri forsendu að ég hafi kallað úr sæti mínu. Eins og hér má sjá er ég hins vegar einvörðungu víttur fyrir þau ummæli mín að forseti Alþingis kunni skil á háttvísi. Aðeins er heimilt að beita þingvíti vegna ummæla alþingismanna. Fyrir öðru er ekki lagastoð. Dæmi nú hver fyrir sig.