Þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúka
Birtist í Mbl
Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur borið fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um Kárahnjúkavirkjun og framtíðarnýtingu hálendisins. Allur þingflokkur VG stendur að tillögunni en fyrsti flutningsmaður er Kolbrún Halldórsdóttir, fulltrúi þingflokksins í umhverfisnefnd. Samkvæmt þingsályktunartillögunni er lagt til að kjósendur verði beðnir að velja á milli tveggja kosta:
a) Núverandi áforma um Kárahnjúkavirkjun með virkjun Jökulsár á Dal og Jökulsár í Fljótsdal ásamt með tilheyrandi stíflum, vatnaflutningum, veitum og öðrum tengdum framkvæmdum.
b) Frestun ákvarðana um framtíðarnýtingu svæðisins uns tekin hefur verið afstaða til verndunar þess og stofnunar þjóðgarðs með einu stærsta ósnortna víðerni Evrópu. Einnig liggi þá fyrir endanleg rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma með flokkun virkjanakosta, stefnumótun um framtíðarskipan orkumála og áætlun um orkunýtingu til lengri tíma.
Umræðunni útvarpað og sjónvarpað
Umræðu á Alþingi um þessa þingsályktunartillögu verður útvarpað og sjónvarpað og er það til marks um mikilvægi málsins og þá áherslu sem þingflokkur VG leggur á það. Samkvæmt þingskapalögum er heimilt að láta fara fram útvarpsumræðu ef mál er talið vera af þeirri stærðargráðu að slíkt sé við hæfi.
Án efa deila fáir um að Kárahnjúkavirkjun og stóriðjuáform stjórnvalda í tengslum við hana eru eitt stærsta mál sem komið hefur fyrir Alþingi í seinni tíð.
Í fyrsta lagi er um að ræða meiri röskun á náttúru Íslands af mannavöldum en dæmi eru um. Af yfirlýsingum fulltrúa ríkisstjórnar mætti ætla að um minni háttar tilfærslur væri að ræða, að beina einni ársprænu í aðra, reisa stíflugarð hér og grafa göng þar. Sannleikurinn er allt annar. Til stendur að reisa risavaxna stíflugarða og breyta farvegi stórfljóta með svo alvarlegum keðjuverkandi afleiðingum að náttúrufar í stórum hluta landsins mun raskast verulega. Og það sem verra er, spjöllin verða óafturkræf. Það er lágmarkskrafa að þjóðin verði spurð álits en ekki valtað yfir þjóðarviljann af ríkisstjórn og hagsmunaaðilum.
Í öðru lagi eru þær ákvarðanir sem við nú stöndum frammi fyrir mikilvægar í efnahagslegu tilliti. Um er að ræða stærstu fjárfestingar sem um getur hér á landi. Fjárfestingarnar munu nema mörg hundruð milljörðum króna. Líkur eru til þess að íslenska þjóðin verði gerð ábyrg fyrir þeim skuldbindingum sem þessum fjárfestingum munu fylgja, annaðhvort vegna Landsvirkjunar, sem þrátt fyrir alla einkavæðingardrauma er ennþá eign þjóðarinnar og starfar á ábyrgð hennar, eða vegna annarra beinna skuldbindinga ríkissjóðs. Þjóðin á heimtingu á því að fá fyrir því sannfæringu að fjárskuldbindingar sem þessu tengjast séu skynsamlegar og ábyrgar. Því miður skortir mjög á að upplýsingar liggi fyrir. Í þeirri umræðu sem myndi skapast í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðslu yrðu upplýsingar kallaðar fram í dagsljósið. Hið sama ætti væntanlega við um hugsanlegar fjárfestingar þeirra lífeyrissjóða sem íhuga að festa fé í þessum stóriðjuáformum. Um efnahagslegar afleiðingar þessarar risavöxnu fjárfestingar mætti hafa mörg orð. Hér er aðeins vikið að grundvallaratriðum.
Hvenær þjóðaratkvæða- greiðsla ef ekki nú?
Á undanförnum árum hefur oft verið rætt um nauðsyn þess að efla bein áhrif þjóðarinnar í mikilvægum málum. Í því sambandi er rætt um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvægustu mál sem upp koma. Þetta er slíkt mál. Ef einhver telur svo ekki vera væri áhugavert að heyra rökin. Eina ástæðan fyrir því að neita þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál væri hræðsla við lýðræðið og að málið þyldi ekki opinskáa umræðu. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs ætlar að leyfa sér að vera bjartsýnn á að krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu nái fram að ganga. Að óreyndu neitum við að trúa því að ríkisstjórnin telji sig hafa það veikan málstað að hún þori ekki að láta reyna á þjóðarvilja.