Þjóðarblómið
Skemmtileg er sú hugmynd að láta kjósa um þjóðarblóm. Verst er að almennt er fólk ekki búið að átta sig á að atkvæðagreiðslan stendur yfir einmitt nú og fáir dagar til stefnu eða fram til 15. október. Valið stendur á milli sjö blóma sem eru: Blágresi, Blóðberg, Geldingahnappur, Gleym-mér-ei, Holtasóley, Lambagras og Hrafnafífa eða Fífa eins og hún yfirleitt er kölluð. Það er ásæða til að hvetja fólk til þátttöku og verð ég að segja að öll þau blóm sem komin eru í "undanúrslit" eru að mínu mati verðug til að verða þjóðarblóm okkar. Fyrir mitt leyti hef ég komist að niðurstöðu. Niðurstaðan varð Fífa. Að hún yrði fyrir valinu hjá mér hefði ég ekki trúað að óreyndu. Ég hef þegar kosið Fífuna og lét þar stjórnast af röksemdum Rögnu S. Sveinsdóttur í grein hennar í Morgunblaðinu nýlega.
Hér er síðan slóðin sem hægt er að greiða atkvæði á.
Eftirfarandi er áðurnefnd grein eftir Rögnu S. Sveinsdóttur, leiðsögumann og fyrrverandi lektor í frönsku, sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 2. október um þjóðarblómið og kjör þess. Greinin þykir mér afar góð og hvet ég fólk að lesa hana:"GÓÐIR landsmenn, nú styttist sá tími sem þjóðin hefur til þess að íhuga val á þjóðarblómi eða plöntu; miklu skiptir að vel takist til og að valið verði hvorki illa grundað né handahófskennt. Hér skulu því tilgreind ýmis kennimörk er huga skal að áður en til endanlegs kjörs þess kemur, kennimörk sem notuð hafa verið með ýmsum þjóðum í viðlíka tilfellum.
Í fyrsta lagi þarf plöntu er flestir landsmenn þekkja, plöntu sem einkennir landið umfram aðrar, aðgreinir það jafnvel frá öðrum löndum og síðast en ekki síst plöntu sem verið hefur óhjákvæmileg undirstaða í daglegu lífi og menningu þjóðarinnar líkt og hlynur Kanada, sedrusviður Líbanons og papyrusplanta Egyptalands svo nokkuð sé nefnt.
Þegar litið er yfir þær plöntutegundir, sem lagðar eru til grundvallar vali okkar Íslendinga á þjóðarblómi eða plöntu og hugað er að þeim viðmiðunum sem að framan eru tilgreind kemur vart nema ein tegund til greina, þ.e.a.s. fífa; hana þekkja flestir, hún er sérstök, stílhrein, sterk í formi og myndrænt séð kjörin sem táknmynd, eða eins og Landvernd orðar það í bæklingi sínum: "Eitthvað villt og gróft, sem er svo lýsandi fyrir Ísland".
Fífa er mjög áberandi planta, ekki síst aldinið, sem má telja eitt fegursta djásn íslenskrar náttúru og skrýðir landið lengur en nokkur önnur tilgreindra plantna Landverndar, eða frá sólstöðum þar til ullin fýkur burt með haustvindum. Þá skreytir fífa öðrum plöntum fremur jafnt hálendi sem láglendi og hefur í aldanna rás stuðlað að jarðvegsfestu, umfram flestar aðrar plöntur landsins: með þéttriðnu rótarkerfi árþúsunda og rotnandi leifum hennar í raklendi hefur aldrei heyrst getið um landrof í fífuflóa; þannig skapar fífa "táknræna samstöðu um gróðurvernd" eins og komist er að orði í bæklingi Landverndar.
Hve einkennandi fífa er fyrir landið sést best á því hvílíka eftirtekt hún vekur meðal erlendra ferðamanna, en hún er fyrsta og að jafnaði eina plantan sem þeir spyrja hver sé, strax á fyrsta degi ferðar um landið; hún er m.ö.o. flestum erlendum ferðamönnum framandi og þar með eitt af sérkennum landsins; hennar gætir vart annars staðar á byggðu bóli í vestrænni veröld utan nyrstu og strjálustu byggða norðurhvelsins; auk þess er fífa enn þann dag í dag sú íslenska planta sem hve mest er safnað til þurrkunar og híbýlaprýði á vetrum, e.t.v. ómeðvitað sem einskonar minni um birtu og gróanda sumarsins.
Þá er komið að því atriði sem segja má að sé meginforsenda kjörs fífu sem þjóðarblóms, nefnilega því sem gerði hana að óhjákvæmilegri undirstöðu íslensks þjóðlífs í aldanna rás, en í u.þ.b. 1.000 ár af sögu landsins brann á kveikjum hennar svo og stönglum sbr.: "Ljósið kemur langt og mjótt, logar á fífustöngum...", það eina ljós er birtu bar í drungalegar vistaverur genginna kynslóða; þar með gerði hún íslenskri þjóð kleift að vinna, lesa og skrifa á löngum og dimmum vetrarkvöldum; fífa er þannig undirstaða andlegrar jafnt sem verklegrar menningar landsins og um leið tákn ljóssins í tvöföldum skilningi þar eð hún skrýðir landið einnig umfram aðrar plöntur í nóttla
Það skal að lokum tekið fram að einstaka aðrar plöntur á lista Landverndar, svo sem birki og hvönn, eiga athygli skilið við val á þjóðarplöntu, en allir gátu lifað án þeirra á meðan enginn komst af án fífu."