Fara í efni

ÞJÓÐARSÁTT UM HVAÐ?


Í dag var efnt til fundar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu með ríkisstjórn og aðiljum vinnumarkaðar. Þar á meðal var BSRB og var ég á fundinum sem formaður þeirra samtaka. Að loknum fundi sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, að samhljómur hefði verið með fundarmönnum. Að vissu leyti var það hárrétt. Allir vildu fundarmenn kveða niður verðsbólgudrauginn og litu svo á að þar þyrfti þjóðin öll að koma að málum. Talað var fyrir samstilltu þjóðarátaki.
En til þess að þetta verði ekki bara orðagjálfur þarf meira kjöt á bein. Á Íslandi hefur misrétti færst í aukana á undanförnum árum. Á sama tíma hefur ríkisstjórnin hafið stórfellda einkavæðingu innan heilbrigðisþjónustunnar.
Ef ríkisstjórnin ætlar að efna til þjóðarsáttar - nokkuð sem ég styð heilshugar - þá þarf hún að snúa af þessari braut; hefja markvissar aðgerðir til að jafna kjörin í landinu og vinda ofan af einkavæðingunni. Þar nægir ekki að láta staðar numið heldur falla frá fyrri ákvörðunum um „úthýsingu" og markaðsvæðingu - með öðrum orðum, snúa til baka. Og hvað með Íbúðalánasjóð? Svör óskast. Á að verða við kröfum fjármálastofnana um að slátra sjóðnum eða á að láta almannahagsmuni ráða og efla sjóðinn?
Þá þarf að endurskoða þau frumvörp sem koma í stríðum straumum út úr Stjórnarráðinu. Halda menn til dæmis að stjórnarfrumvarp um að afnema skatta af söluhagnaði fyrirtækja af hlutabréfum sé líklegt til að vekja fögnuð á meðal láglauna- og meðaltekjufólks? Halda menn að einkavæðingarstefna Guðlaugs Þórs og Ágústs Ólafs  sé til þess fallin að stuðla að þjóðarsátt?
Ég held ekki. Því fyrr sem ríkisstjórnin skilur þetta því betra. Ef hún ekki gerir það er ástæða til að óttast að engin verði þjóðarsáttin. Svo má hins vegar ekki verða.