Fara í efni

ÞJÓÐARVAKNING!

Þjóðarvakning! Ó, þjóð mín þjóð! Þú hefur mátt þola ýmsar raunir í gegnum aldirnar en samt lifað af og svo mun verða í þetta skiptið líka. Við munum sigrast á þessum vanda sem við stöndum frammi fyrir og virðist ógnar stór. Látum samt ekki stærð vandans byrgja okkur sýn á þær lausnir sem eru í boði. Hafi við nokkurn tíma þurft að standa saman þá er það núna við þessar erfiðu aðstæður sem munu hafa áhrif á lífsgæði okkar inn í framtíðina og móta börn og barnabörnin okkar. Vandi hvers og eins er og verður misjafn allt eftir því í hvernig aðstæðum hvert og eitt okkar er í. Við skulum ekki gleyma því að vandinn snýr að peningum sem er dauður hlutur og þar með umsemjanlegur. Það sem hægt er að ræða, hagræða, fella niður, fresta og semja um, það skulum við gera á besta mögulega máta, því þannig komumst við áfram með líf þjóðar okkar. Ef svo illa tekst til að gerðir samningar bregðast þá gerum við nýja og aftur nýja þangað til við erum komin út úr vandanum. Horfum á þetta sem jákvætt verkefni inn í framtíðina en ekki sem vandamál sem mun leiða þjóðina í glötun. Ljúkum sorgarferlinu, sleppum takinu og höldum áfram. Mér vitanlega þá hefur þessi kreppa ekki drepið neinn ennþá, því má ætla að þetta herði og þjappi okkur betur saman sem þjóð. Stöndum keik og snúum bökum saman og verjum rétt þjóðarinnar til að lifa í því alþjóða samfélagi sem við búum í og sínum í verki að þó við séum lítil þjóð þá höfum við fullan tilverurétt á við okkur stærri þjóðir. Hvar er þjóðarsálin okkar hér og nú? Hvar er samstaðan? Hvar er stoltið? Hvar er lífsgleðin? Hvar er þrautseigjan? Já! Hvar er...hvar er... Ó þjóð mín þjóð, upp með húmorinn og látum ekki deigan síga. Við erum Íslendingar og látum ekki bugast þó á móti blási. Við leituðum hingað á sínum tíma til að forðast ofríki og yfirgang höfðingja og konunga, höldum því vörð um sjálfstæði okkar og látum ekki kúga okkur til eins eða neins. Hvað höfum við lært af okkar ástkæra landi? Já, hvað hefur þetta fósturland kennt okkur frá landnámi? Þetta land íss og elda hefur fóstrað okkur vel og kennt okkur þrautseigju, áræðni, þor, umhyggju og trú á eigin styrk og gefið okkur lífshamingju. Hvað er hægt að biðja um meira? Við erum mótuð af þessu landi okkar sem við elskum og dáum og viljum hvergi annarstaðar vera. Sýnum núna hvað í okkur býr og öxlum ábyrgð á lífi þjóðar okkar allir sem einn og stöndum sem klettur út í ballar hafi og gefum okkur hvergi sama hvernig gefur á í lífsins ólgu sjó. Við erum jákvæð, lærdóms- og kærleiksrík þjóð. Áfram Ísland, áfram Íslendingar!
Guðmundur Y Hraunfjörð