ÞJÓÐHAGS-STOFNUN VAR ÞJÓNUSTU-STOFNUN VALDSINS
Ég hlustaði á útvarpsþáttinn Í vikulokin í dag. þar voru flestir þátttakendur að mæra gömlu Þjóðhagsstofnunina, hún hefði verið svo fagleg og hlutlaus. Einn þátttakenda var fyrrum forstjóri Þjóðhagsstofnunar. Ég man ekki betur en Þjóðhagsstofnun hafi alltaf verið þjónustustofnun við ríkisvaldið og ríkjandi öfl. Undirbjó alltaf kjarasamninga með endalausu væli og bölsýnistali. Stofnunin var síðan lögð niður í einhverju kasti Davíðs Oddssonar. Ekki ætla ég að réttlæta það. Hinu vil ég halda til haga og það er botnlaus þjónustulund hinnar aflögðu Þjóðhagsstofnunar. Reyndar verð ég að taka undir ein ummæli í þættinum í dag. Það var þegar Benedikt Jóhannesson sagði að það sem helst vantaði á Íslandi væru sjálfstæðir og gagnrýnir fjölmiðlar. Benedikt var nú reyndar ekki aðdáunarverður í sínum málflutningi til loka þáttarins. Einhver vinkona hans hafði orðið fyrir rosalegri kjaraskerðingu með gengisfallinu. En ef vinkonan hefði misst vinnuna? Gerir þessi spekingur sér ekki grein fyrir því að það eru til alls konar sveiflur í efnahagslífi þjóða, heimila og einstaklinga? Stöðugt gengi getur þannig þýtt óstöðug vinna.
Með kveðju,
Haffi