ÞJÓÐIN VILL...?
Margt ágætt sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld. Ekki var ég honum þó sammála um allt. Þannig var ofsagt hjá honum að mínu mati að „þjóðin" vildi fá að vita hvað kæmi út úr viðræðunum við ESB. Það er líka ofsagt hjá utanríkisráðherra að ESB/EVRU gulrótin væri nú digrari og litfegurri en áður! Um hið síðara ætla ég ekki að fjölyrða, þar tala fréttir af efnahagsþrengingum og atvinnuleysi innan Evrópusambandsins og ógöngum evrunnar sínu máli. Ég ætla hins vegar að hafa nokkur orð um meintan þjóðarvilja.
Þrískipt þjóð
Hluti þjóðarinnar vill ganga í ESB, óháð hvað kemur út úr viðræðum um aðild Íslands. Á þessu máli hefur Samfylkingin verið nær óskipt um nokkuð langa hríð og að sjálfsögðu margir fylgismenn annarra flokka. Þessi hluti þjóðarinnar hefur barist fyrir inngöngu í ESB og hefur viljað þangað inn hvað sem það kostar.
Annar hluti þjóðarinnar vill vita hvað kemur út úr viðræðum um undanþágur og tímabundna fresti frá regluverki Evrópusambandsins. Þetta eru væntanlega þau sem utanríkisráðherra vísaði til sem „þjóðarinnar" sem vildi sjá hvað væri í pakkanum. Með skírskotun til þessa hóps og af virðingu fyrir sjónarmiðum hans féllst ég á að ganga til viðræðna við ESB, ekki vegna þess að ég teldi það æskilegt sjálfur, heldur vegna þess að þetta var ótvíræður vilji mjög margra. Þarna þótti mér utanríkisráðherra nokkuð ónákvæmur þegar hann vísaði í afsöðu okkar ráðherra og þingmanna VG til aðildarumsóknar á sínum tíma. Það sem ég og mörg okkar misreiknuðum þá var hve djúpt þetta ferli reyndist og hve ágengt Evrópusambandið er í kröfum sínum og hve viljugt það er að smyrja þetta ferli allt með fagurgala og fégjöfum.
Síðan eru það við hin, sem erum andvíg því að Ísland gangi í Evrópusambandið, hvað sem út úr viðræðunum kemur enda sýni reynslan að uandanþágur eru sjónarspil til bráðabirgða. Hinir miklu „sigrar" við samningaborð í aðildarviðræðum hafa oftar en ekki reynst vera sjónhverfingar einar. Innganga í Evrópusambandið jafngildir að gangast enn lengra undir miðstýringu og regluverk ESB sem virðist engin takmörk þekkja fyrir forræðishyggju sinni. Þess vegna vara ég við öllu áróðursgjálfrinu sem tengist samnigaviðræðunum.
Ákveðum hvenær við kjósum
Ef þjóðin segir nei, þá getum við hætt að senda flugvélafarma af starfsfólki fyrir gríðarlega fjármuni til að fletta pappír suður í Brussel og notað tímann og peningana sem sparast til uppbyggilegra verka. Okkur liggur á að komast út úr þessu endemis rugli. Við skulum hætta að tala um tímasetningu á þjóðaratkvæðgreiðslu einsog við fáum engu þar um það ráðið, þetta sé nánast komuð undir óviðráðanlegu náttúrulögmáli. Við eigum að sjálfsögðu að segja samninganefndunum hvenær hentar okkur að kjósa. Þær hagi sínum störfum í samræmi við það.