ÞJÓFNAÐUR ALDARINNAR
Eignatilfærslur frá almenningi yfir til fjármálamanna í tengslum við einkavæðingu ríkiseigna á undanförnum árum hafa verið tröllauknar og hafa margir þar makað krókinn, jafnvel orðið milljarðamæringar og vilja nú ráðslagast ekki einvörðungu með íslenskt atvinnulíf heldur þjóðfélagið í heild sinni, menntun,listir, heilbrigðis – og umhverfismál.
Auðlindatengingin margfaldar peninginn
Fyrst var sjávarauðlindin einkavædd, þá aðskiljanlegar arðvænlegar stofnanir og starfsemi sem áður skiluðu miklum fjármunum í almannasjóði sem núna renna í einkavasa. Og nú stendur fyrir dyrum að afhenda fjármagnseigendum fallvötnin og orkuna í iðrum jarðar. Einkavæðing orkugeirans snýst nefnilega um þetta. Allt útrásartalið er blekking. Ef þeir eru svona óskaplega brilljant í orkumálum Bjarni Ármannsson, Hannes Smárason og
Aðferðin
Þetta gerist svona: Hitaveita Suðurnesja er gerð að hlutafélagi. Ríkið selur sinn hlut með því skilyrði að einkaaðilar kaupi. Sá aðili heitir Geysir Green Energy, sem er dulnefni fyrir Glitni, FL Group og fleiri aðila. Síðan koma Goldman Sachs til sögunnar og er nú ætlunin að allir þessir aðilar renni saman við Reykjavík Energy Invest, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, sem um árabil hefur verið í hinni margrómuðu útrás en fyrst og fremst í samstarfi við ríki og sveitarfélög og opinber veitufyrirtæki á þeirra vegum. Það sem er að breytast er að til sögunnar eru að koma aðilar sem ætla sér að græða í orkugeiranum með öllum ráðum, innan lands sem utan, með fésýslukúnstum ekki síður en orkuframkvæmdum. Fésýslumennirnir eru nefnilega ekki fyrst og fremst að hugsa um hvernig þeir geta framleitt vistvæna orku þegar þeir ágirnast orkufyrirtæki. Því fer reyndar fjarri að svo sé.
Niðurlægingin
Óskammfeilin framganga einstaklinga í þessu stórfellda ráðabruggi er í senn skelfilegur og dapurlegur vitnisburður um mannlega niðurlægingu. Í Reykjavík Energy Invest, dótturfyrirtæki OR hafði Bjarna Ármannssyni, fyrrum Glitnis forstjóra verið leyft að kaupa hluti fyrir hálfan milljarð á genginu einum. Einhverjum einkavinum úr toppnum var boðið að kaupa hlutabréf á bilinu 10 til 30 milljónir króna á genginu 1,3 (sumir þeirra ætluðu sér meira) en almennir starfsmenn mega láta sér duga kaup fyrir 100 til 300 þúsund krónur. Topparnir telja greinilega hundraðfaldan mun á sér og almennum starfsmönnum vera við hæfi. Allir vita að þessar upphæðir sem þessir menn eru að borga sjálfum sér og ráðstafa hver til annars eru eignir sem eiga eftir að margfaldast. Þarna er verið að hagnast persónulega á almannafé því verðgildi dótturfyrirtækis OR byggir á sameiginlegum auðlindum og þekkingu sem samfélagið hefur skapað.
Hverjir ákveða?
Ef ekki verður gripið í taumana verður það að veruleika að Reykjavík Energy Invest og Geysir Green eignist nær helming í Hitaveitu Suðurnesja. Fréttablaðið sagði okkur í gær að „samkomulag“ væri nú um að aðskilja einkaleyfisstarfsemi Hitaveitu Suðurnesja frá öðrum rekstri, og þar með yrði hún áfram í meirihlutaeign sveitarfélaga. Hér er um að ræða, samkvæmt Árna Sigfússyni bæjarstjóra, veitukerfin í sveitarfélögunum. Hverjir gerðu þetta samkomulag? Hluthafar í Geysi Green? Er það ekki ráðherra sem þarf að samþykkja framsal og ráðstöfun einkaleyfisins komi til þess? Var fyrirtækinu skipt í tvennt? Þýðir þetta að Geysir Green Energy hafi engan aðgang að náttúruauðlindum sem eru á vegum HS? Það hlýtur að ráðast af þvi hvernig menn vilja túlka lögin um hitaveitur, raforkulögin og sjálf lögin um HS fá 2001.
Margt óljóst
Í þeim lögum veitti ráðherra HS einkaleyfi til starfrækslu hitaveitu og rafveitu innan þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að HS. Á þeim grunni hefur fyrirtækið fengið aðgang að náttúruauðlindunum. Því mætti ætla að þetta samkomulag jafngildi viðurkenningu á því að aðgangur fyrirtækisins að orkulindunum og einkaleyfi þess hafi verið háður þeim tilgangi félagsins að veita íbúum sveitarfélagsins heitt vatn og rafmagn og það hafi því verið ólöglegt að hleypa nýjum hluthöfum að þessum sömu orkulindum og einkaleyfi, þegar tilgangur þeirra var allt annar? Undanskildi Árni kannski í þessu samkomulagi einhverja tiltekna nýtingu náttúruauðlindanna til handa „hinum ósérleyfisvædda“ hluta HS, þ.e. Geysi Green Energy? Og þar sem HS mun fara um jarðir og sækja um rannsóknarleyfi og nýtingarrétt á náttúruauðlindunum munu allir hluthafar eiga sinn skerf.
Útrásin og forsetinn
Í fjölmiðlum er um þetta gjarnan rætt sem viðskiptamál. Því miður hangir annað og meira á spýtunni. Við erum að verða vitni að þjófnaði sem stjórnmálmenn verkstýra. Þannig á að ræða þetta mál. Ósvífnir fjárplógsmenn ætla sér að komast yfir auðlindir þjóðarinnar. Takist þeim það verður það þjófnaður aldarinnar, ef þá ekki Íslandssögunnar. Þarf ekki forseti Íslands, sem manna ákafast mærir hina íslensku útrásrastarfsemi, að íhuga þessa þætti málsins? Gæti verið að útrás sé eitt og útrás kunni einnig að þýða eitthvað eitthvað annað? Hvernig skyldi standa á því að innan Sameinuðu þjóðanna sé nú mikið rætt um leiðir til að sporna gegn því að fjárfestar læsi klóm sínum í vatn og orkulindir snauðra þjóða? Sameinuðu þjóðirnar biðla nú til opinberra veitufyrirtækja að koma illa stöddum vatnsveitum til hjálpar án þess að gróðasjónarmið stýri för. Að sjálfsögðu eigum við að svara slíku kalli og fara í þá útrás einsog orkufyrirtækin hafa verið að sækja í sig veðrið með að gera. Því miður virðast fjárgróðamenn nú vera að ná undirtökunum hér á landi varðandi framvinduna og stýra þessari þróun inn í allt annan faveg og þá þannig að útrásin þjóni fyrst og fremst þeirra pyngju.
Þessir aðilar hugsa nú gott til glóðarinnar. Ýmsir þeirra kunna að hugsa lengra. Til dæmis út eftir landgrunninu. Kannski er þar olíu að finna? Þá væri nú aldeilis gott að vera búinn að koma sér vel fyrir í orkugeiranum.