ÞJÓFNAÐUR Í ÞJÓÐMENNINGARHÚSI
Nú stendur til að selja Landssímann. Fyrirtækið Morgan Stanley hefur verið fengið til verksins. Svona rétt til málamynda. Það afhjúpaði Morgunblaðið í eftirminnilegri frétt í upphafi vikunnar undir fyrirsögninni Davíð og Halldór handsala samkomulag. Íslendingar þekkja vel þessa aðferðafræði í málum sem ganga í berhögg við vilja þjóðarinnar. Félagarnir tveir ákveða. Síðan er þingflokkunum stillt upp við vegg. Svo klæða menn sig upp á og steðja í Þjóðmenningarhúsið. Það er hálf dapurlegt til þess að hugsa að öll verstu myrkraverk ríkisstjórnarinnar eru kynnt þar. Þetta er fallegt hús með merka sögu. Ef til vill er það þess vegna sem menn með slæma samvisku leita þar athvarfs. Það gerði Einkavæðingarnefnd þegar hún boðaði sölu Símans í byrjun vikunnar. Gráðugir fjárfestar biðu utandyra. Þeir vita að þeirra menn hafa að venju unnið sitt verk vel: Hannað formúlu sem tryggir vildarvinunum bitann góða. En þjóðin, samkvæmt öllum skoðanakönnunum, er þessu hins vegar andvíg. Hvernig væri að taka undir með Jóni Bjarnasyni alþingismanni sem fer í farabroddi þingflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um söluna? Með því móti væri hægt að forða stórslysi. Með þjóðaratkvæðagreiðslu væri hægt að koma í veg fyrir þjófnað. Sala Símans í óþökk þjóðarinnar er nefnilega ekkert annað en þjófnaður. Sjá nánar HÉR.