Fara í efni

ÞJÓNUSTUTILSKIPUN ESB Í EÐLILEGUM FARVEGI

Morgunblaðið tekur bakföll í dag yfir því að ekki skuli hafa verið skrifað undir Þjónustutilskipun Evrópusambandsins á ríkisstjórnarfundi í gær. Ekki dugir minna en forsíða, innsíða og Staksteinar sem er með útleggingar um málið, væntanlega í tilefni þess að í dag ganga Íslendingar að kjörborðinu.  

Í endurmótun frá árinu 2004

Rifjuð er upp gagnrýni mín á Þjónustutilskipunina; gagnrýni sem ég hef deilt með verkalýðshreyfingunni í Evrópu og félagslega sinnuðum stjórnmálahreyfingum. Allar götur frá því tilskipunin kom fram árið 2004 hefur verið tekist á um innihald hennar. Hefði hún náð fram að ganga átakalaust í sinni upprunalegu mynd hefði evrópskum vinnumarkaði verið stefnt eitt hundrað ár aftur í tímann. Upprunalandsreglan svokallaða gerði ráð fyrir að lög, reglur og samningar heimalands þess fyrirtækis sem byði þjónustu í öðru landi skyldu gilda, ekki samningar og reglur gistilandsins. Frá þessu var fallið eftir hatramma baráttu verkalýðshreyfingarinnar og ótal félagasamtaka, en síðar hefur þessari reglu að hluta verið komið á að nýju í gegnum úrskurði Evrópudómsstólsins í Laval, Viking og Rüffertmálunum. Þau dæmi sýna að mikillar aðgæslu er þörf við innleiðingu á tilskipunum ESB.


Velferðarþjónustan verið varin

Annar ásteytingarsteinn var svo heilbrigðisþjónustan sem einnig átti að færa undir markaðslög. Þessu náðist að breyta þótt verkalýðshreyfingin, einkum innan almannaþjónustunnar, hafi viljað skýrari línur í þessu efni. Annars vegar hafa Norðurlandaþjóðirnar viljað aukna áherslu á vald sérhvers ríkis, hins vegar hafa verið uppi áherslur á meginlandinu um sérstaka skilgreiningu á reglum um heilbrigðisþjónustuna sem afdráttarlaust skilgreini hana sem velferðarþjónustu óháða markaðslögum. Menn vita sem er að einnig þarna eru til fjallabaksleiðir til að læða peningahagsmunum inn eftir spítalaganginum.


Norðmenn vilja vita hvað þeir skrifa undir

Á sínum tíma hótuðu Norðmenn að beita neitunarvaldi. Þeir hafa látið gera úttekt á málinu og gáfu sér til þess góðan tíma. Í loftinu lá að þeir kynnu að beita neitunarvaldi. Niðurstaða þeirra er hins vegar sú að tilskipunin hafi tekið svo jákvæðum breytingum að þeir geti sætt sig við hana, þó svo að hlutar verkalýðshreyfingarinnar séu enn mjög ósáttir við tilskipunina og telji að henni bera að hafna. Niðurstaða okkar gæti orðið sú sama og Norðmanna og líkur á því að svo verði, að tilskipunin verði innleidd hér á landi. En það verður aðeins gert eftir eðlilegt samráð við þá sem tilskipunin helst snertir. Mér ber sem heilbrigðisráðherra að yfirfara þá þætti sérstaklega sem snúa að velferðarþjónustunni og að sjálfsögðu þarf að hyggja að öllu því sem lýtur að lýðræðinu og launafólki og réttindum þess. Samráð við hagsmunaaðila og opin umræða um vafaatriði er lykilatriði. Því miður hafa á undanförnum árum orðið mjög slæm slys vegna þess að hagsmuna okkar hefur ekki verið gætt sem skyldi og nægir þar að minna á raforkutilskipunina sem allir sjá nú eftir að ekki skyldi óskað eftir undanþágu frá. Á þetta benti VG á sínum tíma en í Stjórnarráðinu var meira lagt upp úr því að sýna lipurð með undirskriftarpennann.

Jákvæður utanríkisráðherra

Utanríkisráðherra kom í gær á ríkisstjórnarfund með nokkrar tilskipanir frá Brussel til afgreiðslu. Hann kvaðst vilja vekja athygli heilbrigðisráðherra sérstakalega á þjónustutilskipuninni. Óskað var eftir því að málið fengi nánari skoðun. Ég varð ekki var við annað en utanríkisráðherra þætti það fullkomlega eðlilegt.
Ísland var keyrt í þrot vegna þess að aldrei var hlustað á varnaðarorð, allt keyrt áfram í óðagoti, umræðulaust.. Það mætti ekki spyrjast að eftir okkur væri beðið. Nægði þá að segja að einhverjir sérfræðingar hefðu lagt blessun sína yfir málið.

Nýja Ísland

Þessi tími er liðinn. Hann á að vera liðinn. Upp á að vera runninn tími yfirvegunar, tími málefnalegrar skoðunar, tími lýðræðis. Eitt má Morgunblaðið og allir vita: Ríkisstjórn með VG innanborðs verður aldrei gagnrýnislaus stimpilpúði.