Fara í efni

ÞJÓNUSTUTILSKIPUN MEÐ FYRIRVARA


Gott ef það var ekki á sjálfan kosningadaginn að Morgunblaðið birti forsíðufrétt sem síðan var matreidd í Staksteinum í tilefni alþingiskosniganna um að heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, hefði komið í veg fyrir að þjónustutilskipun Evrópusambandsins yrði samþykkt í ríkisstjórn.

Hvorki Morgunblaðið né aðrir fjölmiðlar virtust hafa áhuga á því að grennslast fyrir um hvers vegna ég vildi fara varlega. Í grein sem Páll H. Hannesson alþjóðafulltrúi BSRB skrifar í nýjasta fréttabréf Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar gerir hann ágætlega grein fyrir því hvers vegna ástæða var til að fara varlega. (Sjá hér: )
Í gær var þjónustutilskipunin samþykkt í ríkisstjórn með geirnegldum fyrirvörum Íslands um að almannaþjónustan yrði varin fyrir ágangi markaðsaflanna.
Um þetta má lesa hér: http://www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/3052  

Sú var tíðin að ráðandi öfl á Íslandi vildu samþykkja þjónustutilskipunina umyrðalaust og án nokkurs fyrirvara. Nú hafa vinnubrögðin breyst að þessu leyti. Sem betur fer standa Íslendingar utan ESB. Ef við værum þar innan múra væri ekki um það að ræða að gera fyrirvara einsog við nú höfum gert. Að þessu leyti er vörn fólgin í því að eiga aðeins aðild að EES samningnum en ekki Evrópusambandinu. Þetta hlýtur að verða einhverjum til umhugsunar!