Fara í efni

LÝÐRÆÐI

Hafi einhver ekki áttað sig á því að nú er tími breytinga runninn upp skal það vera nú. Það er ekki nóg að boða til kosninga og það er ekki nóg að skipta út fólki. Það þarf að skipta hér út heilu kerfi. Það þarf að koma í veg fyrir að örfáir einstaklingar geti sett heila þjóð í skuldaklafa. Það þarf að koma í veg fyrir að samtrygging og eiginhagsmunapot sé drifkrafturinn í ákvarðanaferli og stjórnsýslu hins íslenska lýðveldis. Ef einungis er skipt út fólki, flokkum og einungis stungið upp í leka hér og þar mun allt bresta á ný - það er eins augljóst og þetta íslenska efnahagshrun var mörgum, en því miður, of fáum.

Hvað ber að gera?

Nú, er rétti tíminn til að koma á beinu lýðræði.
Við höfum búið við fulltrúalýðræði allar götur frá því heimastjórn komst á. Margir þekkja ekki annað fyrirkomulag og eiga erfitt með að ímynda sér að annað form sé mögulegt. Ég ætla hér með þessum skrifum að benda á að ekki einungis sé annað form lýðræðis til og vel mögulegt heldur að það sé beinlínis æskilegt og nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt vegna þess að lýðræðið, eins og við þekkjum það hér á vesturlöndum, er ekki lýðræði nema að nafninu til. Það er nauðsynlegt vegna þess að þingmennska er orðin fagmennska. Það er nauðsynlegt vegna þess að ákvarðanir eru í síauknum mæli teknar á grundvelli öflugra þrýstihópa og stórfyrirtækja. Það er nauðsynlegt vegna þess að stjórnsýsla er bundin á klafa sérfræðingaveldis.

Hvað er beint lýðræði?

Þegar lýðræði kom til eftir einræði konungsstjórna og aðalsveldi miðaldanna var það fyrst og fremst hugsað til að svokallaðir málsmetandi menn hefðu sitt að segja um lagasetningu ríkisins. Til var komin ört vaxandi borgarastétt sem kölluð var og hafði hún ölast æ meiri auð í krafti embætta sinna og starfa. Aðallega var um að ræða iðnaðarstétt og atvinnurekendastétt. Í sögubókum hefur verið talað um iðnbyltingu í þessu sambandi og er tilkoma gufuvélarinnar þar veigamikill þáttur. Það sem hér er aðalatriðið er að hið nýja lýðræði sem fengið var með því að steypa af stóli ríkjandi valdhöfum var ekki allra. Til að byrja með höfðu einungis eignamenn atkvæðisrétt. Konur fengu ekki atkvæðisrétt almennt á vesturlöndum fyrr en á tuttugustu öldinni.

Nú, í byrjun tuttugustu og fyrstu aldarinnar er það svo að allir almennir borgarar hafa atkvæðisrétt en í hvaða málum? Þegar stjórnlagaþingin voru fyrst sett í Frakklandi máttu allir atkvæðabærir menn kjósa um þær tillögur sem bornar voru fram. Eftir því sem fleiri fengu atkvæðarétt myndaðist þörf fyrir að hafa fulltrúa á þingi sem kusu fyrir hönd annarra atkvæðisbærra manna; það varð m.ö.o. óframkvæmanlegt að kjósa um mál á annan hátt. Myndaðist þá sá háttur að almennar kosningar urðu um þessa fulltrúa sem síðan fóru á hið eiginlega þing og kusu um hin eiginlegu mál.

Ég hef bent hér á samhengi tækninnar og tækniframfara við tilkomu lýðræðis á vesturlöndum. Ég fullyrti að tæknilega séð var það nauðsynlegt að þróa lýðræðið þannig að fulltrúar, í stað hins almenna borgara, fara til þings og taka þar afstöðu til hinna eiginlegu mála og málefna sem tekist er á um. Ég hef því sýnt fram á að það er þróun sem knýr fram breytingarnar og þessi þróun er óstöðvandi. Nú stöndum við frammi fyrir mikilli tækniþróun undanfarinna ára, þróun er varðar samskiptatækni og hefur gerbylt samfélaginu og heiminum öllum. Þessi þróun hefur orðið til þess að þörfin fyrir fulltrúalýðræði er með öllu horfin. Þeir vankantar sem áður voru á því að almennir borgarar gætu sjálfir (fulltrúalaust) kosið um sín mál, eru nú horfnir. Tæknilega er ekkert lengur því til fyrirstöðu að ég og þú getum sjálfir/sjálf gert upp hug okkar varðandi mál eins og fjárlög, virkjanamál, umhverfisstefnu, efnahagsbandalög, velferðamál og heilbrigðismál. Það er alger óþarfi að skekkja lýðræðið í dag með milliliðum. Það eina sem stendur í vegi fyrir framþróun lýðræðisins í dag er þekkingarskortur almennings á þeirri staðreynd að til er annar möguleiki en fulltrúalýðræði og tregða þeirra sem völd hafa til að láta þau af hendi.

Hvernig yrði beint lýðræði í framkvæmd?

Ríkisstjórn

Vitanlega má hugsa sér ólíkar útfærslur á beinu lýðræði en ég sé fyrir mér að kosin yrði ríkisstjórn á fjögurra ára fresti; m.ö.o. vil ég sjá að ráðherrar yrðu kosnir beint, þannig gætir þú og ég tekið beina afstöðu til þess hvor væri betri forsætisráðherra Jón eða síra Jón, hver færi best með heilbrigðis-, mennta-, velferðar- eða utanríkismál svo eitthvað sé nefnt. Þetta fyrirkomulag myndi betur tryggja það að faglega hæfir menn sæju um málefni ríkisins og er gott að nefna t.a.m. fjármál eins og staðan er á Íslandi í dag.

Aðilar myndu bjóða sig fram til ákveðins ráðherraembættis og það væri almennings að kveða á um hver hlyti embættið - ekki einhverrar fámennrar flokksforystu og eða niðurstöðu samningaviðræðna milli fámennra flokksforystna.  Þegar búið væri að kjósa um hverjir færu með embættin (í raun ráða í embættin) myndu ráðherrar stýra sínum ráðuneytum svipað og gert er í dag en lagabreytingar og lagafrumvörp yrði að leggja fyrir þjóðina í stað Alþingis áður. Umræðan færi fram út í samfélaginu í fjölmiðlum og skapaður yrði vettvangur þar sem breytingatillögur kæmu fram og yrðu ræddar. Rétt eins og nú væri hægt að skipa nefndir sem gætu fjallað um mál í þaula og sett fram frumvarpsdrög fyrir ráðuneyti að leggja fyrir þjóðina. Hægt er að hugsa sér að einu sinni á ári færi fram atkvæðagreiðsla um lagafrumvörp ráðherra en boðað væri til atkvæðagreiðslu oftar ef þurfa þykir, t.a.m. ef mikið liggur við, óvæntir atburðir gerast o.s.frv.

Forseti.

Áfram yrði kosið til forseta. Hlutverk forseta yrði framkvæmdastjórn íslenska ríkisins. Hann væri eins konar öryggisventill og sæi um að ráðherrar sinntu skyldum sínum, færu ekki út fyrir valdsvið sitt og leggðu fram frumvörp á tilskyldum tíma.

Dómarar.

Dómarar, bæði í yfir- og undirrétti yrðu kosnir á sama hátt beint af almenningi. Þetta fyrirkomulag þekkist t.a.m. í BNA og er því ekkert nýtt. Betur er ekki hægt að tryggja aðgreiningu dómsvaldsins frá framkvæmdarvaldinu. Að gefnum lágmarkskröfum um menntun og reynslu getur hver sem er boðið sig fram til dómarastarfa og skal þjóðin skera úr milli einstaklinga séu fleiri en einn umsækjandi.

Í BNA eru önnur veigamikil opinber embætti einnig sett undir vilja hins almenna kjósanda, má þar nefna lögreglustjórn og prestsembætti og skal ekki undan dregin skynsemi þess að veigamiklir embættismenn leggi árangur starfa sinna í dóm hins almenna borgara.

Tæknileg útfærsla.

Í öllum vestrænum samfélögum hafa menn kennitölu sem auðkennir einstaklinginn og er sérvalin hans. Hægt er að hugsa sér að aðgangur að samskiptakerfi sem byggir á nettækni þeirri sem flestir borgarar þekkja og hafa aðgang að í dag myndi verða vettvangur hins nýja lýðræðiskerfis. Á netsíðum gætu menn fylgst með gangi mála í einstökum ráðuneytum, fylgst með nefndarstörfum o.frv. Hver einstaklingur hefði sitt pláss þar sem hann gæti viðrað sínar skoðanir líkt og þekkist í dagsins bloggi. Menn gætu sett fram athugasemdir á síður ráðuneytanna ef að menn vildu sjá einhver atriði sérstaklega varðandi frumvörp í vinnslu. Að lokum væri það á ábyrgð ráðherra að setja fram hið endanlega frumvarp og leggja í dóm kjósenda. Kosið yrði með símakosningu og tenging símanúmers við kennitölu tryggði að allir atkvæðabærir einstaklingar gætu kosið og það einu sinni.

Ég er hér að kasta fram, að einhverju leyti, nokkuð róttækri hugmynd. Ég geri mér grein fyrir því að hana þurfa menn að melta og velta fyrir sér. Ég óska eftir umræðu og þess vegna eru þessi skrif samansett. Vafalaust eru á henni vankantar sem umræðan ein getur skýrt. Ég hef velt henni fyrir mér lengi og ekki séð betri leið til að tryggja lýðræði og réttlæti í samfélaginu. Hafir þú, lesandi góður, einhverju við að bæta, eða eitthvað út á hugmynd mína að setja fagna ég gagnrýni þinni.

Með virðingu
Þór L. S. Þórunnarson