DANSKAR UPPLÝSINGAR UM NETÓGNIR
Fréttir RÚV 3. september greindu frá óundirbúnum fyrirspurnum til utanríkisráðherra á Alþingi. Þar kom fram: „Hneykslismál sem umlykur dönsku leyniþjónustuna snertir Íslendinga með beinum hætti sagði Smári McCarthy, þingmaður Pírata, og vísaði til þess að leyniþjónusta danska hersins veitti bandarísku leyniþjónustunni aðgang að ljósleiðurum. Sæstrengir sem tengja Ísland við umheiminn fara um danskt yfirráðasvæði... „Allir tölvupóstarnir, öll skjölin, allir fjarfundirnir, öll okkar fjarskipti fara um þessa þrjá sæstrengi,“ sagði Smári.“
Utanríkisráðherra taldi málið alvarlegt. Hann bætti við: „Ég ligg ekkert á þeirri skoðun minni að mér finnst við ekki vera nógu vakandi þegar kemur að þeim málaflokki,“ sagði Guðlaugur Þór. Hann sagði að Íslendingar væru eina ríkið innan Atlantshafsbandalagsins sem ekki tækju þátt í setri um netöryggismál í Tallinn og eina norræna ríkið sem ekki tæki þátt í sambærilegu setri í Helsinki.“ https://www.ruv.is/frett/2020/09/03/segir-danskt-njosnahneyksli-snerta-islendinga-beint?fbclid=IwAR1rSuFo4ZtutvtzBA7KCVPPOWpjFRRz6SlFmH2w_q2_inBsFw1zwPllgPE
Ekki er þetta þó eins og þruma úr heiðskýru lofti. Edward Snowden, starfsmaður Þjóðaröryggisstofnunarinnar, NSA, hóf árið 2013 að leka út til almennings (m.a. til Wikileaks og Julian Assange) upplýsingum frá NSA um mestu njósnir á okkar tímum, ekki síst netnjósnir. Afhjúpanir Snowdens sýndu að bandarískar leyniþjónustur og öryggisstofnanir ekki bara njósna um allan almenning í eigin landi og brjóta miskunnarlaust hina helgu stjórnarskrá lands síns heldur stunda þær víðtækar njósnir um helstu bandamenn USA, höfuðstöðvar ESB, sendiráð einstakra ríkja þess – og raunar heiminn allan.
Snowden-gögnin bentu ennfremur til að evrópskar leyniþjónustur hefðu starfað með NSA um njósnirnar í Evrópu. Der Spiegel upplýsti m.a. um slíka samvinnu þýskrar leyniþjónustu við þá bandarísku. https://www.theguardian.com/world/2013/jun/30/nsa-leaks-us-bugging-european-allies Og danska Information upplýsti árið 2014 út frá Snowden-gögnum um víðtækt samstarf dönsku Leyniþjónustu hersins með NSA sem fólst einmitt í því að veita NSA aðgang að dönskum ljósleiðurum. https://www.information.dk/tema/nsas-danske-forbindelse Allt voru þetta hin neyðarlegustu mál sem endurspegluðu vel valda- og virðingarröðina innan NATO og sagði margt um raunverulegt fullveldi Evrópuríkja.
Hneykslið var þó bersýnilega ekki svo mikið að það girti fyrir að umrætt samstarf við stóra bróður vestan hafs héldi áfram. Því allt sýnist vera við það sama enn í dag. https://www.dr.dk/nyheder/indland/samarbejde-med-usa-kan-overskride-reglerne-potentielt-en-af-de-stoerste
Viðbrögð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar við spurningum Smára McCarthy um íslenska hlið málsins ná ekki að sefa illan grun. Hann segir að við Íslendingar séum ekki „nógu vakandi þegar kemur að þeim málaflokki“, t.d. tækjum við ekki þátt í setri um netöryggismál í Tallin og öðru í Helsinki. Hann gefur m.ö.o. í skyn að við þyrftum að taka þar beinni þátt. Viðkomandi miðstöðvar eru NATO Cooperative Cyber Defence Centre of Excellence í Tallin og European Centre of Excellence for Countering Hybrid Threats í Helsinki (undir væng ESB og NATO).
Gallinn er sá að þessar NATO-tengdu stöðvar um netöryggi vernda okkur hreint ekki gegn netnjósnum Bandaríkjanna. Þær telja það ekki vera ógnir og eru sjálfar hluti af sama batteríi og NSA. Í febrúar sl. var Kveikur Ríkisútvarpsins með þátt um netógnir og falsfréttir. Sjá hér: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/kveikur/29047/8l0e3k. Þar talaði Ingólfur Bjarni við sérfræðinginn Hanna Smith sem er einmitt yfirmaður hjá áðurnefndri stofnun gegn „blönduðum ógnum“ (hyber threats) í Helsinki. Þar kom eftirfarandi fram: „Rússar eru oftast nefndir á nafn í sambandi við tölvuárásir og upplýsingaóreiðu, og ekki að ástæðulausu... Kínverjar eru einnig nefndir í þessu sambandi, og í einhverjum tilfellum Íran.“ Þetta kemur ekkert á óvart. Þessi „setur um netöryggismál“ sem Guðlaugur þór vill að við tökum þátt í eru ekkert annað en framlægar stöðvar í hernaðinum við Rússa og í vaxandi mæli við Kína.
Fréttirnar frá Danmörku sýna rétt einu sinni að mesta ógn við netöryggi kemur frá BNA. Við vitum enn fremur að Bandaríkin láta ekki sitja við njósnirnar einar heldur eru verkin látin tala. Ekki bara eru þau mesti netnjósnari í heimi. Samkvæmt orðum Jimmy Carter í fyrra eru BNA einfaldlega „herskáasta þjóð í sögu heimsins“.
Til að enda greinina ekki á svartsýnum nótum ber að minnast á gleðilega frétt frá því fyrr í vikunni. Bandarískur dómstóll hefur úrskurðað að þær miklu persónunjósnir um bandaríska borgara sem Snowden afhjúpaði í sínum mikla leka hefðu verið ólöglegar. Í kjölfarið hefur fjölgað mjög tilmælum til Trumps forseta um að fá Edward Snowden náðaðan. Sjá hér: https://news.yahoo.com/u-court-mass-surveillance-program-033648290.html