ÍRAN, HEIMSVALDASTEFNAN OG "MIÐSVÆÐIÐ"
Miðsvæðið – CENTCOM – í bandarískri herstjórn
„Ef Íran langar til að berjast verður það opinber endalok Írans“, tísti Donald Trump 19. maí sl.“ Viðskiptaþvinganir, stríðshótanir, hernaður eru kjarninn í bandarískri utanríkisstefnu. Undanfarna mánuði hafa spjótin og sviðsljósið beinst að Venesúela og Íran. Bandaríkin senda herflotafylki og kjarnasprengjuberandi flugvélar austur að Persaflóa. En nú bregður svo við að fáir taka undir bandarísku stríðsöskrin gegn Íran. Ekki hinir nánu bandamenn í Evrópu. ESB hefur tekið afstöðu gegn nýjustu refsiaðgerðum Bandaríkjanna gegn Íran. Þær beinast ekki aðeins gegn Íran, heldur öllum þeim ríkjum og fyrirtækjum sem eiga viðskipti við Íran. Sem stendur leiðir þessi stefna til einangrunar Bandaríkjanna. Ekki minnkar árásarhneigðin við það. Málið snýst um heimsvaldastefnu og yfirráðin í Austurlöndum nær. Lítum á baksviðið.
1985-2005, upp spruttu 125 herstöðvar
Bandaríkin hafa sem kunnugt er yfir 800 herstöðvar utanlands. Bandaríska Varnarmálaráuneytið í Pentagon skiptir nú hnettinum okkar í sex bandarísk herstjórnarsvæði: AFRICOM, CENTCOM, EUCOM, INDOPACOM, NORTHCOM, SOUTHCOM.Sjá nánar
Það var árið 1983 sem Reaganstjórnin setti á fót „Herstjórn Miðsvæðisins“, CENTCOM, í MacDill-herstöðinni við borgina Tampa í Flórída. Stofnun CENTCOM markaði nýjar áherslur í bandarískri hnattrænni herstjórn eftir hina alvarlegu ósigra Bandaríkjanna í Indó-Kína og Austur-Asíu. Strategistar utanríkisstefnunnar beindu nú sjónum sínum að orkuríkasta svæði heimsins, Miðausturlöndum og því sem USA skilgreindi sem „Miðsvæðið“ (Central Region) en það nær yfir Stór-Miðausturlönd: Miðausturlönd plús Mið-Asíu. Svæðið við og austur af Kaspíahafinu hafði þegar verið skilgreint sem eitt allra olíuríkasta svæði heims. Fróðir menn telja raunar umrætt svæði geyma meirihlutann af vinnanlegum olíuforða heimsins.
Fyrir stofnun CENTCOM 1983 fólst bandarísk „hervernd“ á Miðsvæðinu í mikilli viðverðu bandaríska flotans á svæðinu og herþjálfun og sameiginlegum heræfingum með fylgiríkjum BNA. En frá 1985 og áfram fór á skrið uppbygging herstöðva á svæðinu, fyrst í Sádi-Arabíu, skömmu síðar öðrum Persaflóaríkjum o.s.frv. Írski fræðimaðurinn John Morrissey birti nýlega niðurstöður sínar um þessa uppbyggingu:
„Árið 1983 hafði Bandaríkjaher engar herstöðvar í Miðausturlöndum. Á miðjum fyrsta áratug 21. aldar hafði CENCOM byggt upp hernaðaraðstöðu með 125 herstöðvum á svæðinu. Frá stofnun sinni hefur þessi herstjórn haft forustu í öllum meiriháttar bandarískum hernaðaríhlutunum utanlands, frá Olíuskipastríðinu (Tanker War) í Persaflóa á 9. áratug, frá Persaflóastríðinu á 10. áratug til Stríðsins gegn hryðjuverkum á seinni áratugum.“ Sjá nánar
Sem sagt, á tveimur áratugum, 1985-2005, hafði orðið á þessu svæði hreint ótrúleg breyting, án þess að nokkuð bæri á því í heimspressunni. Komandi umskipti voru einna fyrst orðuð opinberlaga í „State of the Union“-ávarpi Jimmy Carter í janúar 1980. Þá lýsti hann yfir að: "ef utanaðkomandi afl nær yfirráðum á Persaflóasvæðinu verður það skoðað sem árás á grundvallarhagsmuni Bandaríkjanna og slíkri árás verður mætt með öllum nauðsynlegum aðferðum, þ.á.m. með herafli." Sjá yfirlýsingu
Stærsti bitinn – Íran
Í samhengi kalda stríðsins er það athyglisvert að hin gríðarlega bandaríska hernaðaruppbygging á „Miðsvæðinu“ verður ekki skýrð nema að litlu leyti sem viðbrögð við hernaðarumstangi Sovétmanna. Þeir réðust vissulega inn í Afganistan 1979, en frá 1985 fór smám saman að draga úr hernaði þeirra þar, og Sovétríkin voru augljóslega orðin veikluð af innri kreppu.
Annað skipti miklu meira máli sem skýring: þjóðleg og andheimsvaldasinnuð bylting varð í Íran 1979. Skjólstæðingur og bandamaður Vestursins, íranska keisarastjórnin, var sett af og klerkastjórnin svokallaða tók við. Olíuiðnaðurinn var þjóðnýttur en Exxon, Mobil, Shell o.fl. voru rekin út. Íran er líklega þungvægasta land Miðausturlanda, efnahagslega, hernaðarlega og hnattpólitískt. Bandaríkin og nánustu bandamenn þeirra settu óðara viðskiptabann á Íran. Ótti greip um sig meðal heimsvaldasinna um útbreiðslu sjía-íslamskrar byltingar.
Byltingin í Íran á sér forsögu, merkta heimsvaldastefnu. Í upphafi 20. aldar hófst þar olíuvinnsla, og frá byrjun höfðu Bretar þar öll tögl og hagldir gegnum Anglo-Persian Oil Company. Hornsteinn í valdi Breta var Pahlavi-ættin sem sat á keisarastóli 1925–1979 og var alla tíð handgengin heimsvaldasinnum. En á 5. áratug 20. aldar reis þjóðernis- og þjóðfrelsisbylgja í Íran. Árið 1951 var þar kosin til valda þjóðfrelsissinnuð ríkisstjórn undir forsæti Mohammad Mosaddegh sem þjóðnýtti olíuiðnað landsins. Þá tóku Bretar og Bandaríkin höndum saman (Churchill og Eisenhower): með viðskiptaþvingunum (m.a. olíusölubanni), hernaðaraðgerðum (m.a. lokun Hormúzsunds) og samvinnu við keisarafjölskylduna, herforingja o.fl tókst þeim að skipuleggja valdarán í því öngþveiti sem af hlaust.Sjá nánar
Íran varð áfram fylgiríki heimsvaldasinna – en nú Bandaríkjanna – undir einræðisvaldi keisarans. Til marks um það var Íran á 7. og 8. áratug stærsti einstaki kaupandi bandarískra vopna á heimsvísu. Olía gegn vopnum. En þessari dýrð lauk sem sagt með brauki og bramli í klerkabyltingunni 1979. Það var andheimsvaldasinnuð bylting. Stærsta land svæðisins var gengið BNA úr greipum og girt fyrir full bandarísk yfirráð í Austurlöndum nær. Djöfullinn! Annað Víetnam? Það skal aldrei verða! Áðurnefnd bandarísk heruppbygging á Miðsvæðinu (plús viðskiptaþvinganir, sjá aftar) verður ekki skilin nema í þessu samhengi.
Þegar Bandaríkin 2002 settu fram lista sinn yfir „öxulveldi hins illa“ voru 4 þeirra ríkja af alls 6 í Austurlöndum nær: Íran, Írak, Sýrland, Líbía. Íran fremst á listanum, en það var stærri og torsóttari biti en hinir. BNA með bandamönnum voru þarna að hefja „stríðið langa“ í Stór-Miðausturlöndum þar sem umrædd lönd voru tekin til afgreiðslu í röð (stríðið í Afganistan var þegar hafið). Það þurfti að hreinsa til. Bandaríkin voru eina risaveldið, heimurinn einpóla og heimsvaldasinnum sýndist flest vera hægt.
Að tryggja flæði olíunnar
Árið 1990, hálfu ári fyrir innrás Saddams Hussein í Kúvaít, hafði æðsti hershöfðingi CENTCOM, Norman Schwartzkopf, sagt um Persaflóasvæðið sérstaklega: "mesta ógn við bandaríska hagsmuni á svæðinu er smitáhrif frá svæðisbundnum átökum sem gætu sett í hættu bandarísk mannslíf, ógnað bandarískum hagsmunum á svæðinu eða truflað flæði olíunnar, og þetta kallar því á skuldbindingu bandarísks herafla.“ (John Morrissey, fyrrnefnd heimild). Sem sagt, mögulegur óróleiki á þessu mikilvæga svæði kallar á hernaðarafskipti BNA! Bandaríkin höfðu reyndar þegar blandað sér beint í stríðið milli Írans og Íraks 1987 þegar olíuskip Kúvaíts voru „útflögguð“ undir bandarískum fánum og fengu bandaríska hervernd.
Herstjórn Miðsvæðisins, CENTCOM, lýsti mikilvægi herstjórnarsvæðis síns fyrir vestræna hagsmuni svo árið 2005: „Að viðhalda stöðugleika á þessu viðkvæma svæði er lykillinn að frjálsu flæði olíunnar og annarra viðskipta sem hafa grundvallarþýðingu í efnahagslífi heimsins.“ Sjá nánar
Hinni nýju auknu áherslu á Miðsvæðið frá 1980 fylgdi það að Bandaríkin tengdu fastar en áður við sig skjólstæðingsríki sín á svæðinu. Fyrirfram var auðvitað Ísrael fótfesta og herstöð fyrir vestræna hagsmuni við Miðjarðarhafsbotn. En nú fylgdu í kjölfarið: Sádi-Arabíu fyrst og svo furstadæmin öll við Persaflóa plús Jórdanía og Egyptaland. Skjólstæðingsríkin fengu aukna hernaðaraðstoð og „vernd“. Skjólstæðingsríkin aftur á móti skyldu leggja „verndaranum“ til aðstöðu fyrir herstöðvar, opna lönd sín fyrir bandarískum og vestrænum auðhringum, auk hagstæðra olíusamninga.
Tengslin höfðu þó verið mikil fyrir. Í olíukreppunni 1973 gerðu Bandaríkin samning við hinn nána skjólstæðing sinn, Sádi-Arabíu, samning um hervernd gegn því að Sádar tryggðu þeim tiltölulega ódýra olíu – og að olía OPEC-ríkja skyldi keypt gegn dollurum. Dollarinn varð ríkjandi gjaldmiðill heimsviðskipta sem þýddi stanslausa eftirspurn eftir dollurum. Olíudollarakerfið varð annar meginþáttur í heimsvaldaakerfinu.
Fyrir utan Íran reiknaðist Írak einnig „þorpararíki“ sem ekki mætti treysta. Hernaðaraðgerðir gegn Íran og Írak voru hluti af áætlanagerð CENTOM þegar í stjórnartíð Bill Clintons þar sem skrifað stóð: „Þjóðaröryggisstefnan hljóðar upp á framkvæmd tvíþættrar innilokunarstefnu gagnvart þorpararíkjunum Írak og Íran svo lengi sem þessi ríki eru ógnun fyrir bandaríska hagsmuni, fyrir önnur ríki á svæðinu og fyrir eigin þegna“ Sjá nánar
Vopnastríð
Byrjað var á Írak og því komið á kné í hroðalegu stríði sem eyðilagði landið mikið til. En stríðið gekk illa og var Bandaríkjunum líka svakalega dýrt og óvinsælt heima. Heim komu 4.300 dauðir hermenn og 32 þúsund sárir og bæklaðir. Líbíustríðið 2011 var hins vegar mikið til æfing í nýjum aðferðum. Sem þótti takast talsvert betur fyrir árásarríkin en Íraksstríðið.
Gagnvart mikilvægasta landinu, Íran, fundu strategistarnir út að „leiðin til Teheran liggur gegnum Damaskus“. Til að einangra Íran þurfti fyrst að kippa úr leik helsta bandamanni þess á svæðinu, Sýrlandi. Aðferðirnar sem þróaðar voru í Líbíu voru að veðja á blöndu af málaliðum frá einkafyrirtækjum og jíhadískum vígamönnum frá 100 löndum (fjölmiðlar okkar kölluðu þetta „uppreisn“). Í Sýrlandi var þessi her studdur af yfir 60 ríkjum. Sádar og olíufurstadæmin, Bandaríkin, Tyrkland, NATO, ESB og Ísrael lögðu í púkkið hver með sínum hætti. Strategistarnir í Washington tóku á seinni hluta Bush-tímans upp þá herstjórnarlist að veðja á trúardeilutrompið og styðja á laun hernað herskárra súnní-múslima gegn sjía-múslimum – og veðja jafnframt á gull furstanna við Persaflóa til að fjármagna stríðið, og ýta um leið undir stórveldisdrauma kóngahússins Saud.
Þessi herstjórnalist skilaði lengi vel góðum árangri í Sýrlandi en eftir að Assad-stjórnin snéri sér til Rússa 2015 og fékk þaðan hernaðaraðstoð úr lofti til stuðnings Sýrlandsher snérist stríðsgæfan honum í vil. Þá þegar höfðu Íranir skilið „hverjum klukkan glymur“ og veitt sínum gömlu bandamönnum hernaðaraðstoð. Yfirvofandi ósigur Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í þessu stríði er heimssögulegur og áformin um full yfirráð Bandaríkjanna á svæðinu í uppnámi.
Viðskiptastríð
Samhliða vopnanna stríði vopnanna gegn þessum löndum öllum var og er háð annað stríð samhliða, efnahagslegt stríð, viðskiptastríð. Ráðist er á grunnstoðir samfélagsins, þegnunum refsað í von um að það skapi nægilega ólgu og andstöðu til að fella stjórnvöld eða koma landinu á kné. Viðskiptabannið gegn Írak 1990-2003 drap hálfa milljón barna og Madeleine Allbright sagði að það væri „þess virði“. Bandaríkin lögðu viðskiptabann á Sýrland frá 2004 (hafa hert það í áföngum síðan) og ESB gerði hið sama 2013. Síðasta kverkatak Bandaríkjanna (frá apríl sl.) er að banna orkusölu til Sýrlands, samhliða hernámi á olíulindum landsins í samvinnu við kúrdneska herinn SDF. Framkvæmdin byggist á því að refsa öllum löndum sem selja Sýrlandi olíu eða gas, skikka Egypta til að stöðva í Súezskurði írönsk olíuskip á leið til Sýrlands, banna tryggingafélögum að tryggja skip sem staðin eru að slíku o.s.frv. Fyrir vikið er samgöngukerfi Sýrlands meira en hálflamað og þegnarnir líða fyrir.
Bandarískar viðskiptaþvinganir gegn Íran voru settar á í áföngum frá 1979. Nýjar komu undir Reaganstjórn, voru svo mjög hertar á Clintontímanum. Frá 2006 settu SÞ refsiaðgerðir á Íran tengdar kjarnorkuáætlun landsins, ESB setti á víðtækt viðskiptabann 2007. Árið 2015 var hins vegar gerður sk. kjarnorkusamningur Írans og stórveldanna og opnaði fyrir stóraukin viðskipti þeirra, jafnframt því sem SÞ aflétti sínum refsiaðgerðum. Í framhaldinu tóku nokkur evrópsk lönd og stórfyrirtæki að gera stóra og gróðavænlega viðskiptasamninga við Íran.
En bandaríska djúpríkið ætlaði aldrei að semja frið við Íran. Í maí í fyrra sögðu Bandaríkin upp kjarnorkusamningnum og settu aftur á viðskiptabann af fullum þunga. Pompeo utanríkisráðherra lýsti þá yfir að USA mundi „mala Íran“. Líkt og áður sagði um Sýrland er öllum löndum og öllum fyrirtækjum sem skipta við Íran harkalega refsað. Það var strax ljóst að refsingin beindist ekki bara gegn Íran heldur t.d. evrópskum löndum (Bretum, Frakklandi, Þýskalandi) og fyrirtækjum. ESB tók afstöðu gegn hinum nýju bandarísku refsiaðgerðum, enda lendir höggið á evrópskum hagsmunum litlu minna en á Íran. Í Írandeilunni hefur vináttusambandið yfir Atlantshafið fengið sinn stærsta skell frá upphafi. Ýmis evrópsk fyrirtæki hafa neyðst til að hafa sig á brott. Inn í staðinn koma – Kínverjar. Enda er Íran er í burðarhlutverki á „nýja silkiveginum“ frá Kína til Evrópu og Afríku. Hin efnahagslega hlið „stríðsins langa“ gengur sem sagt lítið betur en hin hernaðarlega. Refsiaðgerðirnar sem eiga að „mala Íran“ skaða auðvitað landið, en ýta því jafnframt yfir til „strategískra andstæðinga“ Bandaríkjanna og Vestursins.
Íran og Miðsvæðið - baksvið
Baksvið Írandeilunnar og baksvið „stríðsins langa“ er þá svona: Frá 9. áratug byggðu Bandaríkin upp gífurlegt valda- og hernaðarkerfi í Stór-Miðausturlöndum. Uppbyggingin hófst fáum árum fyrir fall Sovértríkjanna en fór á fullt skrið eftir fallið. Bandarísku herstöðvarnar fóru úr núll í 125 á tveimur áratugum! Og urðu þar með áþreifanlegasta merki hins drottnandi valds í heimshlutanum. En framhjá þessu valdakerfi og uppbyggingu þess er skipulega horft í hinni ríkjandi orðræðu. Það er dæmigert ekki-þema.
Magnú Þorkell Bernharðsson er helsti fræðimaður Íslendinga um svæðið og hefur oft skrifað gagnlega og gagnrýnið, einkum um Íraksstríðið 2003. En í nýrri bók sinni Mið-Austurlönd – fortíð , nútíð og framtíð (2018) fjallar hann ekkert um þetta valdakerfi, þennan meginþátt málsins, þó hann setji sér að upplýsa baksviðið og þó að stríðin á svæðinu séu í brennidepli í bókinni. Um Sýrlandsstríðið er Magnús Þorkell alveg í takt við hina ríkjandi orðræðu, skrifar um stríðið sem „uppreisn“ gegn „harðstjóranum“ (Assad), gegn „mannréttindabrotum“ o.s.frv. Hann talar m.a.s. um „afskiptaleysi“ Bandaríkjanna af stríðinu!: „Stefna Bandaríkjanna hefur verið mjög einkennileg og afskiptaleysið hefur verið mikið...“ Sjá nánar
Varðandi „afskiptaleysi“ BNA: Ég læt að sinni liggja milli hluta hina óopinberu en gífurlega umfangsmiklu vopnasölu til og stuðning við „uppreisnarhópa“ í Sýrlandi sem er ljósfælin iðja, yfirleitt skipulögð og rekin af CIA, enda að miklu leyti í trássi við alþjóðlega samninga og lög. En skoðum aðeins opinbera þátttöku BNA í stríðinu. Svokallað „Fjölþjóðalið gegn ISIS“ undir bandarískri forustu – „Operation Inherent Resolve“ – hefur barist í Sýrlandi frá 2014, ólöglega, gegn vilja þarlendra stjórnvalda. En Fjölþjóðaliðið á sér yfirstjórn. Hverja aðra en CENTCOM? Á vefsíðu bandarísku utanríkisþjónustunnar segir um þennan þátt US-Army í Sýrlandi: „Hernaðarþátturinn, Operation Inherent Resolve, er rekinn af af CENTCOM og útbúnaði þess í Tampa [miðstöð CENTCOM í Flórída], sem og gegnum allnokkrar herstövar nær vettvanginum og átökunum...“ „Afskiptaleysi“?
Aðgerðir Fjölþjóðaliðsins í Sýrlandi nú um stundir nefnast „Operation Roundup“ og af vefsíðum Pentagon er ljóst að þaðan er þeim stjórnað. T.d. er landhernaður kúrdneska hersins sem kallar sig Sýrlenska lýðræðisherinn (SDF) samhæfður lofthernaði Fjölþjóðaliðsins og stjórnað frá miðstöð CENTCOM í Flórída, auk þess sem öll vopn SDF koma þaðan. Gegnum „Operation Roundup“ hefur Bandaríkjaher nú full hernaðaryfirráð yfir Norður-Sýrlandi austan Efratfljóts. Sjálfan 11. sept sl. tilkynnti Pentagon t.d. eftirfarandi: „Sýrlenski lýðræðisherinn hóf í gær landhernað fyrir þriðja áfanga í „Operation Roundup“.“ Sjá nánar Sýrlandsstríðið er þannig rækilega fellt inn í hernaðarkerfi og herstjórn Bandaríkjanna á Miðsvæðinu. „Afskiptaleysi“?
Samhengi hlutanna – orsakir og afleiðingar
Samhengið er svona: Bandaríska yfirherstjórnin setti umrætt „Miðsvæði“ í brennidepil um 1980. Svo kom hin gríðarlega heruppbygging þar 1985-2005, síðan kom „Stríðið langa“ frá 2001, eyðilegging, upplausn og dauði, flóttamannastrauminn innan svæðisins og út af því o.s.frv. Hvert er samhengi hlutanna? Hverjar voru ástæðurnar fyrir uppbyggingu BNA á svæðinu? Og afleiðingar hennar? Þetta er ekki-þema í meginstraumsmiðlum. Eins og það skipti engu máli. Við skulum samt spyrja.
Orsakir fyrir bandarískri herstöðva- og hernaðaruppbyggingu á „Miðsvæðinu“, sérstaklega áratugina tvo, 1985-2005? Sem áður segir gat hernaðarumstang Sovétríkjanna ekki verið ástæðan – og var ekki einu sinni notað sem tylliástæða fyrir vígvæðingu BNA, enda var „hún gamla Grýla dauð“ þegar mesta uppbyggingin fór fram. Þvert á móti: Það var einmitt hin nýja staða Bandaríkjanna sem eina risaveldisins snemma á þessu tímabili gerði mögulega þessa einhliða vígvæðingu.
Hryðjuverkaógnin? Nei, ástæðan gat ekki heldur verið hryðjuverkaógnin af því Bandaríkin og NATO lýstu ekki yfir „hnattrænu stríði gegn hryðjuverkum“ fyrr en eftir 11. sept 2001 þegar mestur hluti umræddrar hernaðaruppbyggingar var þegar orðin staðreynd. Orsakir vígvæðingarinnar voru sem sagt hvorki rauða hættan/Rússagrýlan né hryðjuverkaógnin.
Skýringin gat aðeins verið ein: heimsvaldastefnan. Heimsvaldasinnar skilgreindu hin orkuríku Miðausturlönd sem efnahags- og hernaðarlegt lykilsvæði. Þeir tóku þess vegna stefnu á full svæðisbundin yfirráð. „Control oil and you control nations“ (stjórnaðu olíunni og þú stjórnar þjóðum), sagði gamli heimsvaldarefurinn Henry Kissinger. Stefnan hefur verið föst og samfelld, óháð því hvort forsetar hafa verið frjálslyndir eða hægri menn, hvort þeir hafa heitið Carter, Reagan, Bush, Clinton, Obama eða Trump.
Kapítalísku efnahagskerfin, og þar með heimsveldin, þróast ójafnt og sækja fram eða hopa á heimsmarkaði samkvæmt styrkleika sínum. Það er lögmál. Bandaríkin (og Vestrið) eru hnignandi efnahagsveldi sem tapa í efnahagsáhrifum og markaðshlutdeild ár frá ári. Viðbrögð þeirra við þessu verða stöðugt meira einhliða: að beita þeim yfirburðum sem þau hafa: hernaðarmáttur og ofbeldi. Bandaríkin standa fyrir 35% af hernaðarútgjöldum heims, NATO-ríkin með 52%. Bandaríkin hafa sömu yfirburði í vopnasölu, og um helmingur af vopnasölu þeirra rennur til fylgiríkja þeirra á „Miðsvæðinu“. Sjá nánar
Afleiðingarnar? Afleiðingarnar sýna sig í „stríðinu langa“ í Austurlöndum nær. Með öllum ruðningsáhrifum þess og afleiðingum.