ÓPERASJÓN BARBAROSSA – ENN OG AFTUR
Áttatíu ár eru í dag liðin frá innrás Þýskalands í Sovétríkin, Óperasjón Barbarossa, mannskæðasta glæp veraldarsögunnar. Haldið er upp á afmælið með mikilli samræmdri heræfingu í Austur-Evrópu undir bandarískri stjórn, gegn Rússlandi. Æfingin sem nefnist DefenderEurope 2021 stendur nú yfir en er dreift á nokkrar vikur í 12 Austur-Evrópulöndum, á landi og sjó. Þátt taka 37 þúsund hermenn frá 27 löndum, þar á meðal frá hinum 14 nýju aðildarríkjum NATO í Austur-Evrópu. Öll fer æfingin fram í Austur-Evrópu, frá Eystrasalti til Svartahafs og Balkanskaga.
Á tímum kalda stríðsins var það líkast til aðeins í verstu martröðum sínum sem Rússar gátu séð andstæðinga sína viðhafa slíka vígvæðingu á svo nálægri lengdargráðu. Þá var „stuðpúðabelti“ vinsamlegra ríkja vestan Rússlands, en nú hefur varnarlínan færst miklu, miklu nær – og óvinurinn stendur við útidyrnar.
Nú er nánast allt meginland Evrópu sameinað í pólitísk-hernaðarlegt bandalag gegn Rússum, NATO. Undantekningin er Hvítrússland (og Sviss). Löndin Úkraína, Georgía, Svíþjóð og Finnland eru að vísu enn ekki formleg NATO-lönd en hafa öll tekið upp „aukna samstarfsaðild“ (NATO‘s Enhanced Opportunities Partners) sem er full þátttaka í hernaðarsamstarfinu án formlegrar NATO-aðildar (Úkraína fékk þá stöðu 2020).
Þá hlýtur staðan að minna óþægilega mikið á stöðuna við upphaf Barbarossa, fyrir réttum 80 árum, frá rússneskum sjónarhól. Þá var einmitt allt meginland Evrópu sameinað undir eina herstjórn (undantekningar voru Sviss og Svíþjóð) þegar herir Þýskalands og bandamanna þeirra réðust inn í Sovétríkin.
Leiðtogafundur NATO var haldinn viku fyrir afmælið og kallaði Evrópuþjóðir til samstöðu á tímum þegar „árásarsinnaðar aðgerðir Rússlands eru ógn við öryggi Evrópu og Atlantshafs“ og til samstöðu um „að verja gildi okkar og hagsmuni“ á tímum þegar „valdboðsríki eins og Rússland og Kína ógna samskiptareglum milli ríkja.“ https://www.nato.int/cps/en/natohq/news_185000.htm
Söguendurskoðun Evrópuþingsins 2019
Vígvæðingin gegn Rússlandi fer líka fram á sagnfræðisviðinu. Nýlega hefur Evrópuþingið í Brussel ályktað sérstaklega um upphaf Seinni heimstyrjaldarinnar. Sú ályktun var gerð í september 2019, þegar 80 ár voru liðin frá því Þýskaland réðist á Pólland 1939. Ályktunin fól í sér svokallaða söguendurskoðun, endurtúlkun á upphafi stríðsins og þar með allri sögu þess.
Ályktunin segir að Evrópuþingið “…leggur áherslu á að Heimsstyrjöldin síðari, mesta eyðileggingarstríð í sögu Evrópu, hófst sem bein afleiðing af hinum illræmda sovét-nasíska griðasáttmála frá 23. ágúst 1939, einnig þekktur sem Mólotoff-Ribbentrop samningurinn og leynilegum ákvæðum hans, en með þeim skiptu þessar tvær alræðisstjórnir, sem deildu sameiginlegu markmiði um heimsyfirráð, Evrópu í tvö áhrifasvæði.” Ályktun Evrópuþingsins fer m.a. fram á að fjarlægðar séu í aðildarríkjunum öll minnismerki sem „heiðra alræðisstjórnir“, þ.á.m. þau fjölmörgu minnismerki í austanverðri álfunni sem helguð eru baráttu Rauða hersins gegn nasismanum. https://www.europarl.europa.eu/doceo/document/TA-9-2019-09-19_EN.html
Nokkrum árum fyrr hafði reyndar Evrópuþingið samþykkt að gera 3. september að «evrópskum degi minninga um fórnarlömb stalínisma og nasisma.“ Þá tengdi Evrópuþingið sig við sk. Prag-yfirlýsingu frá 2008 sem endurspeglar gallharða andkommúníska hefð og var undirrituð m.a. af þekktum stjórnmálamönnum eins og Václav Havel og Vitautas Landsbergis. Kjarni yfirlýsingarinnar er ákall um „al-evrópskan skilning því á að kommúnískar jafnt sem nasískar stjórnir... verða að skoðast sem þær meginhörmungar sem hafa eyðilagt 20. öldina.“ https://en.wikipedia.org/wiki/Prague_Declaration#2009
Frumkvæðið að söguendurskoðun Evrópuþingsins hefur m.a. komið frá stjórnvöldum Tékklands og Póllands í nokkrum atrennum. Síðan hefur þessi sagnfræði tekið upp hugmyndina um „tvöfalt þjóðarmorð“ sem í austanverðri Evrópu er orðin að hreyfingu á sviði sögutúlkunar, og er í senn afar hægrisinnuð og afar andrússnesk.
Þessi sagnfræði beitir sálfræði og nokkrum hugrenningatengslum: Hún lýsir Sovétríkjum Stalíns sem útþenslusinnuðu ríki á borð við Þýskaland Hitlers. Hún tengir Pútín við „útþenslusinnan“ Stalín. Hún lýsir jafnframt Sovétríkjunum og Hitlers-Þýskalandi sem tveimur hliðum á sömu mynt, myntinni „tótalítarisma“ (oftast þýtt sem „alræði“ sem einnig er þýðing á orðinu „diktatúr“). Sú hugmynd er svo yfirfærð til nútímans þar sem NATO er fulltrúi lýðræðisins sem berst við „alræðisöflin“ (tótalítarismann) og er þá yfirleitt vísað til Rússlands og Kína (og Íran og N-Kóreu bætt við þegar hentar).
Griðasamningnum gefið nýtt og aukið vægi
Sagnfræðin er í þá veru að Hitler og Stalín hafi deilt með sér Evrópu og byrjað svo heimsstyrjöldina sameiginlega. Þýskaland var áður talið vera einn upphafsaðili Seinni heimsstyrjaldar en þarna eru Þýskaland og Sovétríkin sögð bera ábyrgðina sameiginlega. Sem sagt, stórfelld söguleg „endurskoðun“.
Endurskoðunin felur í sér að heimsstyrjöldin hafi ekki hafist 1. sept. 1939 þegar Þýskaland réðist á Pólland heldur einni viku fyrr, 23. ágúst, við undirritun griðasamningsins sem gjarnan er kenndur við Mólotoff-Ribbentrop. Samningnum er gefið vægi sem hann hefur ekki áður haft, að vera upphaf heimsstyrjaldarinnar. Jafnframt er skipulega horft framhjá aðdraganda samningsins. Sá aðdragandi er þó ærið mikilvægur, jafnvel mikilvægari en samningurinn sjálfur, nefnilega stigvaxandi yfirgangur Þjóðverja (og í minna mæli Ítala) í álfunni – og mjög misjafnlega öflugar tilraunir annarra ríkja til að halda aftur af þeim.
Griðasamningurinn við Þjóðverja var öðru fremur markaður af miklum ótta í Sovétríkjunum við innrás úr vestri. Ekki aðeins hafði Rússaher farið mikla hrakför gegn þýska hernum í fyrra stríði heldur mátti Sovét-Rússland 1918 þola innrás 14 ríkja undir forustu Breta og Bandaríkjanna til stuðnings herjum hvítliða í rússneska borgarastríðinu, sem kostaði fyrir vikið milli 7 og 12 milljón Rússa lífið. Sovétmenn höfðu ástæðu til að finnast þeir umsetnir. Framan af töldu þeir mesta hættu stafa frá Bretum en eftir valdatöku Hitlers varð fljótt ljóst hvaðan höfuðógnin stóð: stefna Hitlers um að rústa „gyðing-bolsévíska“ ríkinu í þágu þýsks „lebensraum“ hafði lengi legið fyrir.
„Sameiginlegt öryggi“ og Munchensamkomulagið
Eftir valdatöku Hitlers í Þýskalandi reyndu Sovétmenn ákaflega að koma á bandalagi við Breta og Frakka, bandalagi um „sameiginlegt öryggi“ í álfunni af því það væri „aðeins hægt að berjast gegn metnaðargirnd Þýskalands með skjaldborg ákveðinna granna“ eins og sovéski utanríkisráðherrann Litvinov sagði. Á það reyndi gagnvart Tékkóslóvakíu sem hafði áður gert varnarsamning við Frakka og Sovétmenn. En því var öllu sópað til hliðar í stórveldasamningunum í Munchen 1938 þar sem Sovétmenn voru algjörlega útilokaðir. Hitler fékk þar grænt ljós á að ráðast inn í Tékkóslóvakíu.
Hitler tók fljótt afganginn af Tékkóslóvakíu. Gerði þó Slóvakíu að formlega sjálfstæðu hjáríki. Þegar Tékkóslóvakía var horfin af kortinu fór mikilvægur klettur undan mögulegu varnarbandalagi fyrir Mið- og Austur-Evrópu. Flest Austur-Evrópulönd urðu hvert af öðru að hjáríkjum undir fasískum eða hálffasískum stjórnum.
Þegar uppreisn fasista sigraði á Spáni voru Sovétríkin eina ríki Evrópu sem veitti Spænska lýðveldinu hernaðarlegan stuðning í borgrastríðinu (og það herlið sem helst studdi lýðveldisherinn voru evrópskir kommúnískir sjálfboðaliðar). Fyrir fasista varð Spánarstríðið æfing fyrir seinni heimsstyrjöldina, en Bretar og Frakkar beittu sér innan Þjóðabandalagsins fyrir samþykkt um „ekki-íhlutun“ sem fól í sér alhliða vopnasölubann á Spán. Sá samningur gerði löglegum stjórnvöldum Spánar nær ókleift að verða sér úti um vopn og hernaðaraðstoð, en hafði hins vegar lítil sem engin áhrif á hernaðarstuðning fasistaríkjanna við uppreisnina, og það réði úrslitum.
Stríðið virtist stöðugt færast nær. Síðustu tilraunir til að mynda bandalag gegn stríðsöflunum voru gerðar í ágúst 1939. Þá var tekist á um svæðið Danzig við Eystrasalt, byggt Þjóðverjum sem Hitler gerði tilkall til og hótaði Pólverjum illu, gaf þeim nú frest til 1. september. Spurning var fyrir stórveldin hvort hægt væri að gefa Pólverjum einhverja tryggingu. Bretar höfðu gert við þá bindandi hernaðarsamning. Um miðjan ágúst buðu Sovétmenn fram einnar milljón manna herlið til að verja Pólland, en bresk-frönsk samninganefnd sem kom til Moskvu hafði ekkert umboð til að lofa neinum aðgerðum á móti (aðgerðum t.d. Frakklandsmegin). Við það bættist að Pólland kærði sig ekki um neitt bandalag við Rússa. Í Munchen var leiðtogum Póllands meira umhugað um að tryggja sér sneið af Tékkóslóvakíu en setja Hitler skorður.
Síðla sumars 1939 skrifaði Lloyd George (forsætisráðherra Breta í fyrra stríði) í franskt dagblað: „Um ástæðurnar fyrir þeim endalausu vandamálum sem samningarnir milli Englands, Frakklands og Sovétríkjanna hafa fest sig í er bara þetta að segja: ‘Neville Chamberlain, Halifax og John Simon [samningamenn Breta] vilja ekki samning við Rússland’…” https://revolutionarydemocracy.org/archive/false3.htm
Mólotoff-Ribbentrop
Tilraunir Sovétmanna til að mynda varnarbandalag með Vesturveldunum strönduðu sem sagt á viljaleysi vestan megin. Í ljósi alls þessa þóttust Sovétmenn sjá að Vesturveldin vildu beina árásarstefnu Hitlers í austur, og að hann fengi frjálsar hendur í þá áttina. Þegar möguleikinn á fyrrnefndu bandalagi gegn Þjóðverjum lokaðist snéri Moskvustjórnin loks við blaðinu snögglega og gerði griðasamning við Hitler. Fyrsta diplómatíu-markmið Sovétmanna hafði verið að hindra samstöðu Þjóðverja og Vesturveldanna, samstöðu sem beindist gegn Sovétríkjunum. Í því augnamiði kröfðust þeir þess að vera viðurkenndir sem bandamenn í baráttunni gegn Hitler, en þegar þeirri kröfu var hafnað var næsti valkostur var taktískur samningur við Hitler.
Griðasamningurinn var ekki bandalag og því síður „vináttusamningur“, heldur samningur Sovétmanna við Þjóðverja um gagnkvæmt hlutleysi ef til hernaðarátaka kæmi við þriðja aðila. Flestir grannar Þjóðverja höfðu þegar gert við þá slíkan samning. Með því að semja um hlutleysi Sovétríkjanna í þeim átökum sem framundan voru gerði Stalínstjórnin tvennt: Í fyrsta lagi keypti hún tíma til að undirbúa þá árás sem hún reiknaði með. Í öðru lagi lýsti hún því yfir (í framhaldinu) að komandi stríðsátök væru átök heimsvaldablokka þar sem annar málstaðurinn væri ekki betri en hinn. Að líkindum byggði hún það mat á áðurnefndum misheppnuðum tilraunum sínum til að mynda varnarbandalag gegn Hitler.
Eftirmál griðasamningsins
Griðasamningurinn innihélt (óopinber) ákvæði um „áhrifasvæði“. Fyrir Sovétmenn settu þau ákvæði frekari framrás Þjóðverja til austurs ákveðin mörk í bráð (mörkin fylgdu gróflega vesturmörkum gamla rússneska keisaradæisins), mörkuðu „stuðpúðasvæði“ í næsta nágrenni Sovétríkjanna. Fyrir nágrannana hafa þessi ákvæði skiljanlega verið illræmd síðan. En ályktun Evrópuþingsins frá 2019 sem segir að „alræðisríkin skiptu Evrópu í tvö áhrifasvæði“ – og gerir hernaðaraðgerðir Þýskalands og Sovétríkjanna 1939 sambærilegar – er sögufölsun. Sovétríkin voru ekki í neinni útrás heldur ríki í mikilli hættu sem reyndi að tryggja landvarnir sínar. Eftir á verður ekki sagt að ástæðan hafi verið ofmetin.
Ríkin skiptu vissulega Póllandi. Tveimur vikum eftir að Þjóðverjar hófu innrásina í Pólland hertóku Sovétmenn austurhéruð landsins að sk. Curzonlínu, en pólska ríkisstjórnin hafði þá yfirgefið land sitt. En hvaða lína var Curzonlínan? Það var landamæralína sem í Versölum 1919 var dregin af Bretum (Curzon, utanríkisráðherra Breta) sem málamiðlun í stríði Póllands gegn Sovét-Rússlandi (Sovétríkin enn ekki stofnuð), en Pólland var eitt 14 innrásarríkja í Rússland í rússneska borgarastríðinu. Curzonínan fylgdi í megindráttum þeim landamærunum sem gilt höfðu milli Rússlands og Póllands frá 1795 og jafnframt fylgdi hún þjóðernalínum milli annars vegar Pólverja og hins vegar Rússa/Hvítrússa/Úkraínumanna. Stríðið 1919 hélt samt áfram og Pólverjar hremmdu síðan gríðarstór svæði til austurs áður en samið var um vopnahlé. Löndin áttu í landamæradeilu vegna þessa.
Svo dæmi sé tekið leit Winston Churchill haustið 1939 ekki svo á að þetta hernám Sovétmanna væri árásaraðgerð af þeirra hálfu. Í útvarpsræðu viku eftir hernám austurhéraðanna sagði hann: „En að rússnesku herirnir skyldu standa á þessari línu var augljóslega nauðsynlegt fyrir öryggi Rússlands gegn nasísku ógninni.“ http://www.ibiblio.org/pha/policy/1939/1939-10-01a.html Í rit sitt mikla um Seinni heimstyrjöldina (1948) skrifaði Churchill aftur um Hitler-Stalín samninginn: «Spurningin er hvort Hitler eða Stalín þótti hann viðbjóðslegri... Að hægt væri að gera slíkan samning er hámark margra ára misheppnaðrar utanríkisstefnu og diplómatís Breta og Frakka.» Hann lagði sökina fremur á forustumenn Breta og Frakka en á Stalín.
Hitler hafði vonast eftir þeirri samstöðu með Vesturveldunum sem Sovétmenn óttuðust allra mest og 11. ágúst 1939 tjáði hann sig opinskátt við Buckhardt útsendara Þjóðabandalagsins í Danzigdeilunni: “Allt sem ég geri beinist gegn Rússlandi; ef Vesturveldin eru of heimsk og of blind til að skilja þetta neyðist ég til að komast að samkomulagi við Rússana, að sigra Vestrið og síðan, eftir ósigur þeirra, að beina sameinuðum herstyrk mínum gegn Sovétríkjunum. Ég þarf Úkraínu svo menn geti ekki svelt okkur út eins og í síðasta stríði.“ http://www.worldfuturefund.org/wffmaster/Reading/GPO/Generalplanostnew.htm
Eftirmál griðasamningsins voru m.a. þau að Sovétmenn tryggðu sér herstöðvaréttindi í Eystrasaltslöndum og ennfremur þau eftirmál sem mestu fári ollu á Norðurlöndum, Finnska vetrarstríðið 1940. Fárið er skiljanlegt. En frá sovéskum sjónarhól snérist Vetrarstríðið öðru fremur um að tryggja varnir Leníngrad sem lá aðeins 30 km frá finnsku landamærunum. Sovétmenn fóru fram á hluta af finnsku Karelíu á móti stærra svæði lengra í norðri. Finnar neituðu, fengu á sig Vetrarstríðið og misstu nokkru stærri hluta af Karelíu. Pólitík Sovétmanna gagnvart Finnlandi litaðist af því að þar voru ofurhægrisinnuð stjórnvöld í nánu hernaðarsamstarfi við Þýskaland, stjórnvöld sem gengu síðan í lið með Hitler í Óperasjón Barbarossa. Hefði tekist að verja Leníngrad falli 1941 ef landamærin hefðu legið óbreytt? Spyrja má.
Griðasamningurinn og Komintern
Önnur afleiðing af griðasamningnum varð afar erfið fyrir kommúnista, róttækan verkalýð og róttæka sósíalista heimsins. Það voru umskiptin í afstöðu Sovétríkjanna, frá baráttu fyrir „sameiginlegu öryggi“ (gegn stríðsöflunum) yfir í „hlutleysi“ í átökum stórveldanna. Nú breytti forusta sovéskra kommúnista greiningu sinni á komandi styrjöld frá því að vera styrjöld milli lýðræðisafla og fasískra afla yfir í það að vera heimsvaldastríð milli hliðstæðra heimsvaldablokka, eins og greining bolsévíka á Fyrri heimsstyrjöldinni hafði verið, og nú eins og þá gilti að taka afstöðu gegn þeim öllum.
Fyrir Sovéska ríkishagsmuni var þetta rökrétt afstaða. En svo var önnur stærð í dæminu: Í Moskvu voru miðstöðvar Alþjóðasambands kommúnista, Komintern sem var raunar miðstýrður heimsflokkur. Hann hafði um árabil af krafti rekið stefnu andfasískrar samfylkingar og þjóðfylkingar, víða með allgóðum árangri. Í Moskvu litu menn sýnilega þannig á að griðasamningurinn væri ekki trúverðugur í augum Hitlers & co ef Komintern ræki allt aðra stefnu. Út frá hugmynd og skipulagi heimsflokksins voru klárlega rök fyrir þessu, en þetta hafði það í för með sér að stefna kommúnísku aðildarflokkanna var nú beygð undir ríkishagsmuni og diplómatí Sovétríkjanna. Þessi snöggu umskipti gerðu kommúnistum afar erfitt fyrir og urðu til að einangra þá, sérstaklega eftir að þýska vígvélin tók í framsókn sinni að leggja undir sig hvert landið af öðru árið 1940.
Sú framsókn gekk fyrirhafnarlítið. Þjóðverjar voru 2 vikur að klára Pólland, 5-6 daga með Holland og Belgíu og 4 vikur með Frakkland. Fyrir utan Pólland var Austur-Evrópa í heild gengin þeim á hönd. Þetta leit ekki vel út. Sovétmenn lögðu sig mjög fram um að standa við alla skilmála griðasamningsins og gera ekkert sem ögraði Þjóðverjum (svo sem með liðssöfnun við landamærin), þannig mætti fresta högginu sem lengst.
Sem sagt: Bæði Sovétstjórnin og Komintern lýstu yfir að stríðið væri í eðli sínu „heimsvaldastríð“. En „línan“ sem Komintern gaf aðildarflokkum sínum var flóknari en svo, og hún tók breytingum. Frá því að vera yfirgnæfandi andbresk fyrsta vetur griðasamningsins breyttist áróður og leiðbeiningar Komintern til aðildarflokkanna (einkum í herteknu löndunum) með falli Be-Ne-Lux og Frakklands vorið 1940 yfir í að verða yfirgnæfandi andþýsk. Enn frekar breyttist „línan“ þó frá „aðlögun“ og yfir í virka andspyrnu frá ársbyrjun 1941 og aftur með innrásum Þjóðverja í Júgóslavíu og Grikkland í apríl 1941 (sjá þróun á línu Komintern t.d. í bók Terje Halvorsen, 1996, Mellom Moskva og Berlin, 130-135).
Óperasjón Barbarossa
Svo hófst Óperasjón Barbarossa. Ein algengasta frásögnin af innrásinni í Sovétríkin er að hún hafi komið flatt upp á Stalín af því hann hafi talið sig vera í „bandalagi“ við Hitler og treyst honum. Það kann að vera að tímasetning innrásar 22. júní hafi komið Stalín & co á óvart. Ekkert bendir samt til að hann hafi trúað því að Hitler hefði breytt strategískum markmiðum sínum um „lebensraum“ í Sovétríkjunum. Þann 5. maí 1941, 1½ mánuði fyrir innrásina, taldi Stalín sig sjá til hvers drægi og sagði við Herakademíuna í Moskvu: “Stríð við Þýskaland er óhjákvæmilegt. Ef félagi Mólotoff nær að fresta stríðinu um tvo eða þrá mánuði gegnum Utanríkisráðuneytið er það okkar gæfa, en sjálfir verðið þið að grípa til aðgerða til að efla orustuviðbúnað herja okkar.“ http://dictionnaire.sensagent.leparisien.fr/Operation%20Barbarossa/en-en/ Hitt skipti líka höfuðmáli að Sovétmenn notuðu tímafrestinn sem gafst með griðasamningnum miklu betur en nokkrir aðrir til að byggja upp hernaðargetuna og flytja lykiliðnaðinn í skjól undan þýsku vígvélinni. Fresturinn skipti því sköpum um sigur á nasismanum og þýskri heimsvaldastefnu.
Við innrásina í Sovétríkin skipti heimsstyrjöldin um gír – og í raun eðli. Hitler sendi 3,5 milljón hermenn inn í landið í júní 1941 og þeir börðust þar gegn „óæðri kynstofni“ í „baráttu um lífsviðhorf“ og um „lífsrými“. Vegna þessa varð grimmdin þar miklu meiri en í vestrinu, og ekki þurfti að vanda meðulin! Næstu þrjú heil ár gat Hitler einbeitt sér að þessu og þurfti nánast hvergi að berjast annars staðar í Evrópu á meðan. Eitt sinn var talið að 20 milljón sovétborgarar hefðu þarna látið lífið. Nú er oftar talað um 30 milljónir. Og samfélagið varð eins og flag eða rústir eftir. Til samanburðar misstu Bretar og Bandaríkjamenn milli 400 og 500 þúsund hvor þjóð. Það er bara einn fallinn Breti eða Bandaríkjamaður á móti 80 föllnum Sovétmönnum. En sovéska mótspyrnan braut loksins hrygginn á þýska drápsdýrinu. Morðáhlaup þess var stöðvað (og ósigranleikinn afsannaður) skammt frá Moskvu í desember 1941 og svo brotið á bak aftur í Stalíngrad veturinn 1942-43. Gagnsóknin nam staðar í Berlín. Níu af hverjum tíu föllnum þýskum hermönnum í heimsstyrjöldinni féllu á Austurvígstöðvunum. Í samanburðinum voru því öll önnur hernaðarátök nasismans minni háttar.
Þar og þannig var heimurinn losaður undan nasismanum, en hefði annars mátt stynja undan honum í áratugi, hver veit hvað marga, a.m.k. Evrópa. Það hefði mátt þakka Sovétmönnum fyrir þetta. Og þeim var þakkað – með nýjum stríðsógnum og köldu stríði frá atómsprengjuvæddum Bandaríkjum og NATO strax eftir stríð. Með tíð og tíma þakkaði svo Evrópusambandið Rússum/Sovétríkjunum sérstaklega fyrir frelsun Evrópu undan nasismanum með því að lýsa þau, ásamt Hitler, ábyrg fyrir styrjöldinni sjálfri!
Hreyfing hins „tvöfalda þjóðarmorðs“
Stuðningurinn við kenninguna um „tvöfalt þjóðarmorð“ á sér a.m.k. tvenns konar rætur. Annars vegar liggja þær á Vesturlöndum og snerta einkum heimsvaldahagsmuni dagins í dag. Hins vegar liggja þær í Austur-Evrópu og á vestursvæði gömlu Sovétríkjanna og þær rætur liggja dýpra. Hvorar tveggja eru ræturnar pólitískar. Sameiginlegi þátturinn í báðum er hið andrússneska.
Rússaandúð hefur verið einn meginþáttur stjórnmálaumhverfisins í Austur-Evrópu eftir fall Sovétríkjanna. Sögulega beinist þjóðernishyggja á þessu svæði gegn hinu svæðisbundna stórveldi, Rússlandi. Sú þjóðernishyggja á djúpar rætur í sögunni og hefur með sjálfsmynd að gera, og hefur líka að einhverju leyti tilhneigingu til að leita sér fulltingis út fyrir svæðið. Það afl sem í seinni tíð býður fram „aðstoð“ sína eru einkum Bandaríkin ásamt NATO.
Vestrænir heimsvaldasinnar hafa auðvitað sína eigin hagsmuni og ástæður til að ala á hinu andrússneska. En þetta skýrir það hvers vegna þau öfl sem Bandaríkin, NATO og einnig ESB veðja á í Austur-Evrópu eru öflin sem mest eru gegnsýrð af rússaandúð, og heimsvaldasinnar brúka það til framdráttar eigin hagsmunum. Það er í eðli sínu það sama og m.a. Hitler gerði á sínum tíma í sókn sinni austur (Drang nach Osten). Innan NATO eru svo hagsmunirnir ólíkir þar sem viðskiptahagsmunir og þörfin fyrir friðsamlega sambúð við Rússa vegur allt öðru vísi og þyngra í Evrópu en Bandaríkjunum.
Inn í þetta samhengi blandast Óperasjón Barbarossa. Svo er mál með vexti að mörg grannlönd vestan megin Rússlands eiga sér misjafnlega frækilega sögu úr heimsstyrjöldinni, þ.e.a.s. með meiri eða minni þátttöku eða innblöndun í Óperasjón Barbarossa. Þarna á milli í tíma liggur Kalda stríðið. Öll þessi forsaga hefur skapað ríka þörf ýmissa þjóðfélagshópa á umræddu svæði fyrir söguendurskoðun eftirspurn valdamikilla stjórnmálaafla eftir henni. Mikilvægast í því sambandi er að endurskoða hlutverk Sovétríkjanna (og hreyfingar kommúnista í heimshlutanum m.m.) í heimsstyrjöldinni.
Í því umhverfi var og er góður jarðvegur fyrir kenninguna um „tvöfalt þjóðarmorð“. Bæði innan gömlu Austurblokkarinnar og á Vesturlöndum. Seint á 10. áratugnum voru settar upp í öllum Eystrasaltslöndunum þremur opinberar rannsóknarnefndir, „rauð-brúnu nefndirnar“ svokölluðu, sem störfuðu í þeim anda að skoða nasíska og kommúníska fortíð sem „sameiginlega arfleifð“ og eitt viðfangsefni. Árið 2010 voru sett lög bæði í Litháen og Ungverjalandi sem gerðu það að fangelsissök að draga í efa kenninguna um „tvöfalt þjóðarmorð.“ http://defendinghistory.com/wp-content/uploads/2011/10/Dovid-Katz-in-JHC.pdf
Einn þáttur í hreyfingu „tvöfalda þjóðarmorðsins“ er að gera lítið úr staðbundinni samvinnu hægri þjóðernissinna á stríðsárunum við þýska herinn. Jafnvel að réttlæta samvinnuna sem gagnviðbrögð gegn þeim sem tóku þátt í kúgun Stalíns og kommúnista. Slík áhrif þjóðernishyggju eru oft kennd við hefndarstefnu eða landheimtustefnu.
Sérlegur sagnfræðingur „tvöfalda þjóðarmorðsins“ á Vesturlöndum er bandaríski sagnfræðingurinn Timothy Snyder. Hann varð metsöluhöfundur 2010 með bókinni Bloodlands: Europe Between Hitler and Stalin. Það segir sína sögu að Snyder er ekki hægrimaður líkt og mestu málpípur „tvöfalda þjóðarmorðsins“ austur frá heldur demókrati, sérlegur hatursmaður Trumps og hefur skrifað fjölda greina í blöð og tímarit í tengslum við Krímdeiluna og enn frekar í sambandi við „Russiagate“. Ásýnd vestrænnar heimsvaldastefnu er bæði mjúk og fjálslynd. Mestu stuðningsöfl hennar í Austur-Evrópu eru það ekki.
Andrússneska, andsovéska arfleifðin brúna
Litháen. Frá Litháen má nefna að líkamsleifar Juozas Brazaitis, æðsta lepps Þjóðverja („forsætisráðherra“) eftir hernám landsins 1941, voru fluttar frá Bandaríkjunum og greftraðar með opinberri viðhöfn og þátttöku m.a. Azubalis utanríkisráðherra Litháen og Vytautas Landsbergis fyrrv. þingforseta árið 2012. Það er aðeins eitt dæmi af mörgum sem nefna má um endurreisn og heiður handa samverkamönnum nasista í Litháen. Sjá t.d. hér: https://www.genocidewatch.com/single-post/nazi-collaborator-monuments-in-lithuania
Úkraína. Stærsta hlutverkið í evrópskum stjórnmálum spilar hægriþjóðernishyggjan í Úkraínu. Það tilheyrir forsögu hennar að hreyfingin OUN (og hernaðararmur hennar UPA), leidd af foringjanum Stepan Bandera, tók þátt í Óperasjón Barbarossa 1941. Vígahópar þeirra gerðust sekir um stórbrotna glæpi og slátrun hundruða þúsunda gyðinga, Pólverja og Rússa í hinni hernumdu Úkraínu. Löngu síðar, í stjórnartíð Júsénkós (2005-2010), sem var mikið eftirlæti Vestursins, var Bandera (dauður 1959) leiddur til vegs að nýju og honum veitt orða sem „hetja Úkraínu“ árið 2010. Árið 2014 var framkvæmt valdarán í Úkraínu, litabylting af bandarísku vörumerki en þar sem fasistar sáu um skítverkin. Þegar lýðræðislega kjörinn forseti var hrakinn frá völdum í ráðhúsi og þinghúsi Kiev var það undir myndum af Stepan Bandera. Myndir og minnismerki um kommúnismann eru hins vegar bönnuð í landinu (sem og kommúnistaflokkurinn). Árið 2018 var ákveðið af nýjum vestrænt sinnuðum stjórnvöldum í Kiev að gera fæðingardag Bandera að almennum frídegi. Þann dag marsera jafnan þúsundir á götum Kænugarðs honum til heiðurs. Sjá hér: Ukrainian nationalists and neo-Nazis stage torchlight march in Kiev to mark Nazi collaborator’s birthday (VIDEO) — RT Russia & Former Soviet Union
Pólland. Hvergi í Austur-Evrópu hefur hið andrússneska sterkari stöðu og ekkert land í Austur-Evrópu er svo handgengið Bandaríkjunum hernaðarlega sem Pólland. Pólland á sér ríka „brúna“ arfleifð. Sögulega hefur pólska hægriþjóðernishyggjan fyrst og fremst verið andrússnesk, en hallað sér á víxl að Bretum eða Þjóðverjum. Hún byggir hins vegar á gamalli lénskri heimsveldishugsun sem gengur út á að gera Pólland ráðandi á stóru svæði í Austur-Evrópu. Sterki maður millistríðsáranna í Póllandi, Józef Pilsudski, boðaði að endurreisa skyldi stórhertogadæmið Pólland-Litháen frá glanstíma þess sem náði fram á 17. öld. Það náði auk Póllands yfir Úkraínu, Hvítrússland, rússneska Kalininsvæðið og stærstan hluta Eystrasaltslanda og var kennt við „Intermarium“ („sem nær milli hafa“). Stjórn Pilsudskis var fasískt hernaðareinræði: Intermarium - Wikipedia Sitjandi ríkisstjórn flokksins Lög og réttlæti hefur stillt sér á bak við hugmyndina um „Intermarium“ í uppfærðri mynd og Duda forseti lýsir Piludski sem „mesta Pólverja 20. aldar“ ásamt Jóhannesi Páli II. páfa. https://www.wsws.org/en/articles/2016/06/03/pil4-j03.html
Hér hafa verið nefnd nokkur af þeim afturhaldssömu öflum í Austur-Evrópu sem vestræn heimsvaldastefna sverst í bandalag við í umsátri sínu og vígvæðingu gegn Rússlandi. Kenningin um „tvöfalt þjóðarmorð“ og um „tvo upphafsaðila“ heimsstyrjaldarinnar eru verkfæri í sama umsátri og vígvæðingu. Hagsmunirnir í fyrirrúmi eru þó hvorki vestur- né austur-evrópskir heldur bandarískir. Aðeins bandarískir heimsvaldasinnar hagnast mögulega á átökum milli Rússlands og afgangsins af Evrópu. Bandarískum heimsvaldasinnum hentar að æfa stríð sitt við Rússland með þessum brúnu öflum á 80 ára afmæli Óperasjón Barbarossa.