STAÐGENGILSSTRÍÐ RÚSSA OG NATO
Hverjir eru stríðsaðilar í Úkraínu og um hvað berjast þeir? Joe Biden og Jens Stoltenberg hafa undanfarin misseri talað um að heimsátökin nú um stundir snúist um „gildi“, um lýðræði gegn einræði. Og nú vellur þetta upp úr öðrum hverjum manni. Líklega er það rétt að Rússar hafi loksins lært hin "vestrænu gildi" Bandaríkjanna sem hafa frá stríðslokum framkvæmt 55 vopnaðar innrásir í önnur lönd og náð að steypa stjórnvöldum í 36 af þeim skiptum. Eftir að Kalda stríðinu lauk hefur sú íhlutunarstefna stórversnað. Og það hefur verið óháð því hvaða flokkur fór með völdin í Washington, og lítt háð stjórnmálaviðhorfi forsetans.
Geópólitík
Úkraínudeilan hefur frá byrjun fyrst og fremst snúist um „geópólitík“, valdapólitík stórvelda og stórveldablokka, ekki um gildi, lýðræði, framfarir, hvað þá frið, fyrir Úkraínu. Það hljómar jú lýðræðislega að spyrja Úkraínumenn: Í hvaða bandalag langar ykkur? Hvað er að því að NATO – í praxís Bandaríkin – taki að sér varnir Úkraínu? Það er þó ekki eins og með því væri einhver skátahreyfing að koma sér fyrir þarna inni á gafli hjá Rússum. Ekki hvaða ríki sem er heldur. Það er nóg að vitna í orð Jimmy Carters fyrrum Bandaríkjaforseta um Bandaríkin: „herskáasta þjóð mannkynssögunnar“ (the most warlike nation in the history of the world). https://www.telesurenglish.net/opinion/Jimmy-Carter-Lectures-Trump-US-Is-Most-Warlike-Nation-in-History-of-the-World-20190418-0020.html Það væri virkilega sniðug ráðstöfun að láta þetta ríki, sem auk þess er mesta kjarnorkuveldi heims, koma sér fyrir undir stofuglugganum hjá næstmesta kjarnorkuveldi heims! Svona uppá heimsfriðinn.
Snúum dæminu við. Segjum nú að bandalaginu Rússland/Kína gengi svo vel í sókn sinni til alþjóðlegra áhrifa að Mexíkó eða Kanada ákvæðu að ganga í austræna bandalagið og lúta herstjórn þess. Bandaríkin myndu taka það „óstinnt upp“ og okkur þætti það skiljanlegt. Þau hefðu líka vissa ástæðu til að telja slíka uppákomu öryggisógn við sig. Þau myndu líklega ekki velta fyrir sér hver vilji Mexíkóa eða Kanadamanna væri í þessum efnum. Þetta væri nefnilega „geopólitískt“ mál. Og þetta hugsaða dæmi vær alveg hliðstætt því dæmi sem við horfum upp á í Úkraínu.
Tilefni eða tilefnislaust?
Biden og Stoltenberg og samhljóma vestræn pressa halda því statt og stöðugt fram að árás Rússa hafi verið „tilefnislaus árás“ (unprovoked attack). Það er augljóslega rangt. Þvert á gefin loforð þegar Varsjárbandalagið var lagt niður, um að stækka ekki NATO austar en Þýskaland, þandi NATO sig í austur (svo NATO-ríkjum var fjölgað úr 14 í 28). Það var ekki nóg og 2008 lýsti NATO yfir að einnig Úkraína „mun verða aðili að NATO“. Í Moskvu var þá sagt: það mun Rússland aldrei líða. Við Úkraínu drögum við okkar „rauða strik“, öryggishagsmunir Rússlands þola ekki meira
Næsti leikur BNA/NATO: Svokölluð „litabylting“. Stríðið í Úkraínu hófst nefnilega ekki 22. febrúar 2022. Það hófst af alvöru átta árum fyrr, í febrúar 2014. Þá var gert valdarán, „litabylting“ af bandarísku vörumerki með bandarísk stjórnvöld djúpt innblönduð í uppþotið sjálft og takandi ákvarðanir um nýja ráðamenn í Úkraínu. Ekki skal ég fjalla um það valdarán núna. En síðan þá hefur verið stríð milli stjórnvaldanna sem rændu völdum í Kiev og rússneskumælandi íbúa suðausturhéraða landsins. 14.000 eru fallnir. Lífskjör hafa hrapað stórkostlega í Úkraínu í heild, en nýju stjórnvöldin í Kiev (oft kennd við Maidan) hafa þó eitt mjög til síns ágætis frá NATO-sjónarhóli, að vera harkalega andrússnesk.
Stríð Kievstjórnar gegn austurhéruðunum harðnaði.
Kröfunni um inngöngu Úkraínu í NATO var haldið til streitu. Rússar settu fram sína afarkosti (í byrjun desember sl.), þeir kröfðust einkum «trygginga» gegn því að NATO færðist austar, ef það fengist ekki yrði NATO að taka alvarlegum afleiðingum. Þessum skilmálum Rússa var strax algjörlega hafnað. Jens Stoltenberg sópaði kröfum þeirra út af borðinu, síðast í janúar sl: «Við munum munum hjálpa Úkraínu að fá aðild. Rússar hafa ekkert neitunarvald í því efni.» https://www.nrk.no/urix/stoltenberg-om-ukraina-mote_-_-vi-skal-hjelpe-ukraina-pa-vegen-mot-medlemskap-1.15806804 Sama hvað það kostar frá Rússlands hálfu Úkraína skal inn í NATO! Það er handan við rautt strik Rússa en inn skal hún samt! Um þetta verður ekki samið við Rússa.
Ögrunaraðgerðirnar gegn Rússlandi í Úkraínudeilunni eru massífar, langvarandi, meðvitaðar og þrautskipulagðar. Svo að «tilefnislaus» var árásin á Úkraínu ekki.
Þetta er staðgengilsstríð
Stríðið í Úkraínu er staðgengilsstríð, ekki þjóðfrelsisstríð. Deiluaðilar eru Rússland og NATO, þar sem NATO notar Úkraínu sem staðgengil. Rússland stefnir að valdaskiptum í Úkraínu en NATO stefnir að valdaskiptum í Rússlandi. Hvorugur aðili heyr réttlátt stríð.
NATO dælir nú inn vopnum til Úkraínu til að draga á langinn stríð sem Úkraína getur ómögulega unnið, og til að festa Rússa í «kviksyndi». ESB, Þýskaland, Búlgaría, Pólland og öll Norðurlönd utan Íslands leggja til vopn, meðal annarra. Ísland flytur vopn. Og meðan ég skrifa þetta æfa orustuvélar og herflutnigavél lendingar hér á Akureyrarvelli. Ennþá hættulegri þróun: Búlgaría hefur ákveðið að senda MIG-29 sprengiþotur (og Pólland og Slóvakína líklega herþotur líka). Sagt er að þær megi athafna sig frá pólsku landsvæði. Ef Rússar svara flugárásum t.d. frá pólskum flugvöllum er farin af stað bein styrjöld Rússa við NATO-ríkin. https://southfront.org/nato-countries-join-war-in-ukraine/
Þeir vissu hvað þeir gerðu
Strategistar BNA og NATO egndu rússneska hýðisbjörninn vitandi vits. Djöfluðust þá því eina sem þeir vissu að Rússar gætu aldrei hugsanlega þolað. Úkraína inn í NATO! Mikið má til mikils vinna. Það höfðu þó komið fram skýrar viðvaranir frá málsmetandi strategistum bandarískar utanríkisstefnu, um að þetta væri stríðsvegur. George Kennan, sjálfur faðir fyrirbyggingar-stefnu BNA í Kalda stríðinu, var árið 1998 spurður af Thomas Friedman um austurstækkun NATO, og hann taldi hana mjög hættulega: ''I think it is the beginning of a new cold war… I think the Russians will gradually react quite adversely and it will affect their policies. I think it is a tragic mistake. There was no reason for this whatsoever.” https://www.nytimes.com/1998/05/02/opinion/foreign-affairs-now-a-word-from-x.html Og eftir litabyltinguna í Kiev 2014 varaði m.a.s. hinn reyndi erkiheimsvaldasinni Henry Kissinger við að hér væri hættuspil í gangi: “Ukraine should not join NATO” https://www.russiamatters.org/analysis/kissinger-russia-insights-and-recommendations Strategistar BNA og NATO vissu að þetta kostaði stríð en höfnuðu samt öllum öryggiskröfum Rússa. Niðurstaðan: þeir vildu stríð.
Styðja hvorugan stríðsaðilann
Við eigum hvorugan stríðsaðilann að styðja. Rússland heyr árásarstríð, augljóslega gegn fullveldi og vilja Úkraínumanna. Slíkt er ljóslega ekki hægt að styðja. Hinn stríðsaðilinn, NATO, heyr sitt útþenslustríð. Stefnu bandalagsins um að knésetja Rússa er líka fráleitt að styðja. Vestrænn stríðsæsingur og hernaðaraðstoð til Úkraínu er eldsneyti á það bál sem eykur í senn á hroðalega mannúðarkrísu Úkraínu og mestu heimsstyrjaldarhættu sem heimurinn hefur séð frá 1945. Rússar dragi sig frá Úkraínu! Stöðvum útþenslustefnu NATO!