Fara í efni

ÞÓRDÍS, BLINKEN OG GUÐNI TH. UM ÚKRAÍNU OG VINI OG ÓVINI ÍSLENDINGA

Þórdís Kolbrún Nató.JPG
Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð utanríkisráðherra Íslands ætlar ekki að verða eftirbátur forvera síns í utanríkisráðuneytinu hvað varðar fylgispekt við NATÓ og Bandaríkjastjórn.

Yfirlýsingar í tengslum við fundi NATÓ og símtöl við Blinken utanríkisráherra BNA bera þess vott að núverandi ríkisstjórn ætlar áfram að líma sig upp að þessum aðilum hvað sem líður stríðsæsingartali þeirra.

Íslendingar muni standa með öllum sínum “vinaþjóðum” gegn Rússum í deilunum um Úkraínu segir Þórdís Kolbrún aftur og ítrekað og vill þar með leggja áherslu á að þetta sé utanríkisstefna Íslands og ekkert annað.

Nú leyfi ég mér að spyrja, eru Rússar ekki jafnmikil vinaþjóð Íslendinga og Bandaríkjamenn? Eru Suður-Kóreumenn vinaþjóð okkar en Norður-Kóreumenn óvinaþjóð Íslendinga?

Er það hlutverk utanríkisráðherra að draga heilar þjóðir í dilka á þennan hátt?

Auðvitað eiga allar þjóðir að vera vinaþjóðir.

Það eru stjórnvöldin sem geta verið vinveitt eða óvinveitt eftir atvikum.

Þannig, svo dæmi sé tekið, eru stjórnvöldin í NATÓ-ríkinu Tyrklandi fasísk. Þannig koma þau fram innanlands, fangelsa tugþúsundir, myrða og ofsækja. Hvort eru Tyrkir þá skilgreindir sem vinaþjóð eða óvinaþjóð í utanríkisráðuneytinu íslenska?

Voru Bandaríkjamenn og Bretar vinaþjóðir eða óvinaþjóðir þegar Afganistan var hernumið um síðustu aldamót?

En þegar Bandaríkjamenn, Bretar og fylgifiskar þeirra hurfu þaðan, skildu eftir vopnin í höndum Talibana en stálu öllu úr afganska seðlabankanum? Voru þar vinir eða óvinir að verki? Og skyldu heilu þjóðirnar hafa staðið þar að baki, sú bandaríska og sú breska og náttúrlega sú íslenska því íslensk stjórnvöld voru á meðal fylgifiska?

Og svo er það forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem tekið hefur sér bessaleyfi að blanda sér í stríðsæsingatal NATÓ um Úkraínu. Hvaðan telur hann sig hafa umboð frá íslenskum almenningi til slíkra afskipta?

Vel má vera að vopnaiðnaðinum bandaríska takist að efna til ófriðar við Rússa í Úkraínu eða annars staðar. En mikil frelsun væri það ef íslensk stjórnvöld hefðu manndóm í sér til að standa þar utan, beita sjálfstæðri dómgreind sinni til að þjóðir fái að vera vinir þótt valdhafar og vopnaiðnaður telji annað þjóna hagsmunum sínum.