Fara í efni

ÞÖRF Á LÝÐRÆÐISLEGRI UMRÆÐU UM UTANRÍKISMÁL


Í dag fór fram á Alþingi umræða um málefni sem tengjast samskiptum Íslands við Evrópusambandið og Hið evrópska efnahagssvæði, EES. Slík umræða er nauðsynleg og gagnleg, þarf reyndar að verða mun meira á dýptina en boðið var upp á í dag. En gott og vel, viðleitni í rétta átt.
Ég hef oft kvartað yfir því á liðnum árum hve lítil umræða hefur farið fram um tengsl Íslands við umheiminn, Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Alþjóðaviðskiptastofnunina og aðrar fjölþjóðlegar stofnanir sem við eigum aðild að. Á vettvangi þessara stofnana hefur oft verið haldið fram viðhorfum í nafni íslenskrar þjóðar án þess að nokkur stefnumótandi vinna hafi farið fram á Alþingi um þessi skilaboð sem send eru út í heim í okkar nafni. Oftar en ekki hafa Íslendingar verið í einhvers konar samkrulli með öðrum Norðurlandaþjóðum þegar þetta gerist. Stundum - ekki alltaf - er verið að færa fram stefnu sem yrði hrópuð niður ef hún væri borin á borð heima fyrir (Dæmi um þetta rek ég m.a. https://www.ogmundur.is/is/greinar/thridji-heimurinn-og-vid).
Þetta kemur upp í hugann vegna umræðunnar á Alþingi í dag en einnig vegna hugrenningartengsla eftir að lesa stórgott Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins um síðustu helgi. Í þessu Reykjavíkurbréfi er varað við óheftum kapitalisma, tekið undir með fjármálaspekúlantinum George Soros, sem segir það vera falshugmynd hjá bókstafstrúarmönnum frjálshyggjunnar að óheftur kapitalismi leiti jafnvægis. Það geri hann ekki. Og höfundur Reykjavíkurbréfs klykkir út með því að taka undir þetta sjónarmið: „Reynslan sýnir að það þarf að tempra öfgarnar, sem markaðurinn hneigist til þegar hann er óbeislaður."
En aftur að þeim skorti sem er á lýðræðislegri umræðu. Þar tekur Reykjavíkurbréf undir þau sjónarmið sem ég hef hamrað á í langan tíma. nefnilega að í skjóli leyndar og vegna þess að lýðræðisleg umræða fer ekki fram er borin fram stefna sem engin hefur samþykkt. Síðan er þessari stefnu hrint í framkvæmd og er þá komið að lokahnykk, það er að segja heima fyrir: Nú verðum við að gera eins og aðrar þjóðir gera. Allir eru að gera það, við skulum ekki vera útúboruleg!
Þannig eru þjóðirnar plataðar til fylgispektar við hugmyndir sem engin lýðræðisleg innistæða er fyrir. Mogginn botnar hugsun sína ekki á þennan hátt. En um lýðræðishallann er fjallað á afgerandi hátt í umræddu Reykjavíkurbréfi. Höfundur segir að hvergi hafi það gerst „að nokkur þjóð hafi kosið yfir sig hugmyndafræði Friedmans um óbeislaðan kapítalisma. Engu að síður hefur hagfræðikenningum hans verið beitt mjög víða. Alþjóðabankinn hefur fylgt þeim nánast eins og trúarsetningum og um langt skeið byggt lánaskilmála á því að lánþegar afnemi reglur og höft. Í þeim efnum hefur einu gilt þótt þau vel stæðu ríki, sem standa að bankanum og ráða þar mestu, vogi sér ekki að beita þessum kenningum heima fyrir, vísast af þeirri einföldu ástæðu að almenningur myndi aldrei sætta sig við það."
Gott hjá Mogga.
---------------------------------------------------------------------------

Ég vona að Morgunblaðið og sérfræðingar þess í höfundarrétti, fyrirgefi mér að birta Reykjavíkurbréfið í heild sinni um leið og ég hvet menn til að lesa það:

Reykjavíkur bréf Morgunblaðsins 26. janúar, 2008.  

Samkvæmt hagfræðinni leitar óheftur markaður í fullkomnum heimi, þar sem allar upplýsingar liggja fyrir og allir taka skynsamlegar ákvarðanir vegna þess að þeir vita nákvæmlega hvað næsti maður ætlast fyrir, jafnvægis. Í þessu jafnvægi mætast væntingar fjárfestanna og horfur fyrirtækjanna. Þeir sem trúa á þessar kennisetningar eru reyndar ekki alltaf sjálfum sér samkvæmir. Að minnsta kosti er krafan um afskiptaleysi yfirvalda af markaðnum mun háværari þegar vel gengur, en þegar á móti blæs. Kenningin um hinn óhefta markað verður sennilega aldrei sönnuð - eða afsönnuð - með öllu, því að alltaf verður hægt að benda á einhvern þátt, sem bjagar heildarmyndina. Á meðan munu þeir, sem trúa því að hinn óhefti markaður sé eina leiðin til hins fullkomna jafnvægis, sitja við sinn keip. Ef hins vegar eitthvað er hæft í þeirri staðhæfingu Davids Humes að ekkert sé marktækt nema hægt sé að sannreyna það í reynslunni stendur ekki mikið eftir af hagfræðikenningunni því að reynslan sýnir fremur að óheftur hneigist markaðurinn til öfga, hvort sem þær koma fram í uppsveiflum eða áföllum.

Fjármálastormurinn orðinn að fellibyl

Niðursveiflan á fjármálamörkuðum heimsins hefur valdið miklum titringi. Á forsíðu nýjasta tölublaðs breska vikuritsins The Economist er mynd af manni með skjalatösku, sem berst í gegnum óveður og yfir myndinni er línurit, sem sýnir hrunið á mörkuðum. Í forustugrein í blaðinu segir að fjármálastormurinn, sem varð til þegar undirmálslánamarkaðurinn í Bandaríkjunum sprakk í fyrra, sé orðinn að fellibyl: „Hinir göróttu vindar glannalegra húsnæðislána næddu fyrst um markaðinn með eignavarin verðbréf, því næst bókhald bankanna og nú síðast hlutabréfamarkaðina. Um allan heiminn hafa rúmlega 5 billjónir dollara [það er 5 milljónir milljóna dollara] af verðmæti skráðra fyrirtækja horfið á fyrstu þremur vikum janúarmánaðar." Eins og fram kom í Morgunblaðinu á fimmtudag nam lækkun í kauphöllinni 463 milljörðum frá áramótum miðað við lokagengi á miðvikudag, en þess ber þó að gæta að gengið fór aftur upp á við á fimmtudag og föstudag og hækkaði um 7,93%, sem samsvarar 139 milljörðum króna.
Fréttaskýrendur eru farnir að halda því fram að efnahagsmálin muni setja sterkan svip á bandarísku forsetakosningarnar. Í desember gerðu sjónvarpsstöðin CBS og dagblaðið New York Times könnun þar sem 25% sögðu að Írak skipti mestu máli, en 20% nefndu efnahagsmálin. Nú hefur það snúist við og 24% nefna efnahagsmálin fyrst, 22% Írak. Bandaríski seðlabankinn greip til þess ráðs að lækka stýrivexti um 0,75%, sem er mesta lækkun í aldarfjórðung. Forsetinn og þingið tilkynntu að 150 milljörðum dollara yrði dælt út í efnahagslífið til að örva það, sem margir segja að sé á leið í kreppu, sé hún ekki þegar hafin.

George Soros og viðbragðskenningin

George Soros gat sér orð á liðnum áratug sem hálfgerður galdramaður í heimi fjárfestinga og eftir að hann hagnaðist verulega á að selja sterlingspund rétt fyrir gengisfellingu og kaupa síðan aftur fóru aðrir fjárfestar að fylgjast fyrir alvöru með viðskiptum hans. Soros er gyðingur og fæddist í Búdapest. Hann var 14 ára þegar nasistar tóku landið 1944, en fjölskyldan komst hjá því að vera send í fangabúðir. Í upphafi níunda áratugarins byrjaði hann að nota auð sinn til góðgerðarstarfsemi og styrkja og beindi sjónum sínum einkum að Austur-Evrópu. Eftir að járntjaldið féll stofnaði hann sjóði í Póllandi, Tékkóslóvakíu, Júgóslavíu og Rússlandi. Soros nam meðal annars heimspeki hjá Karli Popper, þótt ekki legði hann heimspeki fyrir sig, og hefur tekið þátt í umræðu um hagfræðileg málefni. Hefur hann meðal annars gagnrýnt stjórnvöld ríkisstjórna á Vesturlöndum fyrir skammsýni. 
Í viðskiptablaði Morgunblaðsins á fimmtudag birtist grein eftir Soros þar sem hann leggur út af ástandinu á mörkuðum heimsins um þessar mundir og segir að nú sé skollið á mesta óveður í efnahagslífi heimsins frá seinna stríði: „Til að skilja það sem er að gerast þurfum við nýja grundvallarreglu. Hún er til staðar í viðbragðskenningunni, sem ég setti fyrst fram fyrir 20 árum í bók minni The Alchemy of Finance. Samkvæmt þeirri kenningu hneigjast fjármálamarkaðir ekki til jafnvægis. Hlutdrægni í skoðunum og ranghugmyndir þátttakenda á markaði hleypa ekki aðeins óvissu og hinu ófyrirsjáanlega inn í verðlag á markaði, heldur einnig þau grundvallaratriði, sem markaðnum er ætlað að endurspegla. Ef ekkert er að gert er mörkuðum hætt við ýmist öfgum, ofsagleði eða örvæntingu," skrifar Soros. „Reyndar er það svo að vegna líkindanna á óstöðugleika eru markaðir ekki látnir óáreittir. Þeir eru í umsjá yfirvalda, sem hafa með höndum að halda öfgunum innan marka. En yfirvöldin eru einnig mannleg og því hætt við bjöguðum viðhorfum og ranghugmyndum. Og samskiptunum milli fjármálamarkaða og yfirvalda á fjármálamarkaði hættir einnig til að vera viðbragðamarkinu brennd."

Öfgar markaðarins og bókstafstrúin

Soros lýsir því í greininni hvernig orðið hafi til kerfi þar sem efnahagshvatarnir stönguðust á: „Sextíu ára ofuruppsveiflan er hins vegar flóknara mál. Í hvert skipti sem komu upp vandamál vegna aukningar lánsfjármagns skárust fjármálayfirvöld í leikinn, dældu inn lausafé og fundu aðrar leiðir til að örva efnahagslífið. Þannig varð til kerfi með hvötum, sem stönguðust á og einnig mætti nefna siðferðisgildru, og það ýtti undir síaukið lánsfjármagn. Þetta kerfi gekk svo vel að fólk var farið að trúa á það, sem Ronald Reagan, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, kallaði „galdur markaðarins" og ég kalla bókstafstrú markaðarins."
Bókstafstrúarmennirnir fá kaldar kveðjur frá Soros: „Bókstafstrúarmennirnir eru þeirrar hyggju að markaðurinn hneigist til jafnvægis og sameiginlegum hagsmunum verði helst borgið með því að leyfa þátttakendum í honum að fylgja eigin hagsmunum. Þetta er augljós ranghugmynd vegna þess að það var inngrip yfirvalda, sem kom í veg fyrir að fjármálamarkaðirnir hryndu, ekki markaðirnir sjálfir. Engu að síður var bókstafstrú markaðarins ríkjandi hugmyndafræði níunda áratugarins þegar hnattvæðing fjármálamarkaðanna hófst og viðskiptahalli varð viðvarandi í Bandaríkjunum."
Og hvernig gerðist þetta, að mati Sorosar: „Frá 1980 hefur verið slakað á reglum allt þar til þær nánast hurfu. Hnattvæðingin hefur gert Bandaríkjamönnum kleift að soga til sín sparnað um allan heim og neyta meira en þeir framleiddu og árið 2006 var svo komið að viðskiptahallinn náði 6,2% af vergri þjóðarframleiðslu. Fjármálamarkaðirnir hvöttu neytendur til að taka lán og kynntu til sögunnar stöðugt fágaðri aðferðir og rausnarlegri skilmála. Yfirvöld voru meðsek í þessu ferli með því að skerast í leikinn í hvert skipti sem hætta steðjaði að fjármálakerfi heimsins.
Ofuruppsveiflan fór úr böndunum þegar nýju aðferðirnar reyndust svo flóknar að yfirvöld gátu ekki lengur reiknað út áhætturnar og fóru þess í stað að reiða sig á áhættustýringaraðferðir bankanna sjálfra. Með sama hætti treystu matsfyrirtækin á upplýsingar frá upphafsmönnum tilbúinnar vöru. Um var að ræða skelfilegt afsal ábyrgðar."
Soros segir að nú hljóti að fylgja samdráttur, ekki síst vegna þess að nú sé óhjákvæmilegt að bandaríski seðlabankinn missi getu sína til að örva efnahagslífið. Sá samdráttur þarf hins vegar ekki að breiðast út um allan heim: „Þótt samdráttur í þróaða heiminum sé meira eða minna óhjákvæmilegur er um mjög sterka gagnþróun að ræða í Kína, Indlandi og ýmsum olíuframleiðsluríkjanna. Fyrir vikið er líklegra að yfirstandandi fjármálakreppa muni valda uppstokkun í efnahagskerfi heimsins en samdrætti um allan heim. Þá myndi Bandaríkjunum hnigna hlutfallslega og Kína og önnur þróunarríki rísa. Hættan er að sú pólitíska spenna, sem af hlytist, þar á meðal verndarhyggja í Bandaríkjunum, myndi valda röskun í efnahagskerfi heimsins og kalla samdrátt yfir heiminn - eða þaðan af verra."

Umræða um yfirþjóðlegt fjármálaeftirlit

Soros bendir á öfgar markaðarins og greinir ástæðurnar fyrir þeim. Efnahagskerfi heimsins er orðið svo samofið að þegar hagkerfi hóstar á einum stað getur hagkerfi hinum megin á hnettinum kvefast. Undirmálslánakreppan í Bandaríkjunum hefur haft mikil áhrif heima fyrir, en þau teygja sig um allan heim. Bankar og lífeyrissjóðir á Íslandi höfðu eygt þar gróðavon, sem fór fyrir lítið, og tveir bankar í Þýskalandi lentu í alvarlegum vandræðum. Ef röksemdafærsla Soros er hugsuð til enda væri hægt að komast að þeirri niðurstöðu að þörf sé á yfirþjóðlegu fjármálavaldi. Hugmynd um að stofna nokkurs konar alheimsseðlabanka var rædd á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos í vikunni, borin undir þátttakendur og felld með 75% atkvæða. Meginástæðan virtist vera ótti við að búa til nýja stofnun með tilheyrandi skrifræði. Fyrstu viðbrögð þeirra, sem sækja Davos, eru að yfirvöld eigi að láta markaðinn í friði. Hins vegar kalla nú margir á einhvers konar aðgerðir. Það ástand, sem nú ríki í efnahagsmálum, gangi ekki og það þurfi að setja reglur, sem tryggi að það endurtaki sig ekki, þótt ekki sé samkomulag um hverjar þær eigi að vera. Bankarnir fylgist ekki með sjálfum sér og því þurfi með einhverjum hætti að veita þeim aðhald - einhver þurfi að horfa yfir öxlina á þeim og fylgjast með því, sem er að gerast. Þannig megi koma í veg fyrir glannalega lánastefnu hjá bönkum og gæta þess að þeir haldi sig á beinu brautinni.
En hversu langt á að ganga? Hugmyndinni um seðlabanka heimsins var ef til vill hafnað í Davos, en Charles Goodhart, fyrrverandi seðlabankastjóri Englandsbanka og sérfræðingur í fjármálareglum, er þeirrar hyggju að aðgerðir verði gagnslausar nema til komi yfirþjóðlegt vald. Í grein í International Herald Tribune er haft eftir honum að reglur, sem kveði á um að bankar þurfi að hafa meira fé handbært á hverjum tíma en nú er, þurfi að vera alþjóðlegar, en ekki bundnar við þjóðir. Bankarnir muni ekki halda aftur af sér í útlánum og fjárfestingum svo lengi sem alþjóðlegir keppinautar þeirra þurfi ekki að fylgja sömu reglum: „Það er ekki hægt að gera svona í hverju landi fyrir sig eða taka eitt skref í einu. Bankarnir munu einfaldlega reka upp vein og kvarta undan því að þeir séu að missa samkeppnishæfi í hendur erlendra banka," segir Charles Goodhardt.

Frjálshyggjunni framfylgt

Eins og áður er nefnt er það segin saga að þegar allt leikur í lyndi knýr fjármálaheimurinn á um afskiptaleysi, en þegar skórinn kreppir að er kallað á hjálp. Talsmenn afskiptaleysisins hafa hins vegar verið ansi atkvæðamiklir. Soros lýsir því í grein sinni hvernig reglur til að stýra fjármálaheiminum hafi nánast verið afnumdar með öllu á undanförnum aldarfjórðungi.
Á Vesturlöndum hafa á síðustu hundrað árum orðið til lífskjör, sem eiga sér engan líka í sögunni. Í einföldu máli má segja að þau hafi orðið til við það að stjórnvöld hafa látið undan kröfum um bætt lífskjör almennings á borð við heilbrigðiskerfi og almannatryggingar til þess að slá vopnin úr höndum þeirra, sem boðuðu enn róttækari lausnir. Það kerfi, sem þannig varð til og hefur náð mestri fótfestu í Vestur-Evrópu, hefur einnig verið harðlega gagnrýnt og meðal annars verið sagt dragbítur á hagvöxt. Almenningur hefur hins vegar verið mjög hikandi við að afsala sér áunnum réttindum. Á Vesturlöndum hefur skrefið til óhefts kapítalisma því aldrei verið stigið til fulls þótt fjálglega hafi verið talað um frjálshyggjukenningar hagfræðinga á borð við Milton Friedman heitinn.
Þessar kenningar hafa þó haft mikil áhrif og víða verið beitt - utan Vesturlanda. Þeim er lýst með mjög gagnrýnum hætti í bók, sem kom út á liðnu ári eftir Naomi Klein og nefnist Shock Doctrine. Eins og hún bendir á hefur það hingað til hvergi gerst að nokkur þjóð hafi kosið yfir sig hugmyndafræði Friedmans um óbeislaðan kapítalisma. Engu að síður hefur hagfræðikenningum hans verið beitt mjög víða. Alþjóðabankinn hefur fylgt þeim nánast eins og trúarsetningum og um langt skeið byggt lánaskilmála á því að lánþegar afnemi reglur og höft. Í þeim efnum hefur einu gilt þótt þau vel stæðu ríki, sem standa að bankanum og ráða þar mestu, vogi sér ekki að beita þessum kenningum heima fyrir, vísast af þeirri einföldu ástæðu að almenningur myndi aldrei sætta sig við það. Klein gengur svo langt að segja að það sé svo sársaukafullt fyrir almenning að framfylgja kenningum Friedmans að það myndi aldrei takast í lýðræðisþjóðfélagi. Reynslan sýni að ógnarstjórn og valdbeitingu þurfi til að halda almenningi niðri. Chile sé gott dæmi um það. Ekki sé hægt að horfa á hagstjórn í Chile í valdatíð Augustos Pinochets og mannréttindabrot herforingjastjórnar hans sem tvo aðskilda hluti. Ógnarstjórnin hafi verið forsenda þess að knýja í gegn efnahagsaðgerðirnar.

Reynslan eftir að járntjaldið féll

Eftir að járntjaldið féll hugðust nýir valdahafar í Austur-Evrópu stytta sér leið að lífsgæðum vestursins og sóttu til þess vestræna hagfræðinga, sem sögðu að galdurinn væri fólginn í því að afnema öll höft og sleppa kapítalismanum lausum: Þeir mæltu með sársaukaleiðinni. Með því að gefa hagkerfinu lost átti það að taka við sér, en áður en gósentíðin tæki við yrðu menn að afbera tímabundinn sársauka.
Svakalegasta dæmið um sársaukaleiðina er sennilega Rússland þar sem einkavæðingin fólst í því að nokkrir einstaklingar gátu látið greipar sópa um helstu fyrirtæki landsins. Kjör almennings versnuðu til muna, greiðslur til ellilífeyrisþega gufuðu upp, hermenn voru betlandi á götum úti og seldu utan af sér leppana og lífslíkur hröpuðu um leið og fámenn, nýrík yfirstétt lifði í vellystingum og gaf almúganum langt nef.
Það má leiða að því líkur að sú ákvörðun að fara að ráðum frjálshyggjuhagfræðinganna hafi bólusett rússneska kjósendur gagnvart stjórnmálamönnum, sem vilja horfa til vesturs. Talað er um að brennt barn forðist eldinn. Á það ekki við um rússneska kjósendur nú?
Víða annars staðar í Austur-Evrópu tókst ekki betur til en svo að eftir fyrstu tilraunirnar til að skipta yfir í óbeislað markaðskerfi með handafli hlupu kjósendur aftur í faðminn á flokkum, sem höfðu sprotttið upp úr gömlu kommúnistaflokkunum.
Ekki er langt síðan sagt var frá því í fréttum að stjórnvöld í Malaví hefðu ákveðið að hunsa tilmæli Alþjóðabankans og hefja niðurgreiðslur til bænda á áburði og fræjum. Áður en það gerðist var Malaví á barmi hungursneyðar og þurfti á neyðaraðstoð að halda til að íbúar landsins fengju að borða. Sérfræðingar eru sammála um að niðurgreiðslurnar hafi orðið til þess að snúa landbúnaði í landinu við. Nú er matur fluttur út frá Malaví og þarlendir bændur eru farnir að leggja sitt af mörkum til þess að hjálpa sveltandi íbúum í nágrannaríkjunum. Innra eftirlit Alþjóðabankans hefur gagnrýnt harðlega lánastefnuna gagnvart Malaví og sagt að hún hafi verið til þess fallin að hefta efnahagsbata í landinu. Niðurgreiðslur geta leitt til stöðnunar og óheilbrigðs reksturs til lengdar, en þarf bókstafstrúin gegn þeim að vera slík að þeim megi aldrei beita? Íbúar Malaví eru sennilega ekki tilbúnir að taka undir það.
Þróunin í efnahagsmálum á undanförnum þremur vikum ber því vitni hvað gerist þegar fjármálastofnanir eru látnar um að fylgjast með sér sjálfar og aðhald er í lágmarki. Reynslan sýnir að það þarf að tempra öfgarnar, sem markaðurinn hneigist til þegar hann er óbeislaður. Reynslan sýnir einnig að heilbrigð samkeppni verður ekki til án þess að reglur séu til staðar og eftirlitsstofnanir hafi bolmagn til að fylgja þeim eftir.