ÞÖRF Á SKÝRUM OG TAKMARKANDI REGLUM UM HLERANIR
28.02.2013
Það er meira en að segja það að heimila hlerun á símasamtölum. Slíkt er er mikið inngrip í líf fólks - friðhelgi einkalífsins. Þó eru til þau tilvik að þetta er heimilað og er kveðið á um þessar heimildir til símhlerana í lögum um meðferð sakamála. Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, beindi nýlega til mín sem innanríkisráðherra, spurningu um umfang hlerana á undanförnum fimm árum. Aðrir hafa einnig sýnt þessu áhuga ekki síst í ljósi þess að fram hefur komið að ýmsir efnahagsbrotamenn hafa verið hleraðir sem sakborningar og eru nú hver á fætur öðrum sakfelldir á grundvelli rannsókna, hugsanlega þess sem fram hefur komið með þessum hætti.
Prýðilegt er að fá þessa umræðu fram í dagsljósið. Ég hef verið spurður út símhleranir á efnahagsbrotamönnum í fjölmiðlum að undanförnu, m.a. í RÚV og Kastljósi Sjónvarpsins:
Ég hef minnt á það í þessum viðtölum að ég hef mælt fyrir frumvarpi sem ætlað er að skýra og takmarka heimildir lögreglu til hlerana; að ekki sé nægjanlegt að dómari telji ríka almanna eða einkahagsmuni réttælta slíkt eða verið sé að rannsaka brot sem hafi tiltekinn refsiramma. Samkvæmt frumvarpinu sem ég lagði til þarf hvort tveggja að vera til staðar. Önnur nýmæli er einnig að finna í frumvarpinu, allt til þess fallið að gera regluverkið skýrara og gagnsærra.
Einhverra hluta vegna heykist Alþingi á að taka þetta frumvarp til umfjöllunar og afgreiðslu. Á sama tíma er hins vegar tekið út úr nefnd til afgreiðslu, þingmál sem greinilega er sniðið að því að búa í haginn fyrir leyniþjónustu á Íslandi. Undarleg forgangsröðun þykir mér það vera. Svo ekki sé dýpra tekið í árinni.
Viðtal í morgunútvarpi RÚV: http://www.ruv.is/sarpurinn/morgunutvarpid/27022013/vill-hardari-reglur-um-simahleranir
Viðtal í Kastljósi: http://www.ruv.is/sarpurinn/kastljos/27022013/vill-herda-heimildir-logreglu