ÞÖRF Á VÖKULLI VERKALÝÐSHREYFINGU!
Ég rétt missti af Ævari Kjartanssyni á RÚV í morgun. Heyrði blálokin á þætti hans þar sem hann kynnti lokalagið - ekki af verri endanum - við ljóð Stefáns Ögmundssonar, til langs tíma forystumanns íslenskra prentara og eins magnaðasta baráttumanns félagslegra gilda sem ég hef kynnst og góðs frænda og vinar.
Lagið var eftir Hallgrím Jakobsson en ljóð Stefáns, sem er baráttuhvöt, heitir Til átaka!
Vinnulýður
verk þín bíður
vörn og sókn hins snauða manns
sæktu glaður
sameinaður
sigra þína í greipar hans
sem að þjáði
þig og smáði
þínum börnum örbyrgð skóp
Láttu gjalla
um landsbyggð alla
lýðsins sterka sigurhróp
Ljóðið hæfir tilefninu, 1. maí, baráttudegi verkalýðsins og ber merki harðra stéttaátaka á fyrri hluta 20. aldar og framyfir hana miðja.
Hér sunnan heiða er dagurinn bjartur og fagur og gleður það hjarta mitt. Í áratugi hef ég risið úr rekkju á þessum degi, spenntur að sjá hvernig viðri fyrir útifundi dagsins. Ég á góðar minningar frá þessum degi á fundum víðs vegar um landið - nú hin allra síðustu ár hitti ég marga góðaf élaga í 1. maí kaffisamsæti BSRB. Engin undntekning var þar á í dag, fullt út úr dyrum! og þar margt góðra félaga og vina.
Hugurinn er hjá baráttufólki launafólks sem kemur saman til að stilla saman strengi og heita því að virkja saman kraftana til hagsbóta launafólki í baráttu fyrir jöfnuði og lýðræði og betra samfélagi.
Alltaf og öllum stundum er þörf á öflugri verkalýðsbaráttu sem stendur vörð um réttindi launafólks á vinnustaðnum og í þjóðfélaginu almennt; hreyfingu sem stendur vaktina gagnvart þeim sem stýra fjármagninu og fara með völdin.
Á tímum kreppu og samdráttar er jafnvel meiri þörf en endranær á vökulli verkalýðshreyfingu til að berjast fyrir réttlátum skiptum í þjóðfélaginu. Þá reynir á öryggisnet samfélagsins meir en ella en í mínum huga hefur það alltaf verið höfuðmarkmið verkalýðsbaráttunnar að þéttríða það net.
Ég sendi öllu launafólki bestu 1. maí kveðjur.