Fara í efni

ÞÖRF Á YFIRVEGAÐRI UMRÆÐU UM FLÓTTAFÓLK

MBL
MBL
Birtist í Morgunblaðinu 14.07.16.
Nýlega var því slegið upp í fréttatíma Ríkisútvarpsins að fulltrúi No Borders samtakanna vildi að við segðum okkur frá Dyflinnarsamkomulaginu og hættum að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd (hælisleitendur) úr landi. Mátti skilja að stjórnvöld skýldu sér á bak við samkomulagið til að geta vísað sem flestum hælisleitendum úr landi. Með öðrum orðum, skákað væri í skjóli Dyflinnarsamkomulagsins til að losna við þá af höndum okkar, og að það væri gert að óathuguðu máli.
Nú kann vel að vera að einhverjir hugsi á þennan veg en varasamt er að ætla öllum slíkan hugsunargang og leyfi ég mér í fullri vinsemd að vara við því að ætla stjórnkerfinu almennt illar hvatir þegar veruleikinn er sá að verið er að framfylgja lögum. Slík nálgun opnar ekki umræðuna heldur lokar henni og getur þannig leitt til þöggunar.
Það má ekki gerast. Þetta málefni er svo brennandi í samtímanum að það krefst opinnar og málefnalegrar umræðu. 

Virðingarverð hugsjón

Afstaða No Borders byggir á þeirri virðingarverðu hugsjón að hver einstaklingur ætti að geta verið þar sem honum best líkar í heimi án landamæra. 
Spurningin er hvort við viljum slíkt fyrirkomulagi og ef ekki, hvernig lög og reglur við vilum þá setja okkur og hvar við staðsetjum Ísland í hinu alþjóðlega samhengi. Hið góða við frétt Ríkisútvarpsins var hve skýr talskona No Borders var. Hún vísaði til nýsamþykktra laga sem stjórnmálaflokkarnir höfðu sameinast um á Alþingi, og kvað hún það slæmt að þeir hefðu ekki notað tækifærið og ráðist í róttækari breytingar en raun ber vitni. Þessu get ég verið sammála þótt áherslur mínar og talskonunnar um hverju brýnast er að breyta, gætu um sumt verið ólíkar.

Deila þarf byrðunum 

Dyflinnarsamkomulagið byggir á því að fjallað skuli um mál hvers umsækjanda um alþjóðlega vernd - sem veitt er fólki á flótta undan ofsóknum - á fyrsta viðkomstað innan þess svæðis sem samkomulagið tekur til. En þar sem fyrsti viðkomustaður flestra þeirra sem flýja undan stríðshörmungum við Miðjarðarhafið eru nú undir slíku álagi að þeir geta ekki sinnt hlutverki sínu sem skyldi, er tómt mál um að tala að gera fólkið afturreka. Þess vegna hefur Evrópa verið að takast á við það hvernig deila megi byrðunum með skipulegum og markvissum hætti. Þrátt fyrir þessa viðleitni gagnrýnir sunnanverð Evrópa norðrið harðlega fyrir að loka um of að sér og axla ekki ábyrgð sem skyldi. Á síðasta þingi Evrópuráðsins í Strasbourg sem ég sat fyrir Íslands hönd ásamt tveimur öðrum þingmönnum, var mjög eindregið tekið undir þessa gagnrýni. Hana verður að taka alvarlega og verðum við einnig að taka hana til okkar.
Íslendingar hafa reynt að taka þátt í  sameiginlegu átaki Evrópuþjóða, sem kunnugt er, með móttöku fólks og fjárframlögum og hefur ríkt bærileg samstaða um það framtak.

Þagað ef NATÓ er annars vegar

Íslendingar hafa hins vegar ekki, frekar en aðrar NATÓ þjóðir vogað sér að gagnrýna samstarfsþjóðir sínar, sem með gjörðum sínum hafa átt þátt í að skapa flóttamannastrauminn til Evrópu, nú síðast Tyrki, sem með skefjalausu ofbeldi gegn Kúrdum í suðausturhluta Tyrklands hafa hrakið um hálfa milljón manna á vergang. Ef ofbeldinu linnir ekki, verða þetta flóttamenn morgundagsins í Evrópu. Þar eru nú um tvær milljónir Kúrda fyrir, fórnarlömb ofbeldis í heimahögunum frá fyrri tíð. Um þetta er þagað þunnu hljóði á Íslandi sem víðast hvar í Evrópu.

Hefnigirni og undirgefni

Ekki hverfa mér úr minni heldur viðbrögð þeirra Obamas, Bandaríkjaforseta og Hollandes, Frakklandsforseta, eftir tilræðin í París þar sem þeir kölluðu á hefnd. Því ákalli var fylgt eftir í verki með því að strádrepa fólk, meðal annars óbreytta borgara í Sýrlandi og nutu árásarherirnir þegar hér var komið sögu, stuðnings Pútíns Rússlandsforseta. Dró hann hvergi af sér með sprengjuregni.
Fyrstu viðbrögð við vandanum ættu að sjálfsögðu í þessu efni sem öðru að vera í anda hins fornkveðna, að á skuli að ósi stemma. En forvarnarviðbrögð eiga ekki upp á pallborðið og því miður má ætla að framhald verði á þögulli undirgefni Íslands og annarra Evrópuríkja  gagnvart ofbeldi sem framið er með beinu eða óbeinu samþykki NATÓ.

Á eigin vegum eða samfélagsins?

Spurningin stendur: Ætlum við að veita öllum hælisleitendum sem hingað koma landvist, óháð því hvort þeir njóta réttar til alþjóðlegrar verndar eða ekki og óháð því hvort mál þeirra eru þegar til efnislegrar umfjöllunar í öðru samstarfsríki á þessu sviði?  Ætlum við að gera það með því að bjóða þeim frá fyrsta degi að freista gæfunnar hér á eigin vegum; leita  sjálfir fyrir sér um atvinnu og húsnæði? Eða er meiningin að sjá þeim fyrir húsnæði og menntun sem tekur mið af þörfum þeirra? Ég minnist þess að heyra viðhorf sænskra frjálshyggjumanna fyrir nokkrum árum um þetta. Þeir sögðu að Svíþjóð ætti að vera öllum opin. Drífa þyrfti í því að einkavæða alla velferðarþjónustu og síðan ætti að selja að henni aðgang. Vogum vinnur vogum tapar.
Þessi síðari kostur ætti ekki að verða okkar val. Við þurfum að taka þannig á móti fólki að því líði vel hér og að mannréttindi þess séu virt, annars sogumst við inn í vítahring óhamingju og illinda, sem við sjáum nú verða til víða um lönd, og er það veruleiki sem verður að taka alvarlega. 

Ísland án landamæra?

Þegar ég gegndi embætti innanríkisráðherra þótti mér þetta eitt erfiðasta verkefnið sem við var að glíma. Ákvarðanir um veitingu alþjóðlegrar verndar og um dvalarleyfi og ríkisborgararétt hafa oftar en ekki úrslitaáhrif á líf fólks. Og mér var mikið í mun að breyta rétt og að reyna að skapa regulverk sem byggði á réttlæti og mannúð.
Ég varð hins vegar var við mikinn flótta  frá umræðunni. Þingmenn sem tekið höfðu þátt í að skapa framkvæmdavaldinu lagarammann og leggja því línurnar áttu það til að móralísera gegn því sem þeir sjálfir höfðu samþykkt, líkt og það væri þeim með öllu óviðkomandi.
Aðild okkar að Dyflinnarsamkomulaginu er á ábyrgð Alþingis. Því er ætlað að koma í veg fyrir að málefni sama einstaklings séu til umfjöllunar á mörgum stöðum samtímis og teppi þannig og tefji vinnslu annarra hælisleitenda. Þá má ekki missa sjónar á því að  í flóttamannabúðum sitja þau eftir sem ekki hafa burði til að leggja land undir fót af eigin rammleik, einstæðar konur með börn, fatlað fólk og veikburða.

Taka þarf mið af breyttum aðstæðum

Ísland var eitt fyrsta ríkið til að hlíta ábendingum Mannréttindadómstóls Evrópu að senda fólk ekki til baka til landa á grundvelli Dyflinnarsamkomulagsins þar sem aðstæður væru óviðunandi, svo sem snemma átti við um Grikkland. Endursendingar þurfa að vera í stanslausri skoðun til að slíkt hendi ekki.
Þá hljótum við einnig að marka okkur stefnu varðandi einstaka hópa, svo sem samkynhneigt fólk sem ekki aðeins þarf að glíma við fordóma í því landi sem það flúði frá, heldur einnig viða í aðildarríkjum Dyflinnarsamkomulagsins. Hinu má svo ekki horfa framhjá hve mjög þeim hefur fjölgað sem hér hafa hlotið alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum en þessa fjölgun má rekja beint til mikilvægra lagabreytinga sem voru gerðar á síðasta kjörtímabili.

Næstu skref

Ný útlendingalög eru að mörgu leyti framfaraspor og hefði betur verið samþykkt frumvarpið sem lá fyrir vorið 2013. Þar voru þegar komin drögin að núverandi lögum eftir gríðarlega undirbúningsvinnu. Áhersla var þar lögð á að bæta réttarstöðu fólks sem sækir um alþjóðlega vernd og þar á meðal var lögð sú skylda á herðar stjórnvalda að afgreiða mál innan mannúðlegra tímamarka, eða ella fengi viðkomandi dvalarleyfi óháð rétti til alþjóðlegrar verndar.
Það sem hins vegar ekki var leyst og er enn ekki gert með nýsamþykktum lögum eru ákvæði um að samtvinna búseturétt og atvinnurétt, en það snýr að hinni stóru mynd um hverjir mega setjast að á Íslandi og hvaða réttinda þeir njóta. Þar náðist einfaldlega ekki samkomulag milli innanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins - illu heilli.
Þetta þarf nú að komast á vinnsluborðið.
En ein ósk að lokum: Flýjum ekki þessa umræðu. Hún þarf að verða málefnaleg og opin. Og öllum ber að forðast að gera öðrum upp illar hvatir.