Fara í efni

ENDALOK OLÍU

Engin gæði jarðarinnar eru óendanleg. Það á við um olíu eins og annað. Samkvæmt lógískri hugsun kemur því að því einn góðan veðurdag að olían blessuð, sem dælt er dag og nótt úr borholum víðsvegar í heiminum, verður til þurrðar gengin.

Þegar maður hefur gert sér grein fyrir þessu verður auðveldara að skilja hugtakið “Peak Oil”. Þetta hugtak á rætur í kenningu sem tvímælalaust er rétt að gefa gaum að, ætli menn ekki að fljóta sofandi að feigðarósi.

Samkvæmt þessari kenningu fer olíuframleiðslan eftir bjöllulaga línu. Á meðan framleiðslulínan stefnir upp á við hættir mönnum til að ætla að endalaust magn sé af þessu svarta gulli. Við slíkar aðstæður súpa iðnaðarríki heimsins í sig olíuna sem þau frekast geta og af óendanlegri áfergju. En sem áður segir kemur sá tími að olían verður búin og það sem verra er, ekki þarf hún að klárast til að partýið verði súrt.

Ef reiknað er með því að helmingur olíunnar verði eftir – ónýttur - þegar hámarksframleiðslu er náð myndi maður halda að þetta yrði vandamál seinni kynslóða. En svo “heppin” erum við ekki. Þegar “Peak Oil” er náð mun olíuframleiðsla minnka en eftirspurn hins vegar verða meiri.

Þetta þýðir að í heiminum á morgun þurfum við meiri olíu en í dag til að láta allt ganga upp. En vandinn er sá að öfug þróun á sér stað í olíuframleiðslunni: Því meiri eftirspurn sem verður eftir olíu og því meir sem heimurinn verður háðari henni, þeim mun minni verður framleiðslugetan!

Ég mæli með að allir kynni sér málið til hlítar og dragi sínar eigin ályktanir.

 http://lifeaftertheoilcrash.net/

http://www.peakoil.net/

http://www.peakoilaction.org/

http://members.home.nl/peakoil/