Fara í efni

Á MORGUN KEMUR NÝR DAGUR

Morgunblaðið sagði frá því um daginn að launamunur hafi aldrei verið meiri. Sama dag birti Fréttablaðið frétt um að bankarnir hefðu grætt 41 milljarð á síðasta ári. Samþjöppun fyrirtækja eykst dag frá degi og fjármálafáveldið herðir tökin á sama tíma og stórir hópar íslenskrar alþýðu lifir við fátækramörk. Út í hinum stóra heimi deyr fólk úr hungri í tugþúsundatali og fólki er slátrað af  miskunarlausum stríðsherrum. Óréttlætið er óbærilegt.

Hér á árum áður vorum við ekki hrædd við að halda á lofti kenningum sósíalismanns um jafnréttti til handa öllum, konum jafnt sem körlum. Við börðumst gegn kapítalismanum og grundvelli hans: einkaeignaréttinum. Í ræðu og riti var ráðist gegn takmarkalausri græðgi auðherranna og fyrir rétti alþýðunnar til að ráða samfélaginu. En nú er öldin önnur. Spillingin náði yfirtökum í alþýðulýðveldunum og draumur alþýðunnar varð að martröð í fasískum einræðisríkjum.

Skyndilega varð sósíalisminn gamaldags og úreltur, kenningar sem 19. aldar spekingar settu fram voru taldar úreltar. Menn hættu að syngja Internationalinn og skömmuðust sín fyrir sósíalísku arfleifðina.  En hvað er úrelt og á hvaða grunni standia íslenskir vinstrimenn í dag? Er það virkilega þannig að við höfum gefið upp vonina um réttlátt samfélag þar sem auðnum er jafnt skipt, styrjaldir tíðkast ekki og fátækt, hungursneið og fjöldamorð heyra sögunni til? Hver er okkar framtiðarsýn?

Er það kannski þannig að sökum innbyggðar græðgi sé mannfólkinu ekki treystandi fyrir farsælli framtíð? Hljóta alltaf að koma fram á sjónarsviðið einstaklingar sem að sínu leyti skara fram úr en fara síðan að skara eld að eigin köku og breyta samfélaginu fyrir sig og sína? Auðvitað er alltaf misjafn sauður í mörgu fé en maðurinn er í eðli sínu félagsvera. Það eru hagsmunir fjöldans að koma á réttlæti vegna þess að auður og völd safnast sífellt á færri og færri hendur.

Það verður vonandi verkefni nýrrar vinstrihreyfingar að finna leiðir til að koma á sanngjörnu samfélagi. Við þurfum að horfa til fortíðar á gagnrýninn en sangjarnan hátt án þess að nota gleraugu auðherranna og snata þeirra. Við þurfum að forðast deilur um keisarans skegg en reyna að draga almenna lærdóma sem nýst geta til framtíðar. Við þurfum að vera óhrædd við að skapa framtíðarsýn sem byggir á  lýðræðislegu samfélagi alþýðunnar. Börn okkar og barnabörn eiga heimtingu á því að erfa réttlátt þjóðfélag.

Þorleifur Gunnlaugsson