FRÉTTASKÝRINGAR ÚR FORSÆTISRÁÐUNEYTI
Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður hæstvirts forsætisráðherra, reynir nú á heimasíðu sinni að klóra í bakkann, molnaðan bakkann á sínu eigin rjúkandi rofabarði, eftir að hafa orðið uppvís að því að hafa ráðist með afar ósmekklegum hætti að stjórnarmönnum BSRB og formanni samtakanna, Ögmundi Jónassyni. 30. apríl síðastliðinn gaf Björn Ingi sterklega í skyn að stjórnarmenn BSRB væru eins og auðsveipir þjónar þingflokks Vinstri grænna sem færu í einu og öllu eftir fyrirmælum Ögmundar Jónassonar. Næsta verkefni aðstoðarmannsins var að reyna að rakka niður ávarp formanns BSRB sem hann flutti á baráttudegi verkalýðsins í Reykjavík, á 1. maí. Tókst þá ekki betur til en svo hjá Birni Inga að hann gerði í þessari misheppnuðu tilraun sinni fyrst og fremst lítið úr þeim fjölda fólks sem sýndi samstöðu og samtakamátt sinn á þessum degi. Hann sagði gönguna og útifundinn hafa verið “sorglega” fámennan og kenndi auðvitað formanni BSRB um allt saman enda væri hann lélegt “skemmtiatriði” sem fældi fólk frá þátttöku. Ekki var þó aðstoðarmaðurinn upplýstari en svo um atburði dagsins að hann vissi ekki einu sinni hvar útifundurinn var haldinn - fór í þeim efnum, eins og í svo mörgu öðru, með staðlausa stafi.
Ósannindin afhjúpuð
Árni Guðmundsson formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar,
Aðstoðarmaðurinn lýsir sjálfum sér
Í nýjasta framlagi Björns Inga sækir hann, að eigin sögn að minnsta kosti, í smiðju Ólafs heitins Jóhannessonar, fyrrum forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, til að lýsa stjórnmálamanni eins og Ögmundi Jónassyni. Kannski er Björn Ingi ekki eins orðheppinn og hann er seinheppinn; ef til vill þess vegna leitar hann í smiðju annarra, ef til vill líka vegna þess að hann treystir sér ekki til að smíða sinn palladóm sjálfur. Allt um það, með palladóminum er vitanlega ætlunin að koma enn höggi á formann BSRB. Er ekki að sökum að spyrja að í meginlýsingunni, sem Björn Ingi hefur að eigin sögn fengið að láni hjá Ólafi, hittir hann fyrst og fremst sjálfan sig fyrir. Gefum aðstoðarmanni Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra orðið og skoðum kjarnabútinn litla sem hann eignar Ólafi heitnum Jóhannessyni:
“En þegar einhver dirfist að gagnrýna Ögmund? Þá er bara vælt og skælt, snúið út úr og borið sig illa. Sér er nú hver hetjuskapurinn.
Sá merki maður, Ólafur Jóhannesson, ... lýsti þessari tegund stjórnmálamanna öðrum betur.
Ólafur sagði: Þeir gelta hátt og gelta mikið, en ef maður hækkar róminn og svarar þeim, þá leggja þeir niður skottið og skoppa ýlfrandi á braut.”
Vart þarf að taka fram að þessi lýsing, sem er sosum ekki upp á marga fiskana og alls ekki dæmigerð fyrir orðheppni Ólafs Jóhannessonar eða framlag hans til íslenskra stjórnmála, passar Ögmundi Jónassyni engan veginn. Hann og aðrir sem hafa fjallað um dæmalausan málflutning aðstoðarmannsins um starfsemi BSRB hafa ekki annað sér til saka unnið en að sýna fram á með gildum rökum að Björn Ingi fer með staðlausa stafi, hann hefur gelt hátt og gelt mikið að tilefnislausu. Lýsingin að ofan er því að hluta til eins og klæðskerasniðin á aðstoðarmanninn sjálfan. Hitt hlýtur svo að verða öllum umhugsunarefni á hvaða plani umræðan er í nánasta ráðgjafahópi forsætisráðherra Íslands.