ÞORSTEINI ÞAKKAÐAR ...
Á skírdag sótti ég áhugaverða kvikmyndasýningu í Félagsgarði í Kjós. Til sýningar var heimildarmynd Þorsteins Jónssonar, kvikmyndagerðarmanns um lífið í Kjósinni; lífið og tilveruna í öllum sínum víddum. Nákvæmar sagt, þá var sögusviðið Reynivallasókn og miðpunkturinn, presturinn þar , séra Gunnar Kristjánsson. Þarna var ekkert leikið eða sviðsett enda markmið listamannsins að hafa allt ekta.
Þorsteini Jónssyni tókst það ætlunarverk sitt með miklum ágætum. Samspil manns og náttúru, vangaveltur hins trúaða og trúlausa. Allt var á sínum stað þar sem hver söng með sínu nefi en útkoman engu að síður merkilega samstæð þegar upp var gert. Frábær myndataka, listilega vel gerðar klippingar, allt skilaði þetta sér inn í vitundina sem heildstæður veruleiki. Kannski var hinn trúlausi trúaðastur af öllum - á sinn hátt. Ekki var ég frá því.
Á eftir sýningunni fór fram umræða á milli höfundar myndarinnar og áhorfenda og undir lokin á henni var presturinn einnig mættur til leiks, nýlokinn við prestverk dagsins.
Einhverjir þeirra sem fram komu í myndinni voru á meðal áhorfenda og tóku þátt í umræðunni sem var áhugaverð enda viðfangsefnið innan seilingar og eðlilegt framhald á því sem myndin hafði fært okkur. Minnti mig örlítið á reynslu frá Vedersö á Jótlandi þegar ég var fréttamaður Ríkisútvarpsins á Norðurlöndum á síðari hluta níunda áratugar síðustu aldar. Þá gerði ég sjónvarpsþátt um leikverk Guðrúnar Ásmundsdóttur um Kaj Munk, prestinn og rithöfundinn, sem hernámslið Þjóðverja myrti undir lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Leikritið var sýnt í sóknarkirkju Kaj Munks og sat ekkja hans á fremsta bekk.
Arnar Jónsson fór frábærlega vel með aðalhultverkið og sama á við um aðra leikendur. Verkið var á íslensku en áhorfendur dönskumælandi, fullorðið fólk í Vedersö, söfnuður Kaj Munks. Ég hafði á tilfinningunni að fólkið skyldi allt sem sagt var. Enda verið að fjalla um líf þess og atburði sem það þekkti í þaula. Áhorfendurnir voru með öðrum orðum gerendurnir sjálfir í leikritinu.
Þennan pistil skrifa ég til að þakka Þorsteini Jónssyni fyrir Liljur vallarins, frábæra mynd, skemmtilega og ljúfa; mynd sem þegar fram líða stundir á án efa á eftir að verða merk heimild um mannlífið í íslenskri kirkjusókn í byrjun 21. aldar.
Sjá slóð: http://kvikmyndir.is/mynd/?id=6531&tab=trailerar&tab=1&fid=114970