Fara í efni

ÞORSTEINSÞING KOMIÐ Á PRENT – OG EKRUR STEFÁNS Í SJÓNMÁLI

Laugardaginn 17. september árið 2022 var haldið svonefnt Þorsteinsþing í hátíðarsal Háskóla Íslands. Það var arfleifð Þorsteins frá Hamri sem var þar til umfjöllunar. Viku síðar birti ég pistil í helgarblaði Morgunblaðsins um þennan viðburð. Þar sagði á meðal annars:

“Tíu fræðimenn og skáld og flestir hvort tveggja, lögðu sitt til málanna um arfleifð skáldsins. Og Silja Aðalsteinsdóttir, sem bæði er fræðimaður og skáld, las úr verkum Þorsteins. Þannig byrjaði reyndar dagskráin, allir keyrðir rakleiðis upp í efstu andans hæðir. Silja sýndi að þetta kynni hún flestum öðrum betur. Og þegar Anton Helgi Jónsson ljóðskáld rak endahnútinn á daginn um fimmleytið með sannkölluðu snilldarerindi, blöndu af sagnfræði, heimspeki og ljóðrænu, allt listilega samofið, þá hefði ég bara viljað meira, endurnærður eftir inngjöfina undangengna sjö klukkutíma. Og nú bíð ég eftir því að út komi bókin með öllum erindum dagsins og fleirum til. Það stendur til að gera og er það tilhlökkunarefni, svo mikið get ég sagt.”

Út er komin bók

Og nú er bókin komin út og er heiti hennar Fararefni – þing um Þorstein frá Hamri.
Bókinni ritstýrir Ástráður Eysteinsson, prófessor, en það var einmitt hann ásamt Guðrúnu Nordal, forstöðumanni Stofnunar Árna Magnússonar, sem staðið höfðu í stafni við undirbúning málþingsins haustið 2022.

Þessum pistli mínum um þessa nýútkomnu bók er ekki ætlað að vera annað en örlítil þakkargjörð tileinkuð þeim sem á málþinginu og nú í þessari bók færa okkur vangaveltur sínar, innsæi og skilning á skáldinu frá Hamri. Og ég vil bæta við, glæða með okkur áhuga á því að halda áfram inn á þær lendur sem þau vísa okkur. Nú langar mig nefnilega í fleiri ljóð og reyndar einnig Þorstein í óbundnu máli, þar er búið að kveikja áhuga minn umfram það sem áður var og hafði ég þó lengi horft til Þorsteins frá Hamri.

List hins ósagða

Í Fararefni er margt vel sagt um Þorstein og skáldskap hans. Ég held að það sé rétt sem Kristján Þórður Hrafnsson, skrifar:
“Þorsteinn hefur einstakt vald á því að gæða ljóð sín áhrifamætti með því að segja hlutina aðeins til hálfs, ýja að, gefa í skyn, frekar en að útmála ítarlega. Þar að auki bætist við sá háttur hans að vísa í ljóðum sínum til eldri bókmennta ag fleygra setninga úr menningarsögu þjóðarinnar. Þær vísanir eru sjaldnast skýrðar í ljóðunum sjálfum en þó stundum í athugasemdum aftast í bókunum. Listfengi Þorsteins  felst oft í því að segja svo lítið eða fátt en um leið svo margt og svo mikið … Þessi ljóð búa yfir einhverju dularfullu seiðmgni. Mann langar strax að lesa þau aftur, raða saman brotunum, reyna að ráða gátuna. Vitaskuld eru ljóð að einhverju leyti list hins hálfsagða en það á alveg sérstaklega við um mörg ljóð Þorsteins.”

Ögrandi gátur og heimspeki

Þarna svarar Kristján Þórður mér án þess þó að vera spurður. Mín tilfinning var nefnilega sú eftir lestur bókarinnar, Fararefni, að höfundar væru að gera allt í senn, að ráða ögrandi gátur um það sem ósagt var, leggja út af heimspeki og reyna að skilgreina í hverju stílfimi skáldsins væri fólgin, hvers vegna við hrífumst af Þorsteini frá Hamri.

Stefán Snævarr og Poetic of Reason

Til fróðleiks vil ég nefna að í þann mund sem ég lauk lestri bókarinnar Fararefni, rak á fjörur mínar skemmtilega umsögn um bók Stefáns Valdemars Snævarr, prófessors í Noregi. Bókin nefnist The Poetic of Reason. Introducing Rational Poetic Experimentalism. Í umsögninni sem birtist í norska vikublaðinu Ny Tid er farið mjög lofsamlegum orðum um Stefán og bók hans. Í þessari umsögn fann ég þráð sem mætti spinna áfram frá Fararefni að því leyti að viðfangsefni skáldsins og heimspekingsins eru um margt skyld.

Umsögnin í Ny tid um bók Stefáns hefst á þessum orðum:

“Likhetene mellom diktning og filosofi er mange, og særlig viktig er at begge opererer med mulige verdener og får os til å se menneskelivet og tilværelsen på en ny måte. Muligheten har existensiell betydning …”

Hér er slóðin á þessa áhugaverðu umsögn: https://www.nytid.no/om-forholdet-mellom-diktning-og-filosofi/

Ekrur spekinnar

En ekki er þörf á að leita út fyrir landsteinana vilji menn kynna sér „póetíska skynsemis- og tilraunaspeki“ Stefáns Snævarr því í fyrra kom út á íslensku bók með skyldu umfjöllunarefni eftir hann, Á ekrum spekinnar. Hann segir einhvers staðar að sannleikurinn hafi reynst heimspekingum slyppifengt hnoss og í stað þess að reyna að finna stórasannleikann geti verið allt eins fýsilegt að gera tilraunir með hugmyndir. Sú hugsun er meginþemað í þeim bókum hans sem hér eru nefndar. Ein slík tilraun með hugmyndir, segir Stefán, geti falist í því að sýna fram á að gerlegt sé að brjóta niður veggina sem margir halda að skilji að skáldskap og heimspeki.
Og er ég þá aftur kominn hringinn og að þeirri inspirasjón sem Þorsteinn frá Hamri var mér og þeir sem um hann skrifuðu í Fararefni.
Nú er verkefnið að ná í þessa bók og halda út á ekrur spekinnar í leiðsögn Stefáns Valdemars Snævarr. Ég hlakka til.

Endurteknar þakkir

Ég endurtek þakkir mínar til skáldanna og fræðimannanna sem skrifuðu í bókina Fararefni, okkur til skemmtunar og til að lyfta andanum.

Hér er svo slóð á fyrrnefndan pistil minn um Þorsteinsþing haustið 2022: https://www.ogmundur.is/is/greinar/tofrasproti-thorsteins

------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.