ÞORVALDUR GYLFASON ÞAKKAR FYRIR SIG
Þorvaldur Gylfason, prófessor, sendir mér tóninn í skrifum á vefmiðli DV. Ég á að hafa óvirt Evu Joly í kveðjuhófi, sem hún hélt eftir vel unnin störf hér á landi.
Látum Þorvald sjálfan segja söguna: „ Þegar rannsóknardómarinn Eva Joly hafði komið fótunum undir embætti sérstaks saksóknara, bauð hún til stuttrar móttöku í Norræna húsinu til að þakka fyrir sig. Hún hélt stutta ræðu, þar sem hún þakkaði Íslendingum fyrir sig. Enginn fulltrúi stjórnvalda steig fram til að þakka henni fyrir framlag hennar, ekki heldur dómsmálaráðherrann, sem stóð við hliðina á okkur Ragnari Aðalsteinssyni hrl; ráðherrann laumaðist út án þess að segja orð."
Þar sem ég var þessi dómsmálaráðherra sem á að hafa komið svona fram þá langar mig til að upplýsa að Evu Joly hef ég margoft hitt að máli og margoft þakkað henni fyrir vel unnin störf. Þetta hef ég gert innan veggja ráðuneytis og við margvísleg tilefni. Þegar Eva Joly efndi til kveðjuhófsins sem Þorvaldur vísar til, hafði ég boðið að dómsmálaráðuneytið stæði fyrir móttökunni og færði ég það í tal við samstarfsmann Evu Joly hér á landi, Jón Þórisson. Niðurstaða hans varð hins vegar sú að ríkið kæmi ekki að þessari móttöku enda yrði alfarið boðið einstaklingum sem Eva Joly hafði átt samskipti við og að athöfnin yrði algerlega á hennar forsendum. Það var hún sem væri að þakka fyrir sig. Henni var hins vegar þakkað við önnur tækkifæri. Þess vegna var ekki um að ræða ávarp af hálfu ráðherra við athöfnina og enginn að laumast út.
Samskiptum hef ég haldið við Evu Joly og er henni fullkunnugt um hvernig ég hef metið hennar mikla framlag. Í fjölmiðlum hefur það og margoft komið fram.
Vill láta þakka Alþjóðagjaldeyrissjóðnum
Víkur þá að síðari hluta þakkargerðartals Þorvaldar Gylfasonar en það lýtur að Alþjóðagjaldeyrissjónum sem honum er greinilega sérstakelga umhugað um að verði þakkað fyrir að koma að málefnum Íslands. Í fyrrnefndum pistli segir Þorvaldur:
„Í gær bauð fulltrúi AGS á Íslandi, Franek Rozwadowski, til stuttrar móttöku í Iðnó, þar eð hlutverki AGS hér er nú lokið. Hann hélt stutta ræðu, þar sem hann þakkaði Íslendingum fyrir sig. Þar var enginn fulltrúi ríkisstjórnarinnar, enda sendir forsætisráðherrann sjóðnum nú langt nef. En þar var Árni Páll Árnason fv. efnahagsráðherra og hélt ágæta þakkarræðu, þar sem hann lýsti því, hvernig AGS og þá ekki sízt fulltrúi hans á Íslandi hefði blásið lamaðri ríkisstjórn kjark í brjóst eftir hrun: Okkur datt beinlínis í hug, að Ísland væri „failed state", sagði ráðherrann fyrrverandi, en AGS sýndi okkur, að svo er ekki. Vel mælt og drengilega."
Þarna get ég ekki tekið undir með Þorvaldi Gylfasyni.
Hann þekkir hins vegar AGS frá annarri hlið en ég, því sjálfur hefur hann margoft sinnt verkefnum fyrir tvíburasamsteypuna Alþjóðabankann/Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og tekið þátt í að flytja boðskap hennar. Ég hef verið mjög gagnrýnin á þann boðskap en víða um álfur hafa þessar stofnanir hvatt til einkavæðingar almannaþjónustu og þrýst á kerfisbreytingar sem oftar en ekki hafa verið í þágu fjármagns og gegn almannahag.
Bannaði skuldaniðurfærslu
Að tala um það sem sérstakan drengskap að færa AGS þakkir fyrir framlagið hér á landi veldur mér hálfgerðri klígju eftir að hafa verið í návígi við sjóðinn undanfarin ár. Er ég þá ekki að tala um þá einstaklinga sem hlut eiga að máli heldur boðskapinn, til dæmis um blátt bann við almennri skuldaniðurfærslu.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lét hafa sig í að taka þátt í aðförinni að Íslandi vegna Icesave og nú varar Þorvaldur Gylfason okkur við að reita sjóðinn til reiði því ef til vill kunnum við aftur að lenda í hans klóm. Þannig myndi Þorvaldur Gylfason að vísu aldrei komast að orði enda sjóðurinn í hans huga velgjörðaraðili sem eigi að sýna fyllstu kurteisi: „Hroki nýju ríkisstjórnarinnar gagnvart AGS er vandræðalegur í ljósi þess, að svo gæti farið, að ríkisstjórnin þyrfti að leita á náðir AGS aftur innan tíðar, þar eð landið býr við gjaldeyrisskort af mannavöldum og má ekki við miklum skakkaföllum."
Beðið um gott veður
Ef viðfangsefnið er að biðja um gott veður hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem ráðgjafa eða veitulum vinnuveitanda og jafnframt þakka fyrir sig, kann einhverjum að þykja rétt að leita í smiðju Þorvaldar Gylfasonar. Sjálfum þykir mér það ekki eftirsóknarverður kostur.
Grein Þorvaldar Gylfasonar: http://www.dv.is/blogg/thorvaldur-gylfason/2013/7/26/ad-thakka-fyrir-sig/