Fara í efni

ÞRJÁR SPURNINGAR TIL HEILBRIGÐISRÁÐHERRA

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 04.12.15.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, hefur greint frá áformum um frekari einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Þegar eru hafin viðskipti við Klínikina, fyrirtæki fjárfesta í heilbrigðisþjónustu og á döfinni er að bjóða út heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Á heilbrigðisráðherra er að skilja að markmiðið sé tvenns konar, annars vegar að koma heilsugæslunni í einkahendur og síðan innleiða kerfi þar sem peningar fylgi sjúklingi. Það var formúla Miltons Freedmans, höfuðklerks frjálshyggjunnar, í ráðgjöf hans við einkavæðingu mennta- og heilbrigðiskerfa. Hitt markmiðið er að samkeppni eigi sér stað á milli rekstraraðila heilsugæslunnar enda hljóta útboð að byggja á slíkri hugsun.
Heilbrigðisráðherra hefur sagt enga sérstaka þörf á því að ræða þessi mál á þingi en sjálfsagt sé þó að eiga orðastað við þingmenn „standi hugur þeirra til þess," eins og hann komst að orði í sjónvarpsfréttum eitthvert kvöldið.
Hugur minn stendur tvímælalaust til þess og langar mig til þess að beina þremur spurningum til ráðherrans og væri vel þegið að hann svaraði þeim á síðum þessa blaðs. Efast ég ekki um að honum yrði ljáð rými til þess.

Spurning númer eitt

Er ráðherra kunnugt um að samkvæmt ítrekuðum könnunum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands er yfirgnæfandi meirihluti landsmanna því fylgjandi að heilbrigðisþjónustan sé rekin af hálfu hins opinbera? Finnst honum réttlætanlegt að hafa vilja landsmanna að engu?
Í upplýsandi grein sem Rúnar Vilhjálmsson, prófessor, skrifar í Fréttablaðið 27. nóvember segir um eldri könnun á afstöðu landsmanna: „Í ljós kom að yfirgnæfandi meirihluti (81,1%) taldi að hið opinbera ætti fyrst og fremst að reka heilbrigðisþjónustuna. Í öllum hópum og undirhópum samfélagsins var meirihluti fyrir opinberum rekstri heilbrigðisþjónustunnar... Í nýrri landskönnun Félagsvísindastofnunar fyrr á þessu ári voru svarendur á ný spurðir nánar út í rekstur einstakra þátta heilbrigðisþjónustunnar. Þar kom í ljós að mestur stuðningur var við opinberan rekstur sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva, hjúkrunarheimila, lýðheilsustarfsemi og tannlækninga barna."

Spurning númer tvö

Þegar búið er að bjóða heilsugæsluna út, sér ráðherra þá fyrir sér frekari útboð síðar meir? Telur hann líkur á því að þeir rekstraraðilar sem nú kunna að fá reksturinn í hendur í gegnum útboð muni hugsanlega síðar missa hann á útboðsmarkaði ef önnur rekstrarteymi kæmu þá með hagstæðari tilboð; með öðrum orðum, að markaður myndist á milli lækninga- og rekstrarteyma heilsugæslustöðva? Eða gæti það verið að vegna samstöðu og samtryggingar innan geirans myndi slíkur markaður aldrei myndast á þennan hátt? Mér býður í grun að þegar reksturinn er kominn á einn stað þá sé hann kominn til að vera. Útboð sé þannig til málamynda nema hugsanlega í fyrsta útboði. Samkeppnin sem sóst er eftir hljóti því að vera á milli einstakra lækna annars vegar, sem menn sjái fyrir sér keppa um „kúnna" á grundvelli verðlags, og síðan hitt að heilbrigðisstofnanir komi til með að keppast  um að fá til sín sjúklinga samkvæmt fyrrnefndri formúlu Freedmans: Fjármagnið fylgi sjúklingi. Hinar dreifðustu byggðir landsins verða seint eftirsóknarverðar þeim sem ætla að fiska vel. Hverra verður að þjóna þeim?  Eins hefur sýnt sig erlendis frá að sum hverfi í þéttbýli hafa ekki reynst eftirsóknarverð af ýmsum ástæðum, einkum félagslegum. 
Ósk mín til ráðherrans númer tvö er að hann skýri nákvæmlega fyrir okkur hvað fyrir honum vakir í þessu efni.

Spurning númer þrjú

Í heilbrigðisþjónustunni er takamarkað fjármagn. Menn reyna að verja því þannig að sem mest fáist fyrir hverja krónu. Þetta kallar á samstarf og samhæfingu. Það sem gerist þegar markaðslögmálin eru virkjuð undir formerkjunum, fjármagn fylgi sjúklingi, er að veitendur þjónustunnar taka völdin og stýra því hvernig kerfið þróast. Þannig vill Klíníkin fá aðgang að vasa skattgreiðenda - því þaðan á að fjármagna allt sem hún gerir - eða þangað til farið verður að „heimila" sjúklingum að smyrja ofan á. Grunnhugsunin er hins vegar sú á þessu stigi að hið opinbera borgi allt. Það sem Klíníkinni dettur í hug að bjóða uppá skalt þú borga háttvirtur skattgreiðandi!
Þá mun það líka gerast, rætist draumar Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra, að heilbrigðisstofnanir líkt og einkaaðilar munu sækjast eftir því að fá „kúnna" sem gefa vel af sér, sjúklinga sem hægt er að lækna eða veita aðhlynningu eftir atvikum á auðveldan hátt og í „miklu magni".
Framkvæmd boðorða peningafrjálshyggjunnar innan heilbrigðisþjónustunnar, hefur vafist fyrir fjölmennari þjóðum en Íslendingum og hafa þær þjóðir sem þetta hafa reynt, fengið að kynnast því að veruleikinn er iðulega annar en kenningin og að þegar upp er staðið skilar þetta fyrirkomulag ómarkvissu og dýru kerfi. Vill heilbrigðisráðherra vera svo vænn að skýra sína sýn á þessa hlið málsins?

Ólygnust er reynslan

Ég botna þessi skrif með orðum Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors, um heilbrigðisþjónustu og skipulag hennar. Í áður ívitnaðri grein prófessorsins segir: „Á Íslandi hefur verið rekið félagslegt heilbrigðiskerfi allt frá síðari hluta 20. aldar. Um það hefur verið breið samstaða meðal almennings og stjórnmálamanna. Það felur í sér að hið opinbera fjármagni að langmestu leyti heilbrigðisþjónustuna, sjúklingar beri því ýmist lítinn eða engan beinan kostnað af þjónustunni, og að hið opinbera annist sjálft og stýri rekstri helstu rekstrareininga svo sem sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og mikilvægrar lýðheilsustarfsemi. Félagsleg heilbrigðiskerfi er einnig að finna annars staðar á Norðurlöndum og Bretlandseyjum. Vandaðar alþjóðlegar samanburðarrannsóknir sýna að þessi félagslegu heilbrigðiskerfi eru skilvirkari en önnur heilbrigðiskerfi heimsins, það er, þau skila almenningi betri lýðheilsu fyrir lægri heildar­kostnað en önnur kerfi."