ÞRÓUNARFÉLAG KEFLAVÍKURFLUGVALLAR – ÖLL SPIL Á BORÐIÐ!
Einkavinavæðing ríkisbankanna varð ekki almennt á vitorði manna fyrr en nokkru eftir að gjafasalan hafði fengið staðfestingu. Því miður vaknaði almenningur ekki fyrr en allt of seint. Það var helst þegar menn áttuðu sig á því að skyndilega voru einkavinirnir góðu komnir með ómetanleg menningarverk í hendur – allan Kjarvalinn og önnur meistaraverk myndlistarinnar sem ríkisbankarnir höfðu varðveitt. Nú gátu þeir Björgólfur, Finnur og Ólafur Ólafsson boðið landsmönnum á myndlistarsýningar. Ekki bara upp á háa vexti. Sölumenn ríkissjóðs höfðu gleymt að skoða þetta. Þegar hins vegar vakin var athygli á þessari yfirsjón þeirra fóru ýmsir að velta því fyrir sér hvort kynni að vera að eitthvað annað hefði gleymst að skoða þegar almeninngur var sviptur þessum eignum sínum.
Sama var um söluna á SR- Mjöl á tíunda áratugnum að segja. Það var ekki fyrr en nýju eigendurnir fóru að háfa inn arðinn að almenningur vaknaði. En þá var það of seint.
Áfram má telja dæmin um andvaraleysi í þjóðfélaginu gagnvart spillingarmálum sem upp hafa komið. Tökum Hitaveitu Suðurnesja. Það glapræði síðustu ríkisstjórnar að hefja einkavæðingu HS með sölu á hlut ríkisins varð ekki lýðum ljóst fyrr en upp dúkkaði fjármálahneykslið, sem af þessum tilfæringum hlaust, það er samruni Geysis Green og Reykjavík Invest. Stórfelld fjármálaspilling kom þá upp á yfirborðið fyrir atbeina Svandísar Svavarsdóttur og félaga í Reykjavík. Unnið er nú að því skipulega og markvisst að vinda ofan af því spillingarmáli.
Hvað kenna þessi dæmi – sem eru reyndar miklu fleiri frá síðustu árum? Þau kenna að andvaraleysi er varasamt.
Hvað með Keflavíkurflugvöll? Ég hef hlustað af athygli á málflutning Atla Gíslasonar alþingismanns um það mál. Atli hefur leitt að því líkur að farið hafi verið á svig við lögin við ráðstöfun almannaeigna, þ.e. í tengslum við sölu á húsnæði á Keflavíkurflugvelli. Þetta hefur komið fram í hans máli í tvígang á Alþingi á undanförnum dögum. Hvers vegna þegja flestir fjölmiðlarnir í þessu máli og flytja nánast einvörðungu friðþægingarfréttir af því? Hvers vegna er DV nánast einn fjölmiðla – Stöð tvö að nokkru leyti einnig - sem virðist standa vaktina í þessu máli?
Upplýst er nú að Þróunarfélagið hafi þverbrotið þennan samning. Eignir hafi verið seldar án útboðs til manna sem nátengdir séu Sjálfstæðisflokknum og meirihluta bæjarstjórnar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ. Þar hafi gerendur setið báðum megin við borðið og selt eignir langt undir markaðsverði svo milljörðum skiptir. Seldar hafa verið 1700 íbúðir fyrir 14 milljarða á meðan markaðsverð þeirra miðað við fermetraverð íbúða í Reykjanesbæ er sagt vera 29 og hálfur milljarður!
Stjórn Þróunarfélagsins hefur ekki orðið við margítrekuðum tilmælum um að afhenda Atla Gíslasyni, alþingismanni, umbeðin gögn og gera þannig hreint fyrir sínum dyrum.
Ljóst er að langt er í frá, að öll kurl séu komin til grafar í þessu máli og full ástæða fyrir fjölmiðla að gefa því meiri gaum. Vonandi gerist það þegar þeir hafa lokið sér af í umræðunni um bleikt og blátt.