Fara í efni

ÞRÓUNARSTOFNUN ÍSLANDS OG MÓTMÆLIN GEGN MISRÉTTI Í HEIMINUM

Það er mikil gæfa að Sighvatur Björgvinsson skuli ekki vera varðstjóri í lögreglunni í Edinborg. Hún glímir nú við tugþúsundir fólks sem þar er saman komið til að vekja athygli á fátækt og misrétti í heiminum í tilefni fundar forsvarsmanna voldugustu hervelda heimsins. Í útvarpsviðtali gaf Sighvatur - sem nú gegnir stöðu framkvæmdastjóra Þróunarstofnunar Íslands – lítið fyrir þessi mótmæli. hann ætti ekki von á því að slíkt skilaði "miklu fyrir fátækt fólk í Afríku, enda held ég að þessir ribbaldar með sýniþörf séu nú að hugsa um annað en fátæka fólkið í Afríku. Hins vegar er það fundur ráðamanna ríkjanna G-8, sem ég vona nú að geti haldið sinn fund þrátt fyrir að ribbaldar með sýniþörf  vilji spilla fundinum."
Fréttamaður benti nú á að kannski væru nú ekki allir mótmælendur þarna ribbaldar með sýniþörf.
Sighvatur kvaðst vera "að tala um þá, sem að halda það að það sé aðstoð við fátæka Afríkumenn að lemja lögreglu í Skotlandi, það er það auðvitað ekki."

Síðan var fjallað um niðurfellingu skulda. Hún væri góð svo langt sem hún næði. Skuldirnar skrifaði Sighvatur almennt á stjórnarfarið: "Ef að niðurfelling skulda leiðir bara til þess að menn halda áfram sama stjórnarfarinu eins og leitt hefur til þeirrar niðurstöðu sem við höfum horft á hjá mörgum Afríkuríkjum og byrja bara að safna skuldum aftur eins og þau gerðu fyrir 20 árum síðan, þá er niðurfelling skulda auðvitað afskaplega takmarkað úrræði. Þannig að það er það sem ég vonast til að komi út úr þessum fundi, þ.e. að menn geri áttak í að létta skuldabyrði af þeim ríkjum sem eru á framfarabraut og hins vegar að menn komi sér saman um að ríku ríkin aflétti viðskiptatakmörkunum og auki skipulagða þróunaraðstoð”

Þá er stóra spurningin: Hvað þýðir það að vera á framfarabraut? Þar sýnist sitt hverjum. En um þetta snúast mótmæli "ribbaldanna" sem framkvæmdastjóri Þróunarstofnunar Íslands kallar svo. Eftir því sem ég fæ best skilið er verið að mótmæla þeim skilyrðum sem alþjóðaauðvaldið setur ríkjum heims til þess að fá lánsfé og einnig fyrir niðurfellingu skulda sinna. Þessum þjóðum er iðulega gert að markaðsvæða dýrmætar þjóðareignir og einkavæða grunnþjónustu landanna og þar með afhenda fjölþjóðlegum auðhringum eignir sínar.

Fulltrúar 8 auðugustu ríkja heimsins sitja nú á rökstólum í Skotlandi að ræða skilyrði af þessu tagi.
Hitt er svo annað mál að í Afríku og víðar í þróunarríkjunum hafa margar þjóðir búið við mikla spillingu og ógnarstjórnarfar. Einræðisherrar hafa sölsað undir sig miklar eignir og oft einnig lánveitingar og stuðning sem borist hefur erlendis frá. Þetta hefur hins vegar verið látið gott heita ef um hefur verið að ræða einræðisherra sem þjónað hafa auðvaldinu í heiminum. Mobutu Sese Seko í Zair er ágætt dæmi um þetta. Harðstjóri heima fyrir en auðsveipur þjónn helstu valdamanna heimsins. Sá maður var óumdeilanlega ribbaldi en þóknanlegur auðvaldinu.

En á meðal annarra orða, ef fólkið á götum Edinborgar eru ribbaldar með sýniþörf, hvað vill Sighvatur Björgvinsson þá kalla hönnuði  innrásarinnar í Írak og helstu vaktmenn kapítalismans í heiminum, sem nú ráða ráðum sínum í borginni varðir af fjölmennasta lögregluliði sem saman hefur komið í Skotlandi fyrr og síðar?

Ég skal játa að ég varð undrandi að heyra þessi viðhorf innan úr Þróunarstofnun Íslands. Ég varpaði þá öndinn léttar við þá tilhugsun að Sighvatur Björgvinsson er alla vega ekki á bak við óeirðaskjöld og með kylfu í hendi á götum Edinborgar þessa dagana.