ÞÚ MUNT HAFA MIKIÐ Á SAMVISKUNNI
Á visir.is er haft eftir þér að í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra hafi ræða formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fallið þér best í geð. Út af fyrir sig finnst mér sá þingmaður með þeim ógeðfelldari sem sest hafa á Alþingi í seinni tíð. Í þessari ræðu hélt hann því fram að fréttastofa RÚV hafi verið að "vinna fyrir nefskattinum" með því að flytja fréttir af stöðu ríkisstjórnarinnar og Icesave-málinu sem honum hugnuðust ekki. Slíkar dylgjur og árásir valdamanna á fyrrverandi kollega þína voru daglegt brauð á tímum stjórnar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, svo þegar af þeirri ástæðu kemur þessi velþóknun þín mér á óvart. Í viðtölum upp á síðkastið segistu vilja að Icesave-málið verði rætt að nýju af stjórn og stjórnarandstöðu til að knýja fram ásættanlegri lausn. Á síðasta þingi var mikil vinna lögð í að ná fram sameiginlegri niðurstöðu með stjórnarandstöðunni, vikum og mánuðum saman. Samt sá hún ekki sóma sinn í að fylgja frumvarpinu við lokaafgreiðslu þess. Svandís Svavarsdóttir minntist í sinni góðu ræðu, sem ég hefði sett í efsta sæti ásamt ræðu Katrínar menntamálaráðherra, á umskiptin að koma úr borgarstjórn Reykjavíkur þar sem hægt sé að vinna saman þvert á flokkslínur, inn á Alþingi þar sem andstæðingarnir séu ófáanlegir til samstarfs. Stjórnarandstaðan vill ekki taka á sig neina ábyrgð á því grafalvarlega ástandi sem hún á sök á. Umfram allt á ekki að "draga stjórnina að landi" heldur neyta allra bragða til að fella hana. Nú hlakka þeir yfir klofningnum innan VG, og ég er dauðsmeykur um að brotthvarf þitt úr ríkisstjórninni og yfirlýstar tilraunir til samstarfs við stjórnarandstöðuna verði hennar banabiti. "Samvisku ríkisstjórnarinnar" kallaði Sigmundur Davíð þig. Alltént muntu þá hafa mikið á samviskunni.
Með góðri kveðju Þorleifur Hauksson, félagi í VG
Þakka "góða" kveðju.
Ögmundur Jónasson
p.s. Ég var sammála Sigmundi Davíð í gagnrýni á fréttastofu Sjónvarps þetta kvöld.