Fara í efni

ÞÚ VELDUR VONBRIGÐUM

Sæll Ögmundur.
Ég hef lengi stutt VG og þig sérstaklega, þó ég hafi aldrei verið flokksmaður, þar sem ég taldi flokkinn og þig sérstaklega vera málefnafólk sem byggði pólitík sína á prinsippum en ekki hagsmunum. Stjórnartíð ykkar hefur verið ein löng vonbrigðisstund og fátt jafn slæmt eins og tíð þín sem Innanríkisráðherra (eins og ég hafði gert mér háar vonir um hlutskipti þitt í því embætti). Með nýjustu gloríu þinni í umræðunni um innflytjendamál ertu búinn að fylla mælinn og ég tel mig knúinn til að svara nokkrum atriðum í nýlegri bloggfærslu þinni um málaflokkinn. Þú segir:
"Á sama tíma vil ég engar tilslakanir - nema síður sé - gagnvart fólki sem hingað kemur í vafasömum tilgangi ... í þeim tilgangi að hagnast með sviksamlegum hætti og vinna samfélaginu tjón. Það er líka staðreynd að í heiminum er á faraldsfæti stór hópur fólks á flótta undan réttvísinni, oft með sóðalegan glæpaferil að baki, jafnvel stríðsglæpi. Það fólk viljum við ekki. Horfast verður í augu við að þetta er veruleikinn sem starfsfólk Útlendingastofnunar og annarra stofnana stjórnsýslunnar á við að stríða."
Hvernig getur þú, yfirlýstur sósíalisti, anarkisti og frjálslyndismaður (samkvæmt prímadonnuviðtali í Sjálfstæðu fólki), látið svona órökstuddar dylgjur og hræðsluáróður frá þér á almennum vettvangi? Þú gefur í skyn að þú viljir jafnvel HERÐA hér útlendingalöggjöf af því að hingað geti komið fólk sem þér finnst óæskilegt. Hver á annars að skilgreina hverjir séu hér til að "hagnast með sviksamlegum hætti" eða hvað flokkist sem "tjón" gagnvart samfélaginu? Ríkisvaldið kannski? Eða lögreglan? Útlendingastofnun? Verður t.d. Roma-fólk kerfisbundið haldið utan við landið með geðþóttaákvörðunum valdhafa með fordóma gagnvart "sígaunum"?
Þú notar gjarnan orðið "við" þegar þú ræðir þennan málaflokk, segir að "við" viljum ekki "það fólk" sem sé á flótta undan "réttvísinni"? Hverjir eru "við" og hvaða rétt hefur þú á að tala í þeirra nafni? Hvaða rétt hafa "við" til að kerfisbundið mismuna fólki á þennan hátt? Og hvað er "réttvísi" og hver skilgreinir hverjir tilheyra "réttvísinni"? er sú réttvísi alltaf réttlát? Þýðir það að þú hefðir neitað t.d. Angelu Davis, þeirri merku fræði- og andófskonu, um inngöngu eða hæli á Íslandi þegar hún var á flótta undan amerískri "réttvísi" á 8. áratugnum? Eða ónefndum fjölda annarra pólitískra aktivista sem hafa komist í kast við "réttvísina" í heimalandi sínu?
Og ég er ekki einu sinni byrjaður að nefna njósnafrumvarpið þitt, sem er einhver lágkúrulegasta tilraun til að koma hér á eftirlitssamfélagi og lögregluríki undir yfirskyni almannahagsmuna.
En ég ætla ekki út í þá sálma heldur bið þig vel að lifa. Þú hefur misst stuðningsmann í mér og líklega marga fleiri. Er ekki bara kominn tími til að þú og þín kynslóð kveðjið pólitíkina?
Vilhelm Vilhelmsson

Sæll. Þakka þér hreinskiptið bréf. Þú vitnar í hluta af skrifum mínum en sleppir öðrum, sbr. https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/island-og-adkomufolk
En gott og vel, það er þitt val.
Trúir þú því að allir sem eru á flótta séu hreinir englar? Finnst þér það bera vott um róttæka réttsýni að láta sig engu skipta þótt fólk komi með glæpaferil á bakinu og villi á sér heimildir? Er bannað að grafast fyrir um slíkt? Finnst þér rangt að greina andófsfólk, sem hundelt er af valdstjórnarkerfum heima fyrir, frá fyrrverandi gerendum á valdastóli og handbendum þeirra? Á engan greinarmun að gera á pyntingarmeistaranum og hinum pyntaða? Er nóg að þeir séu flóttamenn?
Ég get fullvissað þig um það, að í hjarta mínu stend ég  - og mun alltaf standa - með andófsfólki sem berst gegn ofbeldi og valdstjórn. Þegar ég tala um sósíalisma, líberalisma og anarkisma er ég að vísa í þá grundvallarhugsun að verja frelsi hvers og eins gegn yfirgangi og valdi (anarkí er frelsi frá valdbeitingu) í þjóðfélagi jafnaðar.
Þú spyrð hverjir eigi að skilgreina réttvísina? Það er rétt hjá þér að hún er að hluta til afstæð. Hryðjuverkamaður í augum eins er frelsishetja í augum annars. Það er viðfangsefni í upplýstu lýðræðissamfélagi að þróa þessa hugsun áfram - og þar finnst mér mannúðarstefna vera grundvallaratriði. Á hennar forsendum vil ég taka á móti fólki, auk þess sem hingað á að vera hægt að koma til skemmri eða lengri tíma fyrir fólk almennt. Þannig er ég ekki að tala fyrir lokuðu samfélagi.
Þú furðar þig á að ég tali um að hingað komi fólk í glæpsamlegum erindagjörðum. Það hefur einfaldlega sannast að hér hafa verið að verki skipulagðir glæpahópar aðkomumanna sem farið hafa um rænandi og ruplandi auk þess sem dæmi eru um þeim mun alvarlegri glæpi, má nefna, mansal og annað ofbeldi. Hingað til lands eru þeir beinlínis komnir til þessara verka. Má ekki ræða þetta? Á að láta eins og ekkert sé?
Þá kem ég að þungamiðjunni í því sem mig langar til að segja við þig Vilhelm. Ég er búinn að fá alltof margar heimsóknir frá fórnarlömbum ofbeldismanna til þess að ég þegi um þessi mál - láti þau sem vind um eyru þjóta. Ég stilli mér einfaldlega upp með fórnarlömbunum og á móti ofbeldinu og neita að láta stjórnast af viðteknum gagnrýnislausum tíðaranda úr mínum kima stjórnmálanna (ef svo má að orði komast um þá sem eiga margt sameiginlegt í skoðunum) hvað þessi mál snertir. Þú talar um "njósnafrumvarpið" mitt. Ekkert slíkt frumvarp er komið fram.
En lagabreytingar hafa verið boðaðar og eru væntanlegar en jafnframt breytt vinnulag og eftirlit. Þegar þetta verður skoðað heildstætt mun koma í ljós að tilgangurinn er EKKI að koma á eftirlitsþjóðfélagi! Þvert á móti er hugsunin sú að jafnframt því sem varnir eru reistar gegn skipulagðri glæpastarfsemi, vel skilgreindri sem slíkri, eru reistar varnir gegn því að almennir borgarar og þar með talið andófsfólk verði undir smásjá lögreglu. Að þessu vinn ég.
Mér þykir það sannast sagna mjög leitt að ég skuli hafa valdið þér svo miklum vonbrigðum sem sjá má af bréfi þínu. En ég bið þig um eitt, að dæma mig á réttum forsendum.
Kv.,
Ögmundur Jónasson