Fara í efni

ÞURFA AÐHALD AÐ UTAN

Augljóst er að nýja ríkisstjórn skortir ekki sjálfstraust. Hún hefur enda fengið mikið lof og prís í aðdraganda stjórnarmyndunar. Að vísu hefur þetta lof og prís komið mest frá „valkyrjunum“ sjálfum sem svo hafa kallað sig. En auðvitað er það ekki verra að vera ánægður með sjálfan sig en fyrir því þarf þá að vera innistæða. Sú innistæða á eftir að koma ljós í verki.

Hægri halli

Augljóst er að þessi ríkisstjórn hallast mjög til hægri. Viðreisn er þegar allt kemur til alls að uppistöðu til hægri klofningur úr Sjálfstæðisflokknum, ESB hluti flokksins sem stendur vörð um markaðsöflin. Yfirlýsingar formanns Viðreisnar, sem er fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins, eru þegar allar í þessa veru – ekki megi hrófla við hag þeirra sem standa best að vígi með auknum sköttum. Og Viðreisn er sá stjórnarflokkanna sem fær stjórn efnahagsmálanna að mestu leyti í sínar hendur, fjármálaráðuneytið og atvinnuvegaráðuneytin.

Stefnuskrá nýrrar ríkisstjórnar er almennt orðuð þótt þar megi greina ýmsar áherslur í anda þess sem stjórnarflokkarnir boðuðu í aðdraganda kosninga.

Loforð úreldast undraskjótt

Sitthvað hefur þó tekið breytinginum. Þannig verður bið á því að öryrkjar og aldraðir fái þær kjarabætur sem Flokkur fólksins lofaði – það muni hins vegar gerst í mörgum „fallegum skrefum“ segir formaðurinn. Nóg um það í bili.

Þá hefur Samfylkingin ákveðið að binda enda á ESB bindindi sitt þrátt fyrir heitstrengingar í þá veru. Nú vill Samfylkingin að nýju áframhaldandi viðræður um ESB aðild sem hefjist í síðasta lagi 2027 að aflokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. „Áframhaldandi samningaviðræður“ er gamalkunnugt blekkingartal um að „gá hvað sé í pokanum“, en er í reynd ekkert annað en kerfisbundin aðlögun að regluverki ESB.

Stríðshaukatal í utanríkismálum

Í utanríkismálum er okkur enn ætlað að samsama okkur hervæðingarfári NATÓ og Evrópusambandsins – „að koma hagkerfunum í stríðsham“ eins og það var orðið á þeim bæ - enda fráfarandi utanríkisráðherra úr Sjálfstæðisflokki yfir sig ánægð að fá sinn gamla samherja úr þeim sama flokki í sinn stað. Þarna mun ný ríkisstjórn greinilega engu breyta. Evrópusambandið er sérstaklega nefnt sem gott leiðsöguafl en sambandið hefur að undanförnu tekið undir með NATÓ forkólfum að því fjármagni sem nú fer til styrkingar félagslegum innviðum verði beint í auknum mæli til hernaðar. Þetta eru því miður engar ýkjur. Það makalausa er að í Brussel er orðalagið allt að breytast í þessa veru.

Sums staðar er þörf á togstreitu – mörgu ósvarað

Ég hafði búist við meiri uppstokkun á Stjórnarráðinu en raun ber vitni þótt ekki sé ég fylgismaður skyndiákvarðana eins og stundum hefur viljað brenna við með slæmum afleiðingum. En nota hefði mátt tækifærið við stjórnarskiptin til að aðgreina iðnaðar- og umhverfisráðuneyti sem illu heilli var steypt í eitt. Þarna á að mínu mati að byggja inn í kerfið eðlilega togstreitu.
Auknar strandveiðar eru góðar fréttir. En verri eru vegagjöld og aðgangseyrir sem ætlunin er að innheimta fyrir að skoða náttúruperlur Íslands. Þetta er hins vegar óljóst orðað í stjórnarsáttmálanum – talað um komugjöld – án þess að skýrt sé hvað átt er við. Ef um er að ræða komugjöld til landsins þá er það hið besta mál. Margt er óljóst en vonandi ekki órætt. Á að láta lögbrjóta áfram komast upp með að eyðileggja ÁTVR; á að samþykkja eignarhald fjárfesta á íslenskum fjörðum til sjókvíaeldis; á að leyfa spilavítum að eyðileggja líf og heilsu fólks? Fleiri eru spurningarnar sem ósvarað er.

Meiri þensla á kostnað samfélags og náttúru

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er greinilegur þenslutónninn, nú skuli „kyrrstaðan rofin“. Þessi gamli frasi þýðir stórauknar virkjanir ásamt öðrum ráðstöfunum til að þenja út hagkerfið. Öllum mætti þó vera ljóst að þenslan kallar á enn meira innflutt vinnuafl sem vitað er að innviðir landsins, einkum heilbrigðiskerfið, þolir ekki. Þarna eru hins vegar engin svik á ferðinni því formaður Samfylkingarinnar hafði hótað að gefa hressilega í. Þannig yrði raforkuframleiðsla aukin um fjórðung á kjötímabilinu að því er skilja mátti. Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir þau okkar sem erum andvíg vindmylluvæðingu Íslands og viljum vernda íslenska náttúru fyrri ágengum fjárfestum sem bíða í röðum að komast yfir ódýra orku til að hagnast á – þar er skýringin á meintum orkuskorti á Íslandi.

Gagnrýni frá hægri

Allt þetta og margt annað á að sjálfsögðu eftir að skýrast betur. En það sem ég staðnæmist við og verð ég að játa það að mér setti ugg þegar ég heyrði rödd stjórnarandstöðunnar á þingi úr munni formanns stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Benediktsson formaður kvað upp úr með það strax og samstarfsyfirlýsing nýju ríkisstjórnarinnar hafði verið birt, að fari svo að bætur almannatrygginga verði látnar hækka í samræmi við launavísitölu og að lágmarki til samræmis við verðbólgu – man ég ekki betur en að svo hafi verið lögbundið fyrr á tíð - þá sé voðinn vís því þetta sé ávísun á skattahækkun. Með öðrum orðum rýrum frekar kjör öryrkja – því um það snýst málið – fremur en að hrófla við efnafólki.
Þetta er að sjálfsögðu rangt hjá Bjarna. Þannig er hægt að ná ínn fjármagni með því að forgangsraða á annan veg, með því til dæmis að falla frá áförmum um fjáraustur í hernaðartengd verkefni og bæta þess í stað kjör öryrkja og tekjulítilla aldraðra áður en ráðist er í gerð Sundabrautar og nýrra jarðganga. Í öðru lagi er hægur vandinn að jafna byrðar í þjóðfélaginu með tilfærslum í skattkerfinu sem hlífi lágtekju og meðaltekjufólki en láti þá sem eru aflögufærir borga meira.

Hinn napri veruleiki

En yfirlýsingar formanns stærsta stjórnarandstöðuflokksins minna á þá nöpru staðreynd að á Alþingi er fátt um þingmenn sem eru líklegir til að veita ríkisstjórninni aðhald frá vinstri – fyrir hönd þeirra sem þurfa á því að halda að félagslegum innviðum verði forgangsraðað umfram hagsmuni fjármagnsins, að ógleymdu því að verja þarf auðlindir Íslands fyrir fjölþjóðlegum ránfuglum.
Vinstri menn hlutu ekki góða kosningu í nýafstöðnum Alþingiskosningum og framsókn er í sárum. Fyrir þessu eru ástæður sem þarf að skilgreina og skilja og horfast í augu við. Það verður án efa gert.

Takmarkað aðhald innan veggja Alþingis - þarf að koma utan frá

Staðreyndin sem blasir við og kallar á árvekni er sú að við höfum fengið yfir okkur ríkisstjórn sem teygir sig frá miðju og langt til hægri. Ef slík ríkisstjórn sætir aðeins gagnrýni frá hægri í þinginu og ekkert heyrist utan veggja Alþingis þá er ekki við góðu að búast. Þetta má því ekki gerast. Þögn er ekki valkostur.

Yfirlýsingar um eigið ágæti og fádæma gott hjartalag duga skammt ef skortir aðhald. Þetta er nokkuð sem öllu félagslega sinnuðu fólki í landinu ber að hugleiða.

-----
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.