ÞURFA ÞINGMENN AÐ VERA LOÐNIR UM LÓFANA?
Á forsíðu Morgunblaðsins sl. sunnudag er greint frá því, að nú sé hart barist í prófkjörsslag Sjálfstæðisflokksins vegna þingkosninga að vori. Lengi vel voru það einkum lögfræðingar sem voru valdir á lista Sjálfstæðisflokksins en nú þurfa þeir sem hyggja að leggja fyrir sig þingmennsku að vera sæmilega loðnir um lófana til þess að geta gert hosur sínar grænar fyrir verðandi kjósendum. Mér finnst vera uggvænlegt að auðurinn sé sífellt að verða aðalatriðið en ekki hugsjónir og sannfæring fólks. Áður fyrr var bakgrunnur þingmanna mjög fjölbreyttur. Þar voru bændur, blaðamenn, kennarar, prestar, sjómenn, sýslumenn, jafnvel rithöfundar og verkamenn. Þá var sú tíð að laun þingmanna voru miðuð við hvern dag sem þing stóð yfir og var mjög svipað Dagsbrúnartöxtum. Var svo fram á árin sem kennd hafa verið við Viðreisn. Síðan þá hefur hins vegar himinn og haf skilið á milli og spurning hvar endar þetta allt saman? Ég hvet eindregið til að allir sem aðhyllast frelsi, jafnrétti og bræðralag hugleiði alvarlega þessa þróun. Æskilegt væri að sem flestir Íslendingar sjái ástæðu til að ígrunda þessi mál: Erum við að ganga götuna greiða fram eftir veg, eða beint fram af hengifluginu? Við þurfum að hafa sem flesta þingmenn með fjölbreytta reynslu og þekkingu. Bestu kveðjur Guðjón Jensson,
Mosfellsbæ