Fara í efni

ÞURFUM BARNA-RÉTTLÆTI FREMUR EN FORELDRA-RÉTTLÆTI!

Þakka þér Ögmundur fyrir gott framlag hvað varðar barnalög. Flestir þeir sem hafa kynnt sér mál vita að sameiginlegt forræði er eingöngu hægt að hafa ef foreldrar eru samstíga um málefni barna sinna. Sem betur fer er það oftar en hitt. Þeir foreldrar sem eru það ósamstíga að þeir sjái nauðsyn til að fara í forræðisdeilu, sem bæði er ömurleg og niðurdrepandi, hafa ekkert með sameiginlegt forræði að gera. Fyrst og fremst þarf að skoða hagsmuni barna hvernig er hægt að hátta betur málum þeim í hag. Því miður er í dag foreldraréttlæti umfram barnaréttlæti. Þeirra raddir heyrast ekki. Í slíku kerfi væri dómur um sameiginlegt forræði ekkert annað en hættulegt fyrir börnin sem yfirleitt þurfa að líða fyrir foreldradeilur. Það vita þeir sem kynnst hafa. Málin ættu að snúast um barnahag - ekki foreldrajafnrétti.
Lísa B. Ingólfsdóttir