TIL AÐ FYRIRBYGGJA ALLAN MISSKILNING
Í gær fagnaði ég yfirlýsingu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra Íslands, væntanlega fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, þar sem árás Tyrkja á Rojava í Norður Sýrlandi er fordæmd.
Ánægja mín stendur óhögguð – svo langt sem það nær.
En þar skilja leiðir eins og kannski við var að búast.
Í Morgunblaðinu í dag sér ráðherrann, þá væntanlega einnig fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, ástæðu til að taka það skýrt fram að hér sé ekki á nokkurn hátt verið að halla orði á NATÓ eða Bandaríkin. Bandaríkin hafi ekki gefið neitt grænt ljós á aðgerðir Tyrkja. Guðlaugur segir vin sinn Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna hafa þvertekið fyrir allt slíkt og segja þeir félagar - og látum þá liggja á milli hluta hvort utanríkisráðherra Íslands er kominn óþægilega nærri því að setja sig í hlutverk blaðafulltrúa hins síðarnefnda – að um sé að ræða einhliða ákvörðun Tyrkja.
Ekki er málið alveg svona einfalt. Trump forseti BNA sagði að vísu að Tyrkir mættu “ekki ganga of langt” í aðgerðum sínum án þess að skýra hvar þau mörk lægju og áréttaði síðan að Kúrdar ættu ekkert inni hjá sinni þjóð, “ekki hefðu þeir komið Bandaríkjamönnum til aðstoðar í Normandí í Heimsstyrjöldinni síðari! (“…they didn't help us in the Second World War, they didn't help us with Normandy,"
Humm, hmm.
Nú hefur utanríkisráðherra Íslands skýrt það út fyrir okkur - til að forða öllum misskilningi - að íslensk stjórnvöld líti ekki svo á að við bandarísk stjórnvöld sé að sakast vegna hernaðarofbeldis Tyrkja.
Gott og vel.
Ég fyrir mitt leyti vil einnig koma skýringu á framfæri til að forða þeim misskilningi að ég harmi það að Bandaríkin dragi sig til baka frá Sýrlandi. Afstöðu mína vil ég skýra í allt öðru samhengi:
Það voru Bandaríkin með stuðningi NATÓ og Saudí Arabíu sem á sínum tíma ákváðu að ráðast í “regime change” í Sýrlandi, skipta þar um stjórn eins og gert var í Írak og Líbíu, og það voru Bandaríkin sem lengi vel studdu ISIS en sneru við blaðinu þegar Íslamska ríkið fór að komast yfir olíuauðinn á þessum slóðum.
Það voru síðan Rússar og Íranir sem blönduðu sér í stríðsátökn á sveif með Sýrlandsstjórn og gerðust þar með samábyrgir henni í þessum hildarleik. Öll þessi ríki bera því ábyrgð þegar enn einn utanaðkomandi aðilinn, Tyrkir, ákveða að fara sínu fram.
Líklegt þykir meira að segja að atburðirnir nú byggi á samkomulagi Sýrlendinga, Írana og Rússa annars vegar og Tyrkja hins vegar (með grænu ljósi frá Washington) að uppræta yfirráð Kúrda í norðanverðu Sýrlandi til að tryggja Tyrklandi og Sýrlandi óbreytt landamæri (sem Kúrdar segja reyndar að þeir krefjist ekki að verði breytt).
Þetta er skýringin á tali um græn ljós og rauð og er ekki í fyrsta skipti sem slíkar merkjasendingar eiga sér stað. NATÓ gaf þannig grænt ljós á ofbeldisaðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum á fundi í Brussel í júlí 2016 og NATÓ og Bandaríkin gáfu grænt ljós á innrás Tyrkja í Afrin á fyrri hluta árs 2018.
Nú velkjast fjölmiðlamenn og stjórnmálamenn sem hafa snefil af sjálfstæðri hugsun bæði vestan hafs og austan ekki í vafa um ábyrgð Bandaríkjanna og þjóna þeirra í NATÓ á ofbeldinu í Rojava. Gerandinn er jú einn af félögunum, traust bandalagsríki, eins og utanríkisráðherra Íslands hefur áréttað í þessari umræðu.
Og það er hér sem skilur á milli mín og hans. Mér ekkert síður en honum er umhugað um að fyrirbyggja allan misskilning.