Fara í efni

TIL HAMINGJU MARGRÉT!

Margret Frimanns
Margret Frimanns


Eitt það ánægjulegasta sem ég kynntist í starfi mínu sem innanríkisráðherra voru hin jákvæðu og uppbyggjandi viðhorf sem ríkjandi eru innan Fangelsismálstofnunar. Páll Winkel, fangelsismálastjóri og hans góða samstarfsfólk á þar lof skilið.
Í frétt á forsíðu Morgunblaðsins með ítarefni inni í blaðinu er frétt um námsárangur fanga á Litla Hrauni og Sogni en þar kemur fram að 66 fangar í þessum tveimur fangelsum lögðu stund á nám á síðustu önn og er það 70% fanganna.
Viðtal er við fanga sem þakkar þessa þróun Margréti Frímannsdóttur fangelsstjóra „en hún hefur oft barist gegn straumnum til að ná bættri aðstöðu fyrir fanga sem vilja mennta sig."
Í Morgunblaðinu er einnig rætt við Önnu Fríðu Bjarnadóttur, náms- og starfsráðgjafa, „sem telur fangana oft ná undraverðum námsárangri þrátt fyrir lélega aðstöðu."
Sjálf er Margrét lítillát í tilsvörum og segir að lagt sé upp úr því að gefa föngum kost á að mennta sig „og það er einfaldlega að skila sér."
Þetta er ekki bara að skila sér til þeirra einstaklinga sem þarna eiga í hlut. Ég er sannfærður um að þetta framtak, sem runnið er undan rifjum Margrétar Frímannsdóttur eigi eftir að skila sér til okkar allra með því að bæta samfélagið.
Það er ekki lítið afrek og fyrir það ber að þakka og óska hlutaðeigandi til hamingju. Þess vegna titillinn á þessum litla pistli: TIL HAMINGJU MARGRÉT!

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/07/16/aldrei_fleiri_fangar_a_skolabekk/