Til hamingju Ólafur forseti!
Ef marka má skoðanakönnun Baugstíðinda í dag hlýtur að vera hátíð í bæ á Bessastöðum. Samkvæmt könnuninni nýtur sitjandi forseti hvorki meira né minna en 66,3% fylgis meðal þjóðarinnar en mótframbjóðendur hans, sem alls endis óþarft er að kynna, eiga svo sannarlega á brattann að sækja. Til marks um firnasterka stöðu Herra Ólafs má t.a.m. geta þess að Vigdís Finnbogadóttir hlaut aðeins 92,7% atkvæða í forsetakosningunum 1988 þegar Sigrún Þorsteinsdóttir verkakona bauð sig fram gegn henni. En í þessum samanburði verður þó að hafa í huga hið stórglæsilega jöfnunarmark sem Herra Ólafur skoraði í beinni útsendingu fyrir Baugsara á dögunum, en það hefur án nokkurs minnsta vafa sópað til hans miklu fylgi.
Í tilefni dagsins Baugstíðinda óska ég forseta mínum innilega til hamingju og segi bara rétt sisona í lokin: “Áfram Baugsarar, áfram Baugsarar, út af með dómarann. Koma svo Ólafur, skora, skora!”
Með bestu forsetakveðjum,
Runólfur Áki Þorsteinsson frá Skálavík