Fara í efni

TIL VARNAR GRASRÓTARLÝÐRÆÐI

Birtist á vefritinu Smugunni 18.05.11
Árni Finnsson skrifar sérkennilega grein á Smuguna í tilefni skýrslu ríkislögreglustjóra vegna fyrirspurnar minnar um breska flugumanninn Mark Kennedy.

Í skýrslu ríkislögreglustjóra kemur fram að íslenska lögreglan fékk upplýsingar erlendis frá um mótmælin við Kárahnjúka en lögreglan hafi ekki upplýsingar um hvernig þessar upplýsingar voru fengnar.Um leið og skýrsla ríkislögreglustjóra var sett á vefinn sendi ég frá mér yfirlýsingu sem birt var á vef innaríkisráðuneytisins og komu efnisatriði hennar að einhverju leyti fram í fjölmiðlum. Þóttu mér skilaboðin þar vera svo skýr að enginn þyrfti að velkjast í vafa um afstöðu mína.

Ekki er að skilja á skrifum Árna Finnssonar að svo hafi verið. Hann segir mig ekki gera mér „neina rellu"vegna aðgerða flugumannsins jafnvel þótt ég telji „að Mark Kennedy hafi verið hér í umboði breskra lögregluyfirvalda og hvatt til ólöglegra aðgerða; aðgerða sem ríkislögreglustjóri flokkar með skipulagðri glæpastarfsemi vélhjólagengja." Síðan býsnast Árni yfir bágborinni sjálfvirðingu minni og spyr hvernig á því geti staðið að ég láti „það óátalið að flugumaður bresku lögreglunnar liggi undir grun um að hafa hvatt mótmælendur til ólöglegra aðgerða?" Og hvernig megi það vera „að náttúruverndarsamtökin Saving Iceland séu flokkuð með skipulagðri glæpastarfsemi?"

Ef Árni Finnsson léti svo lítið að setja upp sanngirnisgleraugu sæi hann að hann dregur rangar ályktanir. Íyfirlýsingu minni frá í gær segir meðal annars:

„Fram hafa komið í fréttum alvarlegar ásakanir um vinnubrögð evrópskra lögregluyfirvalda sem eru forkastanleg, ef sannar eru, nefnilega að kallaðir séu til flugumenn sem láti ekki sitja við það eitt að njósna um fólk heldur æsi til uppþota og jafnvel ofbeldis til að sverta góðan málstað. Þá hefur komið fram í fjölmiðlum að breski lögreglumaðurinn Mark Kennedy hafi stofnað til kynferðislegs sambands við konur úr röðum mótmælenda, en slíkt er skýlaust brot á lögum og lögreglusamþykktum alls staðar í siðuðum þjóðfélögum. Upplýst hefur verið að konur sem orðið hafa fyrir barðinu á Mark Kernnedy, í Þýskalandi og hugsanlega annars staðar, hyggist leggja fram kæru á hendur honum. Fari svo þykir mér sýnt að öllum þeim upplýsingum, sem fram kunna að koma um óeðlileg afskipti þessa einstaklings af mótmælendum hér á landi, verði komið á framfæri við hlutaðeigandi yfirvöld.
Við hljótum að gera þá afdráttarlausu kröfu til lögreglu sem við eigum í samstarfi við að hún hafi að leiðarljósi siðferðisgildi sem leyfa ekki svona framferði, auk þess sem mér finnst íhlutun yfirvalda með þessum hætti í mótmæli af pólitískum toga beinlínis vera tilræði við lýðræðið."

Hvað segir hér? Það segir að mér finnist „íhlutun yfirvalda með þessum hætti í mótmæli af pólitískum toga beinlínis vera tilræði við lýðræðið."
Er hægt að kveða sterkar að orði? Mér er spurn. Þegar ég síðan fylgi þessari yfirlýsingu eftir í samtölum við fjölmiðla í gær segi ég afdráttarlaust að ég muni beita mér fyrir því að múra það í lög og reglur að ekki megi nota njósnara eða tálbeitur gagnvart pólitískum samtökum, þar á meðal grasrótarsamtökumnáttúruverndarsinna. Með öðrum orðum, að ég ætli að aðhafast til að fyrirbyggja að svona nokkuð geti gerst í framtíðinni auk þess sem ég hét því að hvaðeina sem fram kæmi vegna hugsanlegra lögbrota Marks Kennedy yrði komið á framfæri við dómstóla eða hlutaðeigandi stjórnvald. Sannast sagna hélt ég að þetta myndi þykja hið fréttnæma í þessu máli.
1) Það liggur fyrir að upplýsingum var miðlað á milli lögregluyfirvalda í tengslum við Kárahnjúkamótmælin 2005
2) Það liggur fyrir að núverandi innanríkisráðherra telur njósnir um pólitísk grasrótarsamtök vera tilræði við lýðræðið
3) Það liggur fyrir að uppi eru áform um að festa í lög og reglur að skýr greinarmunur verði gerður á milli glæpasamtaka annars vegar og stjórnmálasamtaka og samtaka náttúrverndarsinna hins vegar.

Allt þetta liggur fyrir þegar Árni Finnsson ritar grein sína hér á Smugunni. það er skýringin á því að ég sagði hér að framan að mér þætti grein hans sérkennileg.