Fara í efni

TIL VARNAR SANNLEIKANUM

SÖGUTÚLKANIR - SJS - SVG - ÖJ
SÖGUTÚLKANIR - SJS - SVG - ÖJ

Ekki lái ég Steingrími J. Sigfússyni að gefa út bók þar sem hann segir stjórnmálasögu undangenginna ára frá sínum sjónarhóli. Þvert á móti þykir mér það ágætt. Ég hef hins vegar bent á það í skrifum hér á síðunni að sögutúlkun Steingríms stangist í veigamiklum atriðum á við mína - ekki síst í frásögnum af atburðarás þar sem segir frá minni framgöngu. Þessu hef ég komið á framfæri hér á síðunni og að hluta til leiðrétt, að því leyti sem það verður á annað borð gert í fáeinum orðum. (Sjá m.a. hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/tveir-menn-skrifa )

Svavar Gestsson, fyrrum þingmaður, ráðherra og sendiherra,  hefur viljað deila með fólki  sýn sinni á sögutúlkanir Steingríms J. Sigfússonar og fullyrðir hann um sitthvað sem ég hefði haldið að hann þekkti ekki gerla til.

Frá því er skemmst að segja að almennt „staðfestir" Svavar frásögn Steingríms. Þar sé rétt með farið en Svavar gerir þó þá athugasemd að ekki sé nóg að gert af Steingríms hálfu gagnvart okkur sem vorum á öndverðum meiði við hann í ýmsum málum. Úr þessu verði eflaust bætt síðar: „Það þarf fleiri bækur meðal annars um innanflokksátökin og ástæður þeirra," segir Svavar Gestsson.
Sjá nánar hér: http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/11/21/svavar-haestanaegdur-med-bok-steingrims-syndi-thingeyskan-taoisma/

Ekki ætla ég að sinni að ræða frekar þessar brýningar - eða yfirleitt hvort Steingrímur hafi brugðist í þessu efni! - en vil á þessu stigi nefna tvennt sem Svavar Gestsson gerir að sérstöku umræðuefni.

Hann tekur sérstaklega fram að ég hafi af hálfu VG stýrt „ESB-lendingu" við stjórnarmyndunarviðræðurnar vorið 2009 - og vísar hann þar í bók Steingríms. Þetta er nokkuð sem Svavar Gestsson hefur stundum nefnt áður og er greinilega hugleikið að halda til haga. Gott og vel, en þá þarf að gefa heildstæða mynd af þessu deilumáli sem var í stöðugri gerjun allt kjörtímabilið.

Á flokksþingi VG hafði ég stutt þá niðurstöðu að hreyfingin legðist gegn inngöngu Íslands í ESB og að málinu yrði aðeins ráðið til lykta í almennri atkvæðagreiðslu. Samþykktin var opin því nánar var ekki kveðið á um fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég sat allra fyrstu formlegu stjórnarmyndunarfundina vorið 2009 og þekki því vel hvernig umræðan um ESB þróaðist í viðræðunum framan af. Þar varð niðurstaðan sú að leggja til við flokkana að fara með málið í þann farveg sem úr varð. Um þetta var ágreiningur á milli okkar í VG annars vegar og Samfylkingu hins vegar, hvort stefna ætti málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en gengið yrði til viðræðna við ESB og síðan aftur að viðræðum loknum, eða láta síðari atkvæðagreiðsluna eina nægja. Í viðræðunum við Samfylkinguna vorið 2009 vildi VG fyrri kostinn en Samfylking hinn síðari. Ekki voru þó allir í Samfylkingu á einu máli hvað þetta varðar og ágreiningur um ESB ferlið innan raða VG átti eftir að reynast mikill sem kunnugt er. Niðurstaðan varð sú, einsog menn þekkja, að gengið yrði til viðræðna án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.
Komu að þessum samræðum varaformenn flokkanna, Dagur B. Eggertsson og Katrín Jakobsdóttir og síðan að sjálfsögðu einnig formenn auk mín og Össurar Skarphéðinssonar. Sá síðastnefndi var ekki fráhverfur tvöfaldri atkvæðagreiðslu en formaður hans flokks hins vegar algerlega þversum. Þess er að geta að á þessum tíma þótti mörgum hörðum ESB andstæðingum þetta ekki eins slæm leið - ekki eins óklók - og síðar kom í ljós. Sjálfur hafði ég verið í þeim hópi þótt efasemdir sæktu að mér í stjórnarmyndunarviðræðunum.

Þegar endanlega var gengið frá málum í þeim viðræðum hafði ég horfið frá viðræðuborðinu en þegar ESB kom til kasta þingsins vorið 2009 studdi ég málið - enda í samræmi við það sem ég hafði sagt kjósendum fyrir kosningar að gæti gerst að þeim afloknum. Það höfðu hins vegar ýmsir aðrir forsvarsmenn flokksins látið undir höfuð leggjast að gera og sumir talað mjög afdráttarlaust þvert á þessa nálgun, jafnvel lofað kjósendum að þeir myndu undir engum kringumstæðum fallast á hana. Slíkar heitstrengingar skýra að hluta til þann hnút sem málið hljóp í.

Þegar frá leið vildi ég að við freistuðum þess að flýta ESB-ferlinu og efndum til þjóðaratkvæðagreiðslu innan kjörtímabilsins, það er þegar sjá mátti hvernig viðræðurnar þróuðust.  Fæ ég seint skilið hve tregir og íhaldssamir helstu forsvarsmenn VG í þessum málaflokki voru almennt í þessu efni. Þeir sem voru veikir fyrir ESB í okkar röðum fóru smám saman að tala fyrir því að ná „góðum samningi" og þyrftum við að gefa rúman tíma til þess, en harðir ESB andstæðingar voru á hinn bóginn, margir hverjir, orðnir slíkir nauðhyggjumenn að þeir virtust trúa því að engu væri hægt að hnika í viðræðuferlinu! Sjálfur er ég sannfærður um að öll efni hafi verið til þess að afgreiða málið með þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu. Samfylkingin hefði að mínu mati gengist inn á þessa leið ef skynsamlega  - og af staðfestu  - hefði verið á málum haldið af hálfu VG. En frumskilyrði var að sjálfsögðu vilji af hálfu forystu VG. Sá vilji var aldrei fyrir hendi.

Undir árslok 2012 taldi ég mig - þótt seint væri - hafa forsendur til að ætla að málið yrði tekið upp af alvöru af hálfu VG á allra fyrstu dögum nýs árs, með það fyrir augum að fá lyktir í það sem yrðu sameinandi fyrir VG. Sú varð ekki raunin þótt hlé yrði gert á viðræðunum síðustu vikurnar í aðdraganda kosninga.

Af minni hálfu var það alltaf grundvallaratriði að hvers kyns áherslubreyting varðandi ESB-ferlið  yrði að vera á forsendum VG og með hliðsjón af meirihlutasamstarfinu. Alla tíð gerði ég fulltrúum úr stjórnrandstöðunni sem voru sama sinnis og ég í þessu máli, skýra grein fyrir því að ég myndi fyrir mitt leyti aldrei láta stjórnarandstöðuna komast upp með að nýta sér ESB deiluna í stríði um pólitíska stundarhagsmuni á hennar forsendum.

Hið sama átti við um Icesave málið - sem að mínum dómi var þó miklu stærra og örlagaþrungnara mál en ESB. Niðurstaða ESB viðræðna myndi þó alltaf enda með þjóðaratkvæðagreiðslu en Icesave átti að þröngva í gegn á eins ógagnsæjan og ólýðræðislegan hátt og hugsast mátti. Þar var tekist á um hagsmuni fjármagns og einkaeignarréttar annars vegar og hagsmuni almennings og mannréttinda hins vegar og teygðu þær deilur og sú umræða sig langt út fyrir Ísland. Icesave snerist um hagsmuni Íslands en einnig grundvallaratriði í stjórnmálum og siðferði.

Framvinduna í átökunum um Icesave verður að skoðast með hliðsjón af pólitískum aðstæðum, nefnilega þeim að formenn stjórnarflokkanna lögðu allan tímann líf ríkisstjórnarinnar undir. Þjóðaratkvæðagreiðsla varð á endanum sá bjarghringur sem dugði. Andstæðingar Icesave innan VG glímdu allan tímann við þann vanda að vilja ekki láta málið verða til að sprengja ríkisstjórnina en greiddu jafnframt götu þess að málið færi í farveg þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta var ekki alltaf auðvelt. Í hetjubókmenntum hefði þetta sennilega verið orðað svo að þarna hefði verið þungur skafl að brjótast í gegnum eða erfið brekka að klífa.

Um Icesave segir Svavar að Steingrímur rifji upp í bók sinni „ofsafenginn málflutning stjórnarandstöðunnar vorið 2009"  og átökin um málið innan Vinstri grænna. Svavar vitnar  beint í bók Steingríms þar sem segir: "Ögmundur Jónasson hafði efasemdir um hvort rétt væri að semja en hann lagðist ekki gegn málinu." Þetta segist Svavar geta „staðfest", og segir síðan orðrétt að: „...fram yfir mitt sumar 2009 kvaðst  Ögmundur ekki vera á móti innihaldi samningsins heldur vinnubrögðum við gerð hans. Hvaða vinnubrögðum?"

Svavar tekur síðan undir með Steingrími að þegar stjórnarandstaðan hafi áttað sig á veikleikum í stjórnarliðinu hafi fjandinn orðið laus og þá hafi „ófreskjan" orðið til. Og aftur vitnar hann beint í bók Steingríms:  "En við þetta varð staðan mjög erfið, stjórnarandstaðan uppgötvaði að við höfðum ekki meirihluta fyrir málinu í eigin röðum og gætum ekki klárað það fyrir eigin vélarafli. Þannig varð þessi ófreskja til."

Ég taldi fyrir það fyrsta að ekki ætti að ganga frá samningum á þessum tíma og í annan stað gat ég varla verið hliðhollur samningi sem ég hafði ekki haft tækifæri til að skilja, samningi sem átti að meðhöndla sem leynilegt plagg „einkaréttarlegs eðlis" eins yfirgengileg og sú hugsun hlýtur að hljóma í ljósi þess sem síðar varð. Það hefur margoft komið fram af minni hálfu að ég taldi rétt að draga samningana á langinn einsog kostur væri, meðan við næðum áttum. Ég vildi með öðrum orðum, ræða málið en ekki ljúka því. Ennfremur hefur oftsinnis komið fram að ég taldi fráleitt að ætla að knýja samninginn í gegn án þess að menn skildu hann í þaula sem áður segir, í krafti einhvers konar flokkshollustu og í þriðja lagi að mér hafi fundist samningurinn sem lagður var fyrir, ótækur og stórvarasamur, einsog kom á daginn. Eftir því sem ég skildi samninginn betur, þeim mun verri þótti mér hann vera.

Fullyrðingar um að allt myndi fara að "ganga betur" um leið og hengingarólin hefði verið reyrð um háls þjóðarinnar er þvílíkt fásinnutal að undrum sætir, enda aldrei færð fram haldbær rök fyrir slíku.

Vandinn í þessu máli var hins vegar allan tímann sá, sem áður segir, að hvorki vildi ég né aðrir andstæðingar Icesave í VG láta málið verða til að fella stjórnina. Á sama tíma vildum við forða þjóðinni frá illum afleiðingum Icesave samnings og vorum reiðubúin að gera allt sem í okkar valdi stóð til þess. Þetta litaði málið allan tímann og verður afstaða okkar ekki skilin - stig af stigi -  nema að þetta sé haft í huga.

Stjórnarandstaðan hóf ekki upp sína raust strax vorið 2009. Það var síðar. Það er nefnilega rétt munað hjá Steingrími J. Sigfússyni að það gerðist fyrst fyrir alvöru eftir að ljós varð andstaðan innan raða stjórnarandstöðunnar, og að „eigið vélarafl" stjórnarliðsins dugði ekki, svo vitnað sé í vinsælt orðalag í þingflokki VG frá þessum tíma. 

Stjórnarandstaðan var síður en svo sameinuð í þessu máli allan tímann þótt hún væri á einu máli um að vilja nota Icesave til að fella ríkisstjórnina. Þannig hafði Sjálfstæðisflokkurinn - með undantekningum -  lengi vel sýnt fullkomið andvaraleysi gagnvart málinu. Þó hygg ég að það hafi runnið upp fyrir flestum þegar á leið hve varasamur samningurinn var. En málið varðaði sjálfstæði þjóðarinnar og átti að sjálfsögðu að fara í þjóðaratkvæði eins og reyndin varð góðu heilli. Hið sama átti náttúrlega við um ESB - eftir á að hyggja.

Icesave er dæmi um veikleikana í þingræðisfyrirkomulaginu, því þar tókust á foringjaræði og flokkshollusta annars vegar og réttur þingmanna til að komast að niðurstöðu á eigin forsendum hins vegar. Vandi okkar sem börðumst gegn gáleysislegri meðferð Icesave málsins, var hins vegar sá að við vildum ekki láta andstöðu við Icesave kalla yfir okkur stjórnarskipti þannig að við fengjum yfir okkur ískalt þjófræðið og málaliða auðstéttarinnar aftur, nánast volga af setu sinni á valdastólum í aðdraganda hrunsins. Í bók sinni reynir Steingrímur J. Sigfússon að gera lítið úr afsögn minni og tekur Svavar Gestsson undir það. Það skyldi þó aldrei vera vegna þess aðandstaða mín í ríkisstjórn vorið 2009 og síðar afsögn mín sem heilbrigðsisráðherra um haustið, hafi haft úrslitaáhrif á framvindu Icesave málsins? Og það sem meira er, hún hafi stuðlað að farsælli niðurstöðu. 

En mér sýnist á þessum skrifum að nauðsynlegt sé að taka þessa umræðu í smáatriðum. Icesave er stærsta mál íslenskrar stjórnmálasögu síðari tíma og á betri og meiri umfjöllun skilið en þá sem þegar hefur litið dagsins ljós.