TILLAGA TIL AÐ BÆTA UMRÆÐU UM SJÁVARÚTVEGSMÁL
Var að lesa grein Arnars Atlasonar, formanns Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, sem birtist á vísi.is fyrir fáeinum dögum. Löngu tímabært er að fjölmiðlar endurskoði val á málsvörum sem kallaðir eru til álitsgjafar í fréttatímum um málefni sjávarútvegsins.
Yfirleitt er farið í stærstu kvótaeigendurna eða samtök þeirra, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS. Þeir eru spurðir um smátt og stórt sem snýr að útgerð á Íslandi. Álit þeirra er alltaf fyrirsjáanlegt: Allt sniðið að hagmunum stórútgerðar og kvótakerfisns.
Ekki er þetta alveg einhlítt sem betur fer. Fyrir nokkrum dögum vitnaði ég í viðtal Kristjáns Kristjánssonar á Sprengisandi Bylgjunnar þar sem hann ræddi við Örn Pálsson, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda, Frábært viðtal. Gott ef hann ræddi ekki á dögunum einnig við fyrrnefndan Arnar Atlason, formann Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, Einnig gott viðtal. Það breytir því ekki að þegar fréttaflutningurinn almennt er skoðaður er gengið framhjá smærri aðilum en staðnæmst við einokunarkvótahafa.
Sjónvarpsstöðin sem sker sig úr að þessu leyti er Samstöðin sem ég hef áður hvatt fólk til að gerast áskrifendur að: http://samstodin.is/skraning
En það var einmitt fyrrenfnd grein eftir Arnar sem ég vildi nefna hér til stuðnings þeirri tillögu minni að fjölmiðlar dragi úr einhliða áróðri stórútgerðarinnar og hleypi í ríkari mæli að upplýsingum/sjónarmiðum á borð við þau sem birtast hér í grein Arnars Atlasonar: https://www.visir.is/t/2442/Arnar%20Atlason