Tillögur til úrbóta í tannlækningum
Birtist í Mbl
Í læknavísindum hafa orðið miklar framfarir á undanförnum árum og sífellt eru að skapast nýjar leiðir til að gera okkur lífið bærilegra með lækningum. Allt kostar þetta peninga og er mikilvægt að stöðugt sé leitað leiða til að tryggja tvennt í senn: góða þjónustu og skynsamlega ráðstöfun fjármuna. Í seinni tíð hafa menn í auknum mæli bent á forvarnir sem augljósa og ódýra leið til að koma í veg fyrir stórfelldan tilkostnað síðar meir. Þetta á ekki síst við á sviði tannlækninga. Þar sanna dæmin að þegar vel hefur tekist til um forvarnir, lækningar á frumstigi og síðan vel skipulagt eftirlit, er stórlega dregið úr tannskemmdum og þar með tilkostnaði þjóðfélagsins.
Stuðningur skertur á þessum áratug
Á árunum 199293 var dregið verulega úr stuðningi hins opinbera við tannlæknaþjónustu. Samkvæmt skýrslu sem Hagsýsla ríkisins sendi frá sér í júlí á síðasta ári jukust útgjöld heimilanna sem hlutfall af heildarútgjöldum til tannlækninga við þessar breytingar úr 62% í 75%. Ljóst er að breytingarnar höfðu það jafnframt í för með sér að samanlögð útgjöld heimilanna og ríkisins vegna tannlæknaþjónustu drógust saman. Þar sem hvorki var um að ræða að verð á tannlækningum hefði lækkað eða að tannheilsan hefði batnað má draga þá ályktun að þessar breytingar hafi haft það í för með sér að fólk veigri sér við að leita lækninga eða fyrirbyggjandi ráðstafana. Landlæknisembættið hefur staðfest að aukin kostnaðarhlutdeild sjúklinga á síðustu árum hefur valdið því að efnalítið fólk hefur ekki lengur tök á því að nýta sér heilbrigðisþjónustuna og á þetta sérstaklega við um tannlækningar.
Of dýrt fyrir barnafólk og lífeyrisþega
Fyrrgreindar breytingar á tryggingalöggjöfinni fólust í því að draga úr stuðningi við börn undir 16 ára aldri og var hann í áföngum færður úr 100% niður í 75%. Á sama tíma var framlag sjúkratrygginga við tannlæknakostnað elli- og örorkulífeyrisþega sem njóta óskertrar tekjutryggingar lækkað úr 100% í 75% og hlutur þeirra sem búa við skerta tekjutryggingu færður niður í 50%. Aðrir elli- og örorkulífeyrisþegar, sem áður höfðu fengið greidd 50% af tannlæknakostnaði sínum, fengu nú engan stuðning. Fleiri ráðstafanir voru gerðar í skerðingarátt, einkum á sviði tannréttinga. Þessum breytingum var mótmælt mjög harðlega á sínum tíma og nú hefur komið fram eins og hér hefur verið rakið að sú gagnrýni átti við rök að styðjast. Brögð eru að því að fólk leiti ekki lækninga fyrir sig og börn sín og er full ástæða til að hafa af því áhyggjur að tannheilsu muni hraka með tilheyrandi vanlíðan fyrir þá sem í hlut eiga og að sjálfsögðu auknum kostnaði í framtíðinni.
Hækkum aldursmörk og breytum greiðsluhlutfalli
Í frumvarpi til laga sem undirritaður hefur lagt fram á Alþingi ásamt fleirum er gert ráð fyrir að snúa vörn í sókn á þessu sviði heilsugæslunnar. Við leggjum til að aldursmörk fyrir stuðning við unglinga verði hækkuð í 17 ár en bendum jafnframt á að æskilegt væri að fara með þessi mörk í 20 ár innan fjögurra ára. Þá leggjum við til að greiðsluhlutfall hins opinbera við börn og unglinga verði í þessum áfanga fært í 90%. Nú eru aldursmörkin 16 ár og er stuðningurinn 75% upp til 15 ára aldurs en 50% fyrir 16 ára árganginn. Til fróðleiks má geta þess að á Norðurlöndum eru aldursmörkin hærri en hér. Þannig er allur kostnaður hins opinbera greiddur í Danmörku til 18 ára aldurs, í Finnlandi og Noregi til til 19 ára aldurs og í Svíþjóð til 20 ára aldurs.
Lækkum jaðarskatta elli- og örorkulífeyrisþega
Þá leggjum við til að allir elli- og örorkuþegar fái 100% stuðning við almennar viðgerðir og gervitennur. Samkvæmt útreikningum yfirtannlæknis Tryggingastofnunar ríkisins myndi þetta hafa í för með sér um eitt hundrað milljóna króna kostnaðarauka fyrir ríkissjóð en með þessu móti yrði tryggt að fullorðið fólk geti leitað sér lækninga. Það er ekki sæmandi okkar þjóðfélagi að koma í veg fyrir að eldri borgarar fái notið eðlilegrar tannlæknaþjónustu. Samtök eldri borgara hafa ítrekað bent á að einmitt hér sé að finna eitt dæmi um jaðarskatt sem ekki sé viðunandi. Til glöggvunar þýðir þetta að við núverandi fyrirkomulag fær einstaklingur sem er með 28.000 kr. á mánuði eða minna í tekjur 75% af tannlæknakostnaði endurgreiddan, sá sem er með tekjur á bilinu 28.000 kr. til 79.000 kr. fær 50% en sá sem er með tekjur þar fyrir ofan fær ekkert. Tannlækningar geta verið kostnaðarsamar og hefur þetta fyrirkomulag haft það í för með sér að öryrkjar og aldrað fólk hefur í mörgum tilvikum ekki efni á að leita sér lækninga. Öryrkjar sem búa á stofnunum eða sambýlum fá að vísu 90% kostnaðar endurgreiddan. En hvers eiga þeir að gjalda sem búa í heimahúsum?
Fjárfesting til framtíðar
Eins og fram kemur í samanburðinum við Norðurlönd er ljóst að aðrar þjóðir eru margar mun meðvitaðri en við um mikilvægi tannheilsunnar. Þannig eru þeir fjármunir sem renna til tannheilbrigðismála lægra hlutfall af útgjöldum til heilbrigðisþjónustunnar en víða annars staðar, eða 2% í samanburði við 4,6% í Svíþjóð og 3,8% í Danmörku. Ekki kann ég skýringar á þessu, nema ef vera skyldi að í þessum löndum séu menn búnir að gera sér grein fyrir því að tilkostnaður á þessu sviði er í reynd skynsamleg fjárfesting til framtíðar. Þær breytingar sem nú er lagt til að gerðar verði á tryggingalöggjöfinni myndu að mati yfirtannlæknis Tryggingastofnunar ríkisins kosta um 260 milljónir króna. Ýmislegt hefur komið fram sem bendir til að á móti mætti ná fram ýmsum sparnaði ef vel væri á haldið.
Röksemdir Hagsýslunnar
Niðurstaða í skýrslu Hagsýslu ríkisins sem áður er vitnað til styður að það sé hægt. Þar segir: „Greiðsluhlutdeild ríkisins hefur sérstöðu í samanburði við önnur Norðurlönd þar sem greitt er að fullu fyrir tannlæknaþjónustu fyrir börn og unglinga. Heppilegt kann að vera að hlutdeild ríkisins í almennri tannlæknaþjónustu fyrir þennan aldurshóp verði hækkuð til að bæta tannheilsu og draga úr útgjöldum heimilanna vegna tannlæknaþjónustu sem hefur aukist sl. ár. Líkur eru á að hægt sé að ná fram sparnaði á móti með virku eftirliti með reikningum tannlækna og með því að skilgreina hvaða þjónusta skuli greidd.“ Öll rök hníga á þá átt að úrbóta sé þörf. Í samræmi við það þarf að framkvæma.