Fara í efni

TÍMI TIL AÐ HUGSA... AF YFIRVEGUN!


Kínverskur auðmaður vill kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Í fjölmiðlum var nánst um þetta  rætt eins og frágenginn hlut. Ekki lengur enda er það misskilningur. Staðreyndin er sú að þessi sala er óheimil samkvæmt íslenskum lögum umeignarrétt og afnotarétta fasteigna, sjá: http://www.althingi.is/lagas/139a/1966019.html

Samkvæmt þessum lögum er hægt að sækja um undanþágu til að selja erlendu fólki íslenskt land eða fasteignir hér á landi. Slíkum undanþágubeiðnum ber að vísa til Innanríkisráðunetytisins. Engin slík beiðni hefur borist. Ef hún berst mun ráðuneytið og ráðherra  að sjálfsögðu fjalla um hana gaumgæfilega og faglega með hliðsjón af lögum en jafnframt ber mér sem innanríkisráðherra að skoða málið í heild sinni og horfa til lýðræðislegrar ábyrgðar gagnvart landsmönnum öllum, ekki bara eigendum Grímsstaða og hagsmunaaðila.

Í reynd er er þetta mjög stórt mál og þarf umræðan að ná langt út fyrir ráðuneytið. Margt í stjórnmálum líðandi stundar kallar á þessa umræðu.

Þanng  er umræðan í  tengslum við rammaáætlun um nýtingu orkuauðlindanna og áhuga erlendra aðila á landakaupum á Íslandi  nátengd og samtvinnuð og vekur ýmsar spurningar

Þrennt vil ég nefna.

Í fyrsta lagi þá er það svo að löggjafinn á Íslandi sá ástæðu til að setja skorður við að færa eignarhald á íslensku landi til útlanda. Við þurfum að spyrja hvort sá fyrirvari sé úreltur. Mér finnst ekki svo vera. Nú stöndum við frammi fyrir því að kínverskur auðmaður vill kaupa 3 hundruð ferkílómetra af Íslandi. Þetta þarf að ræða, en ekki kyngja ómeltu. Væri okkur sama þótt landið allt yrði selt? Hvað þýðir það fyrir utan það sem augljóst er og gerðist í auðmannabólunni, að verð á jörðum fór upp í þær hæðir að aðeins peningafólk gat keypt?
Það leiðir okkur að atriði númer tvö; nefnilega að eignarhald á landi skiptir máli. Á það erum við minnt  nú þegar talað er um að friðlýsa Gjástykki. Þá segir talsmaður Reykjahlíðar ehf sem er landmesta jörð jörð á Íslandi og liggur að Grímsstöðum, eitthvað á þessa leið: Það eina góða við friðlýsingu er að ef af henni verður þá  fáum við, eigendurnir, mikið í aðra hönd. Með öðrum orðum litið er á náttúruna og krafta hennar sem prívateign og að allur ávinningur eigi að þjóna einkahagsmunum. Ekkert er verið að fara með þessi viðhorf í felur og er það í sjálfu sér virðingarvert  þótt ég sé þeim mjög ósammála.
Þetta segir okkur í þriðja lagi að við verðum að grandskoða alla löggjöf og stjórnarskrá með það fyrir augum að tryggja almannaeign á náttúrunni og auðlindunum.

Hvað kaupin á Grimsstöðum  áhrærir þá þarf að ræða þau í ljósi heildarhagsmuna og hugsa langt fram í tímann. Af því eru Kínverjar þekktir: Að hugsa langt fram í tímann samhliða því sem þeir eru að kaupa upp heiminn! Þeir virðast hugsa í langtímafjárfestingum og langtímaáhrifum/yfirráðum.

Nokkuð þykir mér ýmsir vera fljótir að kyngja ómeltu því sem nú er á borð borið. Það hefur verið gert áður á Íslandi! Allt gleypt hrátt. Það er ekki langt síðan að menn ræddu mikla drauma um stórkostlega landvinninga í fjármálaheiminum . Með dollaramerki í augum var af alvöru rætt um það að gera Ísland að fjármálamiðstöð heimsins enda sköruðum við fram úr gervöllu mannkyni á því sviði. Hástemmt tal en takmörkuð - ef þá nokkur -  yfirvegun og dómgreindin engin.  En flestir dönsuðu með. Þeir sem andæfðu voru kallaðir úrtölumenn og afturhaldsseggir.
Nú vitum við hvernig fór um sjóferð þá! Skyldu menn ekkert hafa lært? Er ekki tilefni til að staldra við og hugsa þegar verið er að færa Ísland uppá búðarborðið á ný?
RÚV í dag: http://dagskra.ruv.is/ras1/4535070/2011/08/28/2/
Sjónvarpsfréttir: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4547449/2011/08/28/