Fara í efni

TÍMINN.IS OG SANNLEIKURINN

Í pistli sem birtist á vefriti Framsóknarflokksins, 13. maí sl. er þeirri spurningu beint til mín hvort sannleikurinn skipti mig einhverju máli. Mér er kærkomið að svara þessari spurningu. Sannleikurinn skiptir mig miklu máli og er mér þess vegna umhugað um að hrekja þau ósannindi sem lesendum tímans.is eru borin á borð í umræddum pistli.
Tímapistillinn er svo hljóðandi: "Ögmundur Jónasson þingmaður Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs þekkir vel til sjónvarpsins frá því að hann var fréttamaður Ríkissjónvarpsins á árum áður.  Þar lærði hann margt. Ögmundur veit til að mynda hvað virkar fyrir sjónvarp, nefnilega stuttir frasar með stórum orðum. Það sem Ögmundur hefur hins vegar ekki  lært er að það er mikill munur á því að segja satt eða segja ósatt.
Í eldhúsdagsumræðum á þingi sl. þriðjudagskvöld varð Ögmundi sem fyrr tíðrætt um hvað allt er ómögulegt á Íslandi, hvað allir hafa það skítt, hvað þjóðfélagið er á mikilli niðurleið og hvað öllum líður illa. Venju samkvæmt kenndi hann ríkisstjórninni um þetta allt saman. Það væri að æra óstöðugan að hrekja vitleysuna orð fyrir orð en það er ágætt dæmi að taka niður í miðri ræðunni og athuga hvaða staðreyndir Ögmundur bar á borð fyrir þjóðina.  Þar sagði hann m.a.  “Ferill ríkisstjórna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í utanríkismálum er dapurlegur. Ekki aðeins vorum við hengd aftan í tagl herveldanna í Íraksinnrásinni og íslenska þjóðin þannig gerð meðsek í stríðsglæpum. Núverandi forsætisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, neitaði að styðja ályktun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um að kynþáttamúrinn illræmdi í Palestínu færi fyrir alþjóðadómstól. Ekki að múrinn yrði rifinn, nei, að hann færi fyrir dómstól. Tillagan var samþykkt en án stuðnings Íslands.”

Stór orð hjá Ögmundi. En er eitthvað hæft í þeim? Það vill nefnilega þannig til að afstaða Íslands í þessu máli er kýrskýr.  Hún hefur ávallt verið sú að Ísraelar hafi rétt á að byggja þennan múr á eigin landi, og hér skal undirstrika síðustu þrjú orðin “á eigin landi” en algjörlega væri ljóst að samkvæmt alþjóðalögum hafi Ísraelar ekki nokkurn rétt til að ráðast í slíkar framkvæmdir á hernumdu landi.  Ísland fordæmir sem sagt múrinn en er jafn sannfært um að eina leiðin til að koma á friði á þessu svæði sé með samningum. Því hafa íslensk stjórnvöld stutt vinnu þeirra sem koma að Vegvísinum svokallaða og þeir sem þekkja þar gleggst til hafa látið í ljós þá skoðun sína að hvers konar málshöfðanir séu til þess eins fallnar að herða enn þann hnút sem deilan er í.  Á þeim forsendum ákváðu öll ríki ESB að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um málshöfðun fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Öll þessi ríki töldu að vænlegra væri að fara pólitíska leið til lausnar málinu en ekki dómstólaleiðina. Ögmundur er augljóslega sá maður sem vill fara með mál beint fyrir dómstóla en reyna ekki að leysa málin fyrst.

En minntist Ögmundur nokkuð á í ræðu sinni að Íslendingar hafi stutt þá tillögu sem lögð var fram að Ísraelar færu að niðurstöðu Alþjóðadómstólsins?  Nei, enda  hentar það ekki dómaranum Ögmundi Jónassyni.   Skiptir sannleikurinn kannski engu fyrir Ögmund? "

 

Hvað skyldi vera rangt í þessu? Það er alveg hárrétt að Norðurlöndin og Evrópusambandsríkin sýndu það dugleysi að styðja ekki tillöguna sem fram kom á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og gagnrýndi ég það margoft á sama hátt og ég hef til dæmis gagnrýnt málflutning okkar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum þótt við séum þar í samfloti með hinum Norðurlöndunum. Það er engin syndaaflausn að vera í samfloti með öðrum.

Ef lögmæti múrsins hefði verið staðfest hjá Alþjóðadómstólnum, hefði jafnframt stefna Sameinuðu þjóðanna, margítrekaðar samþykktir og yfirlýsingar, allt frá stofnun Ísraelsríkis fallið um sjálfa sig.  Þess vegna sætti furðu að Ísland og Evrópuríkin, ef því er að skipta, styddu ekki tillöguna. Sennilega hefðu þau stutt slíka tillögu gagnvart Suður-Afríku á sínum tíma. Hvað þau hefðu gert ef það hefði verið í óþökk stórveldisins í vestri skal þó ekkert fullyrt. Um velvild Washington snýst þetta mál nefnilega að nokkru leyti - því miður.

Því fer fjarri að ég vilji alltaf fara dómstólaleið eins og látið er að liggja hjá tímanum.is, jafnvel þótt samningar séu í boði. Hér var það hins vegar Þriðji heimurinn sem var að reyna að styrkja Palestínumenn í erfiðri frelsisbaráttu. Allir þeir sem til málanna þekktu vissu að dómsmálið gat ekki annað en unnist. Það voru aðeins úrtölumenn og ríki sem ekki vildu ganga of hart gegn Ísrael og Bandaríkjunum sem ekki studdu þessa leið. 

Hér er brot af utandagskrárumræðu á Alþingi 19. febrúar árið 2004 :

Ögmundur Jónasson: "…Þegar til langs tíma er litið hafa Íslendingar stutt frelsisbaráttu Palestínumanna. Sú barátta hefur notið alþjóðlegs stuðnings. Hún byggir m.a. á samþykktum Sameinuðu þjóðanna til langs tíma, en margoft hefur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktað gegn yfirgangi Ísraelsríkis. Þessar ályktanir hafa hins vegar verið hunsaðar af Ísraelsríki og hefur það notið stuðnings Bandaríkjastjórnar en þar er komin skýringin á því að vítahringurinn er ekki rofinn.
Það er rétt sem hér hefur komið fram að sjaldan hefur yfirgangur og ofbeldi Ísraelsríkis verið eins yfirgengilegt og ofbeldið eins grímulaust og undanfarin missiri, en sýnileg mynd þessa ofbeldis er hinn illræmdi aðskilnaðarmúr.
Ef Palestínumenn væru dökkir á hörund, ef þeir væru svartir og Ísraelsmenn hvítir væri það augljóst öllum mönnum hvað hér er á ferðinni; grímulaus aðskilnaðarstefna, ,,apartheid``. Þannig er það hins vegar ekki samkvæmt orðum og skilgreiningum hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar. Hann talar um deiluna og deiluaðila. Hefði það verið gert í Suður-Afríku á sínum tíma? Ég held ekki.
Hvað getur Ísland lagt af mörkum til að leysa þetta mál? spyr hæstv. ráðherra. Já, við getum barist af alefli gegn þessu ofbeldi og mér er óskiljanlegt hvers vegna Ísland var ekki í hópi þeirra ríkja á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem studdu tillögu um að lögmæti aðskilnaðarmúrsins yrði skotið til Alþjóðadómstólsins
í Haag. Það væri fróðlegt að fá skýringar hæstv. ráðherra á því efni.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra: ".. Við höfum fordæmt byggingu múrsins með ótvíræðum hætti á vettvangi SÞ. Þá spyrja menn: Af hverju sat Ísland hjá þegar leitað var eftir því að vísa málinu til dómstólsins í Haag. Það gerðum við ásamt 77 öðrum þjóðum, öllum Norðurlöndunum og öllum Evrópusambandsríkjunum.
Svarið er einfalt. Við teljum það í sjálfu sér óþarft vegna þess að afstaða okkar er skýr. Við teljum okkur ekki þurfa þess vegna að fá álit Alþjóðadómstólsins í Haag. Þar að auki teljum við að það geti tafið og spillt fyrir friðarferlinu.
Ef úrskurður Alþjóðadómstólsins í Haag verður ótvíræður þá mundi það verða hjálp í þessu máli. Ef hann er hins vegar óljós sem ástæða er til að ætla vegna þess að þar koma saman dómarar frá mörgum löndum sem gætu leitað málamiðlunar þá gæti sá úrskurður orðið vatn á myllu Ísraelsríkis til þess að treysta múrinn í sessi þannig að það er ekkert ótvírætt að fá álit Alþjóðadómstólsins í Haag. Ég veit ekki til þess að Íslendingar hafi ávallt viljað fá þann dómstól til þess að úrskurða um viðkvæm mál…"

Nú væri fróðlegt að heyra frekari útleggingar þeirra Tímamanna á sannleikanum. Hér hefur komið fram að ég fór með rétt mál þrátt fyrir dylgjur þeirra um hið gagnstæða. Sá grunur læðist þó að mér að svo ósjálfstæðir kunni þeir að vera í hugsun, að hafi Ísland átt samleið með Norðurlöndunum eða öðrum Evrópuríkjum í alþjóðlegu deilumáli, þá sé það hafið yfir gagnrýni. Við skulum ekki gleyma því að umrædd tillaga var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta þótt Evrópuríki hafi ekki fyllt þann flokk.

Tímaskrifarar rifja upp þá tíð þegar ég gegndi starfi fréttaskýranda erlendra frétta hjá RÚV. Iðulega leitaði ég þá til þeirra manna um framlag sem fróðastir voru taldir um utanríkismál. Í þeim hópi, og reyndar í sérstöku uppáhaldi hjá mér, var Þórarinn Þórarinsson, fyrrum ritstjóri Tímans. Hann var í senn víðsýnn og sjálfstæður í hugsun. Einnig fyrir Íslands hönd. Það er af sem áður var á þeim bænum.