TÖKUM STEFNUNA AFTURÁBAK!
Síðastliðinn miðvikudag og fimmtudag sat ég málþing á vegum Public Services International, Alþjóðasamtaka starfsfólks í almannaþjónustu, um skuldsetningu ríkja. Á ráðstefnunni voru tekin dæmi af efnahagsþrengingum af völdum skuldsetningar og greindi ég frá reynslusögu Íslendinga, en einnig var fjallað um skuldastöðu Grikklands og Argentínu. Sjónir fundarfólks beindust þó fyrst og fremst að Púertó Ríkó en ráðstefnan fór fram í höfuðstað eyjarinnar, San Juan.
Púertó Ríkó er ekki einsdæmi um alvarlega skuldsetningu í þessum heimshluta en smáríkin í Karíbahafinu eru flest skuldum hlaðin. Ekki hefur þeim skuldum verið hlaðið upp á ábyrgð fátækrar alþýðu þessara ríkja þótt lánveitendur krefjist þess að þær hvíli á herðum hennar. Njóta þeir þar stuðnings öflugustu auðvaldsríkja heims og helsta stjórntækis þeirra á alþjóðavísu, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Borgarstjórinn í San Juan, Carmen Yulin Cruz, flutti eftirminnilegt ávarp í tengslum við ráðstefnuna og sagði hún meðal annars að framvindan væri vægast sagt ískyggileg fyrir Púertó Ríkó. Dagurinn í dag væri verri en gærdagurinn og morgundagurinn ætti eftir að verða ennþá verri. Púertó Rikó væri komið í hringiðu sem sogaði samfélagið niður á við. Heimurinn væri ekki að batna að þessu leyti, heldur versna og í stað þess að bruna áfram og fram af hengifluginu yrði að snúa við og halda til baka. Með öðrum orðum, nú yrði að taka stefnuna afturábak!
Þetta voru sláandi orð og vekjandi og umhugsunarvert ákall um grundvallar stefnubreytingu ef við ætlum að stefna til raunverulegra framfara á komandi árum fyrir almenning á skuldsettum fátækum svæðum.
Í mínum huga eru skilaboðin inn í þessa umræðu skýr einsog ég hef stundum sagt áður. Heimurinn verður að forgangsraða. Og þá þarf að spyrja, viljum við að forgangsraðað sé í þágu einkaeignarréttinda eða í þágu mannréttinda. Og gleymum því ekki að eignarréttindin sem um er að ræða eru „eignarréttindi" milljarðamæringa og mannréttindin snúast um það hvort fátækt fólk fái notið heilbrigðisþjónustu og menntunar. Í mínum huga er valið einfalt.