Tölvupóstsmaðurinn víki!
Sæll Ögmundur. Viðbrögð Friðriks Páls Jónssonar, ritstjóra Spegilsins, við athugasemdum fyrrverandi borgarstjóra Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, núverandi útvarpsstjóra, eru skiljanleg í ljósi tölvupóstsendinga þess síðarnefnda. Þeim sem ekki búa í glerturni og hlusta á útvarp er ljóst að óttastjórn Markúsar er að fara illa með útvarpið og þeir sem telja útvarpið hafa hlutverk bregðast við þegar æðsti yfirmaðurinn dregur tennurnar úr útvarpinu, ljóst en einkum leynt. Ég get ekki tekið fyrir að rógsherferð sé í gangi gegn einhverjum starfsmönnum RÚV. Ég sé að sú meinta herferð beinist ekki gegn vinafólki forystu sjálfstæðismanna, Gísla, Elínu, Boga, og Loga, sem pluma sig bærilega, en látum það liggja milli hluta. Ég hef ekki forsendur til að dæma um flokkspólitíska starfsemi innan RÚV, en ég hef skoðun á því sem ég les og sé. Þar er Markús á þunnum ís. Hraðlestur útvarpslaganna sýnir öllum sem lesa vilja, að það er einn og aðeins einn maður sem bera alla ábyrgð í stofnuninn, það er tölvupóstsmaðurinn sjálfur. Alveg burtséð frá því hve mörg tölvupóstsbréf hann skrifar þá getur hann almennt ekki firrt sig ábyrgð að óbreyttum útvarpslögum. Hann ber raunar líka ábyrgð á því að RÁS 2 er enn rekin í Reykjavík og ekki á Akureyri eins og lagt var fyrir hann að gera. Hann ber ábyrgð á fjármálastöðu stofnunarinnar og hann ber líka ábyrgð á því hvernig sullað er saman dagskrárefni og auglýsingum, beinum og óbeinum, þvert á bæði reglur og lög. Hann ber líka ábyrgð á morgunútvarpinu, t.d. þættinum á Rás 2 sem þeir kalla Morgunvaktin. Bóndi minn hlustar á þennan þátt sem þýðir að ég hlusta stundum með öðru eyranu. Það vekur athygli mína að þarna virðist vera alveg ákveðinn viðmælendahópur sem kemur reglulega í huggulegt spjall við dagskrárgerðamennina tvo, Svein Helgason og Óðin Jónsson. Akureyringar eru tíðir gestir í þættinum, fólk í kringum Baugsveldið er eins og fréttaskýrendur, Kaupþingsmenn aufúsugestir, kratar og talsmenn fyrirtækisins Frétt. Oftast stendur upp úr þessu liði sami strókurinn og sömu áherslurnar í löngum viðtölum. Manni dettur stundum í hug að Baugur kosti þáttinn. Ætli tölvupóstsmaðurinn hlusti ekki á þessar munngælur á morgnana?
Ólína