TRAUSTIÐ ER HRUNIÐ
Heill og sæll Ögmundur.
Atli Gíslason sagði á þingi ígær að menn þyrftu að stíga afskaplega varlega til jarðar varðandi síkn eða sekt þeirra sem þingmannanefndin mun fjalla um. Að mér læðist sá grunur að þingmenn muni taka á vinnufélögum sínum með ofurmjúkum silkihönskum og enginn verði dreginn til ábyrgðar. Ég trúi því nefnilega ekki fyrr en ég tek á því að siðbótin sé komin inn í sali þingsins. Ég hef enn ekki hitt nokkurn mann sem treystir nefndinni fullkomlega fyrir þessu vandasama verki. Í mínum huga kemur aðeins eitt til greina: Við, alþýða þessa lands sem er hinn raunverulegi vinnuveitandi ykkar, á að skipa þann dóm sem mun ráða örlögum þeirra sem brugðust þjóðinni á örlagatímum. Þverskurður þjóðarinnar, fólk úr hinum ýmsu stéttum og úr dreifðum byggðum landsins á að skipa dóminn, ekki þingmenn sem munu aldrei geta dæmt vinnufélaga sína og jafnvel samherja til margra ára af fullkomnu hlutleysi. Það er nú einu sinni þannig að traust alþýðunnar á stjórnvöldum og þingmönnum, sem og embættismönnum í þessu volaða kerfi er gjörsamlega hrunið og tortryggnin allsráðandi. Eitt er alveg öruggt, ólgan í samfélaginu, svokölluð búsáhaldabylting er eins og helgileikur á leikskóla miðað við það sem koma mun verði enginn dreginn til ábyrgðar.
Árni Þorsteinsson