TREYSTI Á ÞIG
Heill og sæll Ögmundur
Nú eru erfið mál uppi. Og því miður virðist það svo, séð utan frá, að margir þeir þingmenn sem maður hefur treyst á til þess að takast á við slík mál séu að hopa. Ótrúlegur viðsnúningur hefur orðið á málflutningi og gjörðum frá því í vor. Nú er mál að spyrnt sé við fótum.
Ég treysti á þig Ögmundur, sem svo oft áður, til að standa fast á móti þessum brjálæðislega samningi sem IceSave er. Ekki bara með þeim hætti að þú greiðir atkvæði gegn honum heldur skora ég á þig að berja saman andstöðu í flokknum, berja kjark í menn til að tala sömu tungum og þeir töluðu í kosningabaráttunni.
Ég hef lesið þennan samning, þessa nauðung og ég trúi því ekki að flokkur eins og VG ætli sér að standa fyrir því að samþykkja slíkt ok yfir þjóðina.
Hér er öllu spáð í kalda kol verði þessi ósköp ekki samþykkt. Það má skilja á Streingrími og Birni Val að hér verði bara auðn og tóm ef þetta gengur ekki í gegn.
Veistu, ég hef heyrt þennan málfultning áður. Þetta er sami sálmurinn og Íhaldið söng þegar það kom á kosningafundi á Keflavíkurflugvelli í den, þegar maður vann í hermanginu. Þá sögðu Matti Matt og fleiri að ef herinn færi þá legðist millilandaflug af á Íslandi í þeirri mynd sem það var þá. Mér fannst það vera bull þá - og það reyndist bull. Mér finnst þessi Icesave talsmáti sambærilegt bull í dag.
Bestu kveðjur,
Guðmundur Brynjólfsson