TROJUHESTAR FJÁRMÁLAHEIMSINS
Nú er komið á daginn að Landsbankinn gaf ríkisstjórninni rauðvín og var ég farinn að hafa af því áhyggjur að hinir fákeppnisaðilarnir hefðu ekki gert eitthvað svipað. Annað hefði verið brot á góðu samráði. Mér létti því stórlega þegar í ljós kom að Glitnir hafði gefið ráðherrunum kampavín. Ég bíð spenntur eftir að vita hvað KB banki gafi. Auðvitað er þetta allt saman hégómi í samanburði við allt sukkið og spillinguna í kringum okkur. Ein flaska af víni. Allir að gefa öllum. En Guðfríður Lilja Grétarsdóttir benti réttilega á það í Silfri Egils í gær að í sínum huga snerist þetta alls ekki um eina flösku af víni heldur væri þetta fyrst og fremst táknrænt um það hvernig stjórnmála- og fjármálaheimurinn væru að renna saman í einn graut. Þetta er mergurinn málsins, ekki ein rauðvínsflaska til eða frá. Össur Skarphéðinsson sagðist í sama þætti hafa fengið gjafir frá samtökum fatlaðra. Ágætt, enginn að amast við því enda vel að slíkri gjöf kominn. Hitt á hins vegar að verða okkur umhugsunarefni þegar við sjáum teikn um það hvernig fjármálaheimurinn reynir að aka sínum Trojuhestum inn fyrir múra Stjórnarráðsins. Galdurinn með Trojuhestinn var að enginn áttaði sig á því hvað væri að gerast þegar innrásarher var komið inn fyrir múra hinnar hersetnu borgar í fagurlega smíðuðum hesti sem borgarbúum var færður að gjöf! Látum hið táknræna verða okkur tilefni til að staldra við.
Haffi